27.11.2018 | 09:24
En kona getur samt verið á Karli og karl á Konu.
Ef einhverjum dettur í hug að orðinu kona verði komið fyrir kattarnef, eins og gantast er með á tengdri frétt á mbl.is, sýnir hann fádæma óraunsæi, því að einn heitasti og nýjasti bíll bílastórveldisins Hyundai heitir einmitt Kona og Íslendingar, sem eru örþjóð, fá engu um það breytt, heldur flykkist fólk til að fá sér þennan nýja bíl ásamt keppinautum hans.
Í boði verða venjuleg Kona, tvinntengil Kona og rafKona, sú síðastnefnda er með 64 kílóvatsstunda drægni. Og síðastnefnda orðið er meira að segja skylt sagnorðinu að draga og nafnorðinu dráttur.
Til að bæta gráu ofan á svart hefur heitasta söluvara Opel verksmiðjanna síðustu misseri verið smábíllinn Karl, og ber ættarnafnið, sem réði heitinu á nýjasta bílnum þar á undan, sem heitir Adam.
Það hefði toppað allt ef þeir bræður hefðu átt systur, sem hét Eva.
Fljótlega eftir að Opel Karl var kynntur var kynnt ný gerð hans, Opel Karl Rocks, sem er með verjum að neðanverðu, eins og myndin sýnir.
Þannig að nú er fullkomlega eðlilegt að í samræmi við fornar íslenskar málvenjur geti svona samtal átt sér stað, þegar frændinn talar við unglinginn, sem hann hittir einan heima rétt eftir hádegi á laugardagi:
"Hvar er mamma þín?"
"Hún er á Karlinum að prófa nýja Karlinn."
"En pabbi þinn?"
"Hann er á Konunni að prófa nýju Konuna."
"Nú, það er bara svona."
Afnám orðsins kona úr íslensku máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.