"Það sem er ekki í bílnum bilar aldrei".

Henry Ford var snillingur við hönnun einfaldra og ódýrra bíla og Ford T bíll hans, sem seldist á tímabili eins vel og allir aðrir bílar heims samanlagt, byggðist á snjöllum einföldum lausnum. 

15 milljón Ford T bílar seldust 1908 til 1927. Íhaldssemi Ford varð til þess að verksmiðjurnar urðu næstum gjaldþrota á fimmta áratugnum.

Í Ford T, var engin vatnspumpa og heldur ekki bensínpumpa, og fjaðrirnar voru aðeins tvær í stað fjögurra.

Ford streittist á móti vökvahemlum frá 1933 til 1939. Fyrstu árin var aðeins hægt að snúa vélina í gang með handafli og aldrei var boðið upp á annan lit en svartan.

Vélin var algerlega óbreytt allan framleiðslutímann þótt 20 hestöfl væru orðin alltof fá. 

Hin arfaúrelta fjöðrun var enn við líði hjá Ford árið 1948 þegar 14 ár voru síðan keppinautarnir tóku upp sjálfstæða fjöðrun að framan. 

En Ford sagði: "Það sem ekki er í bílnum bilar aldrei." Og það er mikið til í því. 

Í sögu flugvéla og bíla eru mörg dæmi um það að sífellt flóknari tækni og sjálfvirkni getur getið af sér slys og mistök, sem ekki yrðu ef þessar töfralausnir væru ekki til. 

Í eina tilfellinu þar sem stærsta farþegaþota heims, Airbus A-380, var hætt komin, fólst mesta hættan í því, að aðvörunarkerfi vélarinnar var svo óskaplega flókið og "fullkomið", að þegar bilun í einni leiðslu í einum hreyflanna olli keðjuverkun, blikkaði þvílíkur sægur af aðvörunarljósum og aðvörunarpípin voru svo mörg, að það hefði eitt og sér getað valdið því að flugstjórarnir yrðu ringlaðir og gerðu illt verra í fáti. 

Sem betur fór sýndu þeir fádæma rósemi og yfirvegun og unnu úr vandanum. 

Sem lítið dæmi úr bílabransanum get ég nefnt það, að af ótal bílum, sem ég hef átt og notað á langri ævi, hefur aðeins einn þeirra hrekkt mig hvað varðar atriði, þar sem ég hef haft orð Henry Ford í huga. 

En það er öll hin mikla raf- og tölvuvæðing á öllum hlutum, svo sem fjarstýringar og rafknúnar rúður. 

Aðeins í einum gömlum bíl hafa rúðuhalarar bilað, og það voru einmitt rafknúnar rúður í afturdyrum gamals fernra dyra Suzuki Grand Vitara. 

Fyrir nokkrum árum tók önnur afturrúðan upp á því að fara að rúlla sér upp og niður af sjálfsdáðum á óviðráðanlegan hátt. Í sumar tók síðan rúðan hinum megin upp á því sama. 

Í bæði skiptin var ég í langferðalagi og þetta olli miklum vandræðum og töfum.

Þegar ég hitti bifvélavirkja af gamla skólanum, fræddi hann mig um það að í rafkerfinu, sem sæu um að rúlla upp og niður, væru vírar, sem ryðguðu smám saman og ef þeir færu að slást saman eða slitna, færi allt í klessu. 

Eina ráðið væri að taka allt úr sambandi og festa rúðurnar í hæstu stöðu. 

Á gamla Fox og Samurai var bein handskipting á milli háa og lága drifsins. 

Á Jimny var sett vakúmdrifin skipting, sem var hrein afturför að öllu leyti. 

Nú má sjá að á nýja Jimny er komin gamla góða og pottþétta beina handsskiptingin. 

Vakúmið á bak og burt undir kjörorðinu: "Það sem ekki er í bílnum, bilar ekki." 

Bara ef það væri hægt að fá bílinn án rafknúinnar rúðuupphölunar. 

 

 


mbl.is Boeing sendir frá sér öryggisviðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband