Mögnuð saga á bak við gerð verðlaunamyndar.

Það vildi svo til, að síðuhafi heyrði af munni Benedikts Erlingssonar þegar vorið 2016 hugmynd hans að meginefni kvikmyndarinnar "Kona fer í stríð."

Mörg verk þessa snillings höfðu fram að því vakið hrifningu og hlotið lof, en satt að segja óaði mér við þeirri dirfsku, sem bjó að baki þessari geggjuðu hugmynd. 

Óttaðist að áhættan með gerð hennar væri of mikil og að hætta væri á því að nú gæti komið að því að Benni kollsigldi sig. 

Gaman var að fylgjast með töku á einu atriði myndarinnar í miðborg Reykjavíkur og sjá síðan kröfuharða úrvinnslu úr henni. 

Á Edduhátíðinni í kvöld kom endanlega í ljós, að þessi dirfska hins hugmyndaríka, fjölhæfa og snjalla listamanns, hefur fært honum einstaklega glæsilega uppskeru. 

Raunar hef ég sjaldan hrifist eins í kvikmyndahúsi og þegar myndin birtist þar, og sigurganga hennar á kvikmyndahátíðum erlendis er engin tilviljun. 

Íslenska kvikmyndagerð er það sterk um þessar mundir og keppinautar "Konunnar" það góðir, að segja má að þeir hafi verið óheppnir að þurfa að keppa við Benedikts, - annars hefðu þeir verið vel að Eddunni komnir á hinni glæsilegu hátíð í kvöld.

Einn af styrkleikum myndarinnar er sá, að hún vekur umræður og knýr menn til skoðanaskipta. 

Og þá kemur í ljós að það er ekki aðeins að menn andstæðra skoðana sjá hana í mismunandi ljósi, heldur hefur það jafnvel gerst, menn eins og Jón Magnússon, hafa fyrstu fallið mær eingöngu fyrir því hve vel hún var gerð, en síðar áttað sig á því að hægt var að finna út úr henni aðra merkingu en þeir höfðu talið hana hafa í upphafi.  


mbl.is Konan sigursælust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband