4.5.2019 | 11:15
Sveitarstjórnarkosningar hafa oft fellt flokka og forsætisráðherra.
Bæði íslensk og erlend stjórnmálasaga geymir mörg dæmi um það, að enda þótt sveitarstjórnarkosningar eigi að mestu að snúast um val á heppilegum stjórnendum einstakra sveitarstjórnarkjördæma, getur sterkur meginstraumur skilað afdrifaríkum áhrifum inn í landspólitíkina.
Sem dæmi um þetta hér á landi má nefna kosningarnar 1958 og 2006.
Í kosningunum 1958 galt Alþýðuflokkurinn þvílíkt afhroð í Reykjavík að líkja mátti við alger hrun. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hins vegar bestu útkomu sögu sinnar, 57 prósent atkvæða og 10 borgarfulltrúa.
Sjallar voru í stjórnarandstöðu og ráku mjög harða og óvægna gagnrýni á Vinstri stjórnina, sem sat að völdum með Alþýðuflokkinn í samstarfi við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag.
Stjórnendur Alþýðuflokksins urðu felmtri slegnir og það gerði auðveldara fyrir að leita að leið út úr klemmunni.
Kosið hafði verið í janúar, en í desember sprakk stjórnin og ekki var frekar hægt að kenna krötum um það en hinum stjórnarflokkunum, því að bæði á sviði launþegasamtakanna og í stjórnarsamstarfinu var hver höndin upp á móti annarri.
Sambönd Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands inn i sína gömlu flokka, Alþýðuflokk og Framsókn, auk tengsla hans við Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tengdason hans, Gunnar Thoroddsen borgarstjóra og Alþíngismann, gerðu honum kleift að standa á bak við tjöldin að myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins á grunni tvenns konar samkomulags; annars vegar um róttæka breytingu á kjördæmaskipaninni í samvinnu þriggja flokka gegn Framsókn, og hins vegar samvinnu Krata og Sjalla um bráðabirgða efnahagsaðgerðir, sem urðu undanfari farsælasta stjórnarsamstarfs í sögu fullveldisins fram að því í Viðreisnarstjórninni.
Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 mörkuðu þvi djúp spor í stjórnmálasögu landsins.
Hitt dæmið um afleiðingar af sveitarstjórnarkosningum birtust í miklum ósigri Framsóknarflokksins í byggðakosningunum 2006, en það hratt af stað atburðarás, sem endaði með því að flokkurinn hrökklaðist úr stjórn 2007.
Þá hafði flokkurinn verið samfellt í stjórn með Sjálfstæðisflokknum frá 1995 og fengið, í ljósi góðrar útkomu í Alþingiskosningunum 2003, að setjast í forsæti stjórnarinnar síðla árs 2004, þegar þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrimsson höfðu sætaskipti; Davíð varð utanríkisráðherra og Halldór forsætisráðherra.
En í tíð Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra, fór að fjara undan velgengni flokksins, og fylgistapið 2006 í sveitarstjórnarkosningunum virtist valda því, að hann fór að missa stjórn á atburðarás stjórnmálanna, en það er atriði, sem er afar nauðsynlegt að hafa í lagi hjá hverjum stjórnmálamanni.
Ýmislegt bendir til þess að hann hafi farið á taugum og síðan misst móðinn þegar tímabundinn heilsubrestur bættist við annað, sem var mótdrægt.
Halldór ákvað að taka sinn hluta ábyrgðar á ósigrinum með því að láta af formennsku Framsóknarflokksins, en missti gersamlega stjórn á atburðarásinni í kringum afsögnina, þannig að í flokknum ríkti ákveðin ringulreið fram að Alþingiskosningunum 2007, þegar flokkurinn tapaði svo miklu fylgi, að Sjálfstæðismenn ákváðu að leita á önnur mið um stjórnarsamstarf.
Ofangreint er rakið hér sem dæmi hjá okkur Íslendingum, af því að þau hafa gerst á vettvangi sem við þekkjum vel, en eiga sér hliðstæður í stjórnmálasögu annarra landa.
Það reyndist afdrifaríkt fyrir íslenska forsætisráðherra 1958 og 2006 að verða fyrir áföllum, missa tök á atburðarásinni í kjölfar sveitarstjórnarkosninga og hrökklast út úr pólitík fyrir bragðið.
Nú er spurningin hvort eitthvað svipað vofi yfir breska forsætisráðherranum og flokki hennar.
![]() |
Íhaldsmenn guldu afhroð í kosningunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.