19.11.2018 | 14:43
Gloppóttur og seinheppinn, karlinn?
Heitið á bænum, sem breyttist úr paradís í helvíti í skógareldunum í Kaliforníu, varð samstundis fleygt um allan heim, vegna þess að bærinn hét Paradise, Paradís.
Þess vegna var svo neyðarlegt að Donald Trump skyldi hafa gleymt nafninu þegar hann stóð þar í rústunum, ef hann hefur þá nokkurn tíma tekið eftir því hvað bærinn hét.
Og flest var skárra en að nota orðið Pleasure town í staðinn. Að minnsta kosti myndi flestum hnykkja við ef vitnað væri í Krist á krossinum með því að hafa eftir honum það, sem hann sagði við annan ræningjann og orða það svona: "Í dag skalt þú verða með mér í Pleasure town."
Og síðan vitnar hann í Finnlandsforseta varðandi það að Finnar raki skóga sína af miklum móði.
En sá finnski kemur af fjöllum og segist aldrei hafa sagt neitt slíkt.
Trump virðist einstaklega óheppinn á þeim stöðum þar sem hamfarir hafa verið verstar og mannfall mest.
Hann kenndi íbúum Puerto Rico í fyrstu um tjónið og mannfallið þar, en ári síðar var eins og hann hefði alveg gleymt því, því að þá sagði hann allt í einu að björgunaraðgerðir þar hefðu verið stórkostlega vel heppnaðar.
Virtist hafa gleymt því sem hann sagði ári fyrr og gleymt því að það fórust 3000 manns.
En það er svo sem ekki nýtt að minnið förlist á stundum hjá ráðamönnum.
Þegar Ronald Reagan hitti Íslendinga opinberlega í Washington vildi hann hæla öllum Norðurlöndunum þegar hann hældi Íslendingum, en rak í vörðurnar þegar hann mundi greinilega ekki eftir hvað þessi ríki hétu.
Bjargaði sér fyrir horn með því að segja: "...Iceland and, eh, and, eh, those other countries."
Finnar gera grín að Trump | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hjá lambsins stól í hefðarstandi
Helvíti og Paradís
Signaður Trump og sannleiksandi
sjöföldum gáfum uppljúkandi!
Húsari. (IP-tala skráð) 19.11.2018 kl. 16:04
Fyrir kurteisis-sakir notar þú orðið "gloppóttur" (frábært orð yfir hann, hahaha)og "seinheppinn" (ennþá betra orð..hahaha) og síðan hið nýjasta hjá orðvana og "gloppóttum" alþingismönnunum okkar á Íslandi "óheppinn". - Þetta bjargaði fyrir mig deginum ! - Þú hefur lengi verið húmoristi og maður mikilla sátta og vildir (án þess að gera þér upp orð) ekki styggja eltihrella þína á vefnum og réttnefna þennan kjána. - Annar eins kjáni hefur hinsvegar aldrei stýrt nokkru einasta þjóðríki, og það jafnstóru, en kannski er það, að hann er meðal jafningja þar. - Kall greyið, og hans "followers".
Már Elíson, 19.11.2018 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.