74 ár frá hruni fyrstu Ölfusárbrúarinnar.

1944 var Ölfusárbrú ein af stærstu brúm landsins, byggð árið 1891 og þá ætluð umferð hestvagna, hesta og gangandi fólks, því að þá var hafið stutt tímabil í samgöngusögu landsins, sem kalla má hestvagnatímabilið og lauk skyndilega fyrir einni öld. 

Eðli málsins samkvæmt voru bílarnir 1944 orðnir margfalt þyngri og fleiri en hestvagnarnir höfðu verið, og brúin því orðin úrelt. 

Brúin var hengibrú, líklega eina stóra brúin af þeirri gerð á landinu á þeim tíma , því að Þjórsárbrú var haldið uppi af tveimur stálbogum, og nokkrar smærri brýr síðar með trapesulöguðu burðarvirki, svo sem yfir Jöklu hjá Klausturseli. Fnjóskárbrú 1908 og Hvítarárbrú 1929 voru steinsteyptar bogabrýr og brýrnar yfir margar ár voru á steinstöplum.

Þegar tveir þungir vörubílar voru eitt sinn á Ölfusárbrúnni í einu, brast annar tveggja strengja, sem brúin hékk í, og féllu bílarnir í ána. 

Mannbjörg varð, en atvikið var áminning um að gæta að burðarþoli brúa landsins. 

Búið er að gera nýjar brýr yfir Borgarfjörð, Markarfljót, Þjórsá og fleiri fljót og fyrir löngu er orðið tímabært að gera nýja aðalbrú yfir Ölfusá, auk þess sem endurbæta þarf þá brú, sem er að verða sjötug og var barn síns tíma. 

Nýja Þjórsárbrúin er sérstaklega hönnuð fyrir stóra jarðskjálfta og raunar stóðust bæði elsta brúin og brúin frá 1945 stóra skjálfta. 

Nokkrar gamlar brýr í vegakerfinu eru með þyngdartakmörkunum, sem stundum eru virtar að vettugi. 

Þannig ætlaði flutningabílstjóri einn að láta á það reyna, hvort bíll hans kæmist yfir eina af þess tíma elstu brúm á Suðurlandi, þótt hann bryti með því bæði gegn breiddartakmörkunum og þyngdartakmörkunum. 

Af ummerkjum eftir á var svo að sjá að bílstjórinn ætlaði að fara það hratt yfir brúna að hún hefði ekki tíma til að bresta. 

Hann varaði sig hins vegar ekki á því að vegna þyngdar bílsins svignaði burðarvirki brúarinnar inn á við, svo að það þrengdi svo mjög að bílnum beggja vegna, að hann stórskemmdist við að hálffestast í brúnni. 

En honum tókst með naumindum að sleppa yfir með bílinn stórlega laskaðan.  


mbl.is Hrun brúarinnar: Hvað vitum við?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Bílar hrundu niður", má lesa í frétt í Morgunblaðinu um Morandi-brúar slysið. Flónin í Mogganum kunna ekki íslensku.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.8.2018 kl. 05:34

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ómar var þessi hengibrú yfir Ölfusá smíðuð af bresta hernum og þá við Kaldaðarnes (Kallaðarnes)eða var það önnur.?

Valdimar Samúelsson, 15.8.2018 kl. 09:18

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, hún var smíðuð af dönskum kunnáttumönnum á sama stað og núverandi brú, bara örlítið lægra á bökkunum. Hún var ónýt eftir að annar bogastrengurinn slitnaði og var rifin og fjarlægð. 

Ómar Ragnarsson, 15.8.2018 kl. 13:51

4 identicon

1944 voru fleiri en ein hengibrú á landinu. Jökulsá í Axarfirði, Sogið, Örnólfsdalsá, Hörgá og Þjórsá (stálbogabrúin var ekki byggð fyrr en 1950) að ógleymdri Ölfusárbrúnni. Og það voru enskir smiðir og verkfræðingar (frá Newcastle) sem settu Ölfusárbrúna upp.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 15.8.2018 kl. 16:21

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Ómar en mig minnir að Bretar hafi smíðað eina sem hrundi líka kannski vitleysa.

Valdimar Samúelsson, 15.8.2018 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband