Fjölgar "fjarverandi vegfarendum"?

Þegar síðuhafi gerir upp reynslu sína af því að hafa verið á ferð um hjóla- og göngustíga borgarinnar í fjögur ár, standa nokkur atriði upp úr varðandi fyrirbæri, sem nú er orðið meiri ógnvaldur í umferðinni en ölvun að sögn Samgöngustofu, og nota má yfir orðin "fjarverandi vegfarendur." 

Þetta er vaxandi fjöldi fólks, sem ýmist er upptekið í farsímum sínum eða aflestur af mælum undir stýri á bílum og hjólum eða gangandi, -  eða upptekið við hlustun í gegnum ýmist þráðlaus heyrnartól eða raunveruleg. 

Síðara fyrirbærið er einstaklega lúmskt þegar aðrir vegfarendur geta ekki séð hvers kyns er, fyrr en um seinan, því að sumt af þessu fólki, sem ekki heyrir hvað fer fram í kringum það, getur verið alveg einstaklega utangátta og jafnvel hættulegt gagnvart öðru fólki á förnum vegi. 

Nokkur eftirminnileg dæmi má nefna, meðal annars tvö skipti þar sem viðkomandi "fjarverandi vegfarandi" vék í öfuga átt við mætingu og hrakti hjólreiðamanninn, sem á móti kom út í limgerði utan gangbrautar þar sem hjólið hafnaði á tré! 

Þegar komið var í návígi og samstuð við þessa viðutan gangandi vegfarendur, blasti ástæðan við: Heyrnartól í eyrum höfðu greinilega svift þá nægilega ráði og rænu til þess að þessi uppákoma gæti orðið. 

Frá fornu fari eru bjöllur á reiðhjólum til þess að hægt sé að gefa staðsetningu þeirra til kynna. Nú orðið er þetta ágæta öryggistæki orðið gagnslítið og nær ekkert notað. 

 

 


mbl.is Þráðlaus heyrnartól í ræktina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Nógu slæmt er að fást við
utangátta vegfarendur ef ekki
kæmi enn fleira til, - það
nægði mér a.m.k. til að hætta þessari vitleysu
því það er rétt sem Halldór sagði:
Ekki spurning um hvort heldur hvenær.

Er bráðnauðsynlegt að bíða eftir því?

Húsari. (IP-tala skráð) 12.2.2019 kl. 00:54

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enginn okkar fær neinu um það ráðið hvort, hvenær eða hvar einhver í umferðinni  tekur upp á því að taka sig út úr og sveigja í veg fyrir þann, sem kemur á móti, eða að gera eitthvað álíka. 

Fyrir átta árum tók bílstjóri sem sat í kyrrstæðum bíl úti á útskoti gegnt Gunnarsholtsvegamótum upp á því, gersamlega upp úr þurru, að svifta bílnum af stað og þverbeygja í veg fyrir mig þar sem ég kom úr vestri. 

Ekkert stefnuljós, ekki neitt sem gaf til kynna að þetta stæði til. 

Þá bjargaði mér að gömlu áunnu rall-viðbrögðin voru í lagi, nauðhemlun til að minnka hraðann, sem var 80, bremsunni sleppt til að sveigja framhjá þessum stóra jeppa, svo nálægt honum, að engu mátti muna. 

Sleppa á milli jeppans og skiltis á eyjunni en stýra bílnum beint út af. 

Ef þessi reynsla hefði ekki verið fyrir hendi hefði ég ekki verið til frásagnar. 

Hefði ég átt að sleppa rallakstrinum með hugarfarinu "ekki spurning um hvort, heldur hvenær?" 

Á ég að hætta við að nota farartæki og fara alls ekki eftir gangbrautum yfir akbrautir nema enginn bíll sé sjáanlegur? 

Raunar er ég farinn að hafa það fyrir sið, að ganga ekki yfir nema enginn bíll sé í ljósi reynslunnar á gangbrautinni hérna um árið. 

Ómar Ragnarsson, 12.2.2019 kl. 01:52

3 identicon

Sæll Ómar.

Það er ekki saman að jafna bifreið og hjóli
hvað öryggi varðar.

En vitanlega er þetta þitt mál
og verður því ekki meir um það tætt.

Húsari. (IP-tala skráð) 12.2.2019 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband