"Stigaklifur", góð íþrótt, sem hægt er að stunda í þúsundum húsa.

Í ár eru liðin 60 ár síðan síðuhafi hóf að stunda íþrótt, sem hefur reynst ákaflega gefandi og skemmtilegt sport. Það þarf nefnilega ekki heilt fjall eins og Esjuna til þess að stunda hana, heldur einungis stiga í húsi upp á minnsta kosti þrjár hæðir. 

Þetta sport má nefna stigahlaup, og kallast þá að vísu hlaup, en er það ekki nema að hálfu leyti, því að þegar læknir bannaði síðuhafa að stunda hlaup fyrir 14 árum vegna uppslitinna hnjáa, átti hann við venjuleg hlaup á jafnsléttu þar sem líkaminn lendir í hverju skrefi af miklum þunga niður á fæturna í gegnum hnén og þessar þúsundir og allt upp í milljónir lendinga slíta hnjáliðunum upp. 

Auk þess fékk síðuhafi á tímabili svokallað "tábergssig" sem hefur líka fengið viðurnefnið "hlauparaveikin." 

Fætur frummannsins voru einfaldlega ekki skapaðir fyrir langvarandi hlaup á hörðu undirlagi.

"Tábergssigið" felst í því að vegna hinna milljóna lendinga í hverju hlauparaskrefi lendir allur líkaminn harkalega á iljunum, þannig að smám saman éta neðstu beinin sig í gegnum vefina í iljunum og þær verða svo helaumar, að maður haltrar. 

Verður að fara til sérfræðinga og láta mæla þetta svæði og fá sérsniðið innlegg til þess að lagfæra þetta. 

En lækninum, sem lagði upphaflega til að setja gerviliði í hnén hjá mér, sást yfir það, að í stigahlaupi þar sem teknar eru tvær tröppur eða fleiri í hverju skrefi, hverfa lendingarhöggin nær alveg, því að lóðrétti kompónentinn í skrefinu gerir ferilinn upp stigana að klifri frekar en hlaupi. 

Ég hafði lofað lækninum að hætta að hlaupa, en ég lofaði honum ekki að hætta að "læðast hratt", eins og ég hef stundum kallað stigaklifrið. 

Þegar ég var að taka þátt í að byggja og síðan að eiga heima í blokkinni á Austurbrún 2, fólst stigaklifrið í því að hlaupa við mælingu skeiðklukku frá neðstu hæð upp á 12. hæð, en í því felst færsla upp um 11 hæðir nettó. (12-1= 11 hæðir). 

Hraða lyftan og sú minni fór þetta á 30 sekúndum, en stóra lyftan á einni mínútu. 

Íþróttin byggðist á því að vera jafn fljótur upp og hraða lyftan og þetta reyndist afar góð æfing, því að hún reyndi á allt, flýti, snerpu, hraða og úthald. 

Á sextugsaldrinum var þetta stundað í 14. hæða blokkinni að Sólheimum 23, og nettó var hlaupið upp 13 hæðir. 

Nú hafði hraðinn minnkað með aldri og aukinni líkamsþyngd, þannig að tíminn upp 13 hæðir var 50 sekúndur. 

Útvarpshúsið var notað um árabil á sjötugsaldrinum og hlaupið frá 1. upp á 5. hæð (4 hæðir nettó) á innan við 30 sekúndum. 

Síðustu fimm ár áttræðisaldursins hefur stigaklifrið verið framkvæmt í nokkurra metra fjarlægð frá heimilinu í blokkaríbúð, og tíminn frá kjallara upp á fjórðu hæð, fjórar hæðir nettó, verið innan við 30 sekúndur öll þessi ár. 

Það er aðeins lakara en upp jafn margar hæðir í Útvarpshúsinu, því að þar er hærra undir loft á hverri hæð. 

Þetta klifur og hæfilegar hjólreiðar á rafreiðhjóli hefur styrkt hnén svo mjög, að það eru liðin 14 ár síðan sérfræðilæknir vildi að skipt yrði um báða hnjáliðina, en tekist hefur að seinka því í þessi 14 ár. 

Vegna umferðarslyss fyrir þremur árum voru teknar myndir, sem sýndu svo mikið slit á hnjánum, að mér var sagt, að eðlilegt væri að skipta um hnjáliðina og mér ráðlagt að láta sérfræðing líta á hnén. 

Þegar ég fór til sérfræðilæknisins að nýju eftir öll þessi ár í tékk, varð hann undrandi yfir því að ég skyldi enn hólkast um á þessum hnjám, en féllst á þá kenningu að stigaklifrið og hjólreiðarnar hefðu skapað furðu mikinn árangur. 

Hluti af því að hafa haldið klifurtímanum fyrir neðan 30 sekúndur síðustu árin felst í að fínslípa klifurtæknina og nota svipaða aðferð og í kappakstri, að draga úr hraðaminnkuninni í 180 gráðu beygjunum með því að hafa þær nógu víðar til þess að halda hraðanum. 

Þetta atriðið er nefnt "racing lines" á erlendu tæknimáli. 

Auk þess hefur nokkurra kílóa létting vafalaust hjálpað til. 

En það er rétt að ítreka að stigaklifur er sérlega góð æfing til að viðhalda breiðu þreki, flýti, snerpu, hraða og úthaldi og hægt er að stunda klifrið á þúsundum staða. 

Kannski mætti stofna samtök um þessa íþrótt, "Stigaklifurssamtök Íslands"?

 


mbl.is Crossfit-fólk tætti upp Esjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband