14.8.2018 | 18:26
Er hægt að detta eða síga upp í móti?
Talsverður munur getur verið á ástæðum þess að gera athugasemdir við málfar. Þó verður að gera greinarmun eftir því hvort um órökrétt orðalag sé að ræða.
Á síðari árum færist það í vöxt að nota sagnirnar að detta og síga í öfugri merkingu, það er, að þær túlki hreyfingu upp á við.
Fyrirsögnin á fréttinni um Selá, sem tengd er við þennan pistil, gæti bent til þess að veiðin í ánni sé svo litil að hún verði ekki nema þúsund laxar á árinu.
Ef veiðin er að "detta í þúsund laxa" er rökrétt að verið sé að tala um að veiðin hafi áður, til dæmis á sama tíma í fyrra, verið meiri en þúsund laxa, en sé nú að detta niður í þessa tölu.
En við lestur fréttarinnar kemur þveröfugt í ljós: Veiðin er að detta upp á við!
Hvað eftir annað er sögnin að síga notuð á svipaðan hátt; talað um að eitthvað sígi uppá við.
Orðtakið "sígandi lukka er best" er gott dæmi um það, því að ekkert getur sigið upp á við og því fráleitt að það sé gott að lukkan fari sígandi.
En þeir, sem segja þetta, meina einmitt þveröfugt; best er að lukkann vaxi hægt.
Íslenskan á ágætt orð yfir bæði vöxt og minnkun, sig og ris, sögnina að "nálgast."
En hún er sárasjaldan notuð.
P.S. Í tveimur athugasemdum hér á eftir er rakið, hvernig sögnin "að síga" hefur haft tvenns konar merkingu í gegnum aldirnar, bæði að lýsa lóðréttri hreyfingu niður á við, en einnig láréttri, bæði afturábak og áfram, samanber "að láta undan síga" og líka hitt, sem séra Friðrik yrkir í einum af KFUM-sálmum sínum:
"Myrkraherinn; syndasveimur
sígur móti oss."
Selá að detta í þúsund laxa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Væri ekki réttara að segja stígandi lukka?
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 20:23
Jú, jú, og líklega er það upprunalega orðað þannig.
Ómar Ragnarsson, 14.8.2018 kl. 21:09
Sígandi lukka er best
EFTIR JÓN G. FRIÐJÓNSSON
Mér hefur verið bent á að stundum er farið rangt með málsháttinn Sígandi lukka er best (19. öld) þannig að í stað sígandi er notað ?stígandi . Þar með er sú viska sem að baki liggur fyrir borð borin þar sem merking málsháttarins vísar ekki til "vaxandi (stígandi) gæfu eða láns" heldur "hamingju, láns" sem kemur "jafnt og þétt (sígandi)".
Málshættir fela í sér visku eða sannindi sem dregin eru af reynslu genginna kynslóða, enda eru það alkunn sannindi að Oft er gott það er gamlir kveða (Hávamál) og Spakir menn henda á mörgu mið (Sturlunga). Í þessu tilviki eru sannindin þau að betri er sígandi arður en snúandi en þá gerð málsháttarins er að finna í fornu máli, Páls sögu. Þar merkir arður "plógur" þar sem -r- er stofnlægt (arður-arður-arðri-arðurs) en arður merkir einnig hagnaður (arður-arð- arði-arðs), rétt eins og plógur vísar oftast til "verkfæris" en getur einnig vísað til "hagnaðar", sbr. fjárplógur og fjárplógsstarfsemi. Sígandi lukka vísar því til "gæfu sem kemur hægt og bítandi" alveg eins og sígandi arður sem notaður er sem andstæða við snúandi arður.
Í mörgum málsháttum koma fram efasemdir um þessa heims gæði, t.d. Allt er fallvalt í heimi hér og Hamingjan er óstöðug. Svipuð efahyggja kemur fram í málshættinum Það þarf sterk bein til að þola góða daga og því er það ekki hollt fyrir ungt fólk sem er að byrja búskap, að fá allt upp í hendurnar, sígandi lukka er best. Þessi afstaða kemur fram í ýmsum myndum, m.a. í málshættinum Hollari er húsbruni en hvalreki á fyrsta ári.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 21:24
Sæll Ómar.
Vísað er til þess að eitthvað gangi hægt og jafnt fyrir
sig; hóflegt sbr. [betri er] sígandi arður (plógur)
en snúandi, átt við lukkuhjól sem andstæðu hins fyrra
enda snýst það hratt; stígandi er með sama hætti mótsögn
við sígandi.Sérhver láti sér sína lukku nægja!
Húsari. (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 21:44
Hvort detta menn upp eða niður þegar þeir "detta íða"?
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 23:12
Þakka ykkur kærlega fyrir góðan fróðleik, Haukur og Húsari. Minnir mig á það sem Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra sagði einu sinni: "Það er ekki alltaf gæfulegt að æða af stað með gassagangi, - betra að fara hægt af stað en síga á!"
Ómar Ragnarsson, 15.8.2018 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.