27.8.2018 | 00:59
Horfið fólk á fullu við "talningar."
Skrá embættis ríkislögreglustjóra hefur verið á fullu við að "telja" þá 120 einstaklinga, sem horfið hafa sporlaust hér á landi síðan 1945, og ekki er nú með að skráin sé sjálf búin að vera iðin við þessa talningu, heldur hafa einstaklingarnir verið á fullu við að telja sjálfa sig.
Sagt er í tengdri frétt um þetta á mbl.is um þá einstaklinga, sem hafa horfið á sjó að þeir "telji 64 einstaklinga."
Það er málleysa og rökleysa að nota sögnina að telja á þennan hátt, en þetta er plagsiður í fjölmiðlum, til dæmis um að ákveðinn dýrastofn "telji" svo og svo mörg dýr.
Dýrastofnar telja ekki neitt, heldur eru það menn sem telja dýrin.
120 einstaklingar hafa horfið á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég tel að orðið "telja" geti haft fleiri merkingar en bara þá að kasta tölu á eitthvað, merkingar sem ekki eru taldar upp í litlu orðabók Ómars.
Ætli eitthvað barnabarn Ómars taki við af honum og hneykslist í framtíðinni á því að Hafnarfjörður skuli vera kenndur við samkynhneigð í "Þú hýri Hafnarfjörður"?
Hábeinn (IP-tala skráð) 27.8.2018 kl. 02:03
Það er viðurkennt að orðið "hýr" geti þýtt tvennt á svipaðan hátt og orðið gay og ekkert við það að athuga.
"Litlu" orðabækurnar mínar sem Hábeinn/Hilmar reynir að smækka sem mest eins og allt sem mér viðkemur, eru nú reyndar allt upp í rúmlega þúsund blaðsíður og þar er hvergi að sjá neitt um að að dýrastofnar geti talið neitt.
Þetta órökrétta orðalag varðandi notkun sagnarinnar að telja á sér ekki hliðstæðu í ensku sögninni "to count."
Hins vegar er stundum notað orðalagið "amounts to" sem er allt annað orð.
Ómar Ragnarsson, 27.8.2018 kl. 09:27
Alltaf gaman að gera samanburð á orðalagi ýmissra tungumála. Í þýsku er til að mynda sagt: "Diese Geimende zählt 500 Einwohner." Sem þýðir í orðréttri þýðingu; þetta sveitarfélag telur 500 íbúa. Ég kannast hinsvegar ekki við svona orðalag í ensku sem og í íslensku. Í minn Orðabók Menningarsjóðs (1250 bls) finn ég ekki að sögnin að telja sé notuð eins og gert er í fréttinni.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.8.2018 kl. 11:09
Enda er orðið algerlega óþarft. "Hreindýrastofninn er 2000 dýr". er alveg nóg.
"Hreindýrastofninn telur 1200 dýr er óþörf málalenging, rétt eins og málalengingin "að vera staðsettur."
Dæmi:
"Verslunin er staðsett að Laugavegi 20" er óþarfa málalenging.
Það er alveg nóg að segja: "Verslunin er að Laugavegi 20."
Ómar Ragnarsson, 27.8.2018 kl. 12:15
Afsakið innsláttarv9llu. Talan 2000 átti að vera í báðum dæmunum um hreindýrin.
Ómar Ragnarsson, 27.8.2018 kl. 12:16
Mikilvægt að vekja máls á þessu, Ómar. Skemmdum fréttum fjölgar, því miður.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.8.2018 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.