5.6.2019 | 15:54
Í bílum eru eldfim efni.
Í umræðunni, sem orðið hefur um eldhættu í rafbílum, hefur það alveg gleymst, að í olíu- og bensínknúnum bílum eru svo eldfim efni, að það er grunnurinn að því hve margfelt meiri orka er í bensíngeymi en jafnþungri rafhlöðu.
Það er ekki út í bláinn að orkugjafinn er kallaður eldsneyti og vélin sprengihreyfill.
Frá upphafi hefur eldhætta verið viðfangsefni bílahönnuða og bílasmiða.
Á Ford T og fleiri bílum voru bensíngeymar í upphafi bílaaldar hafðir fyrir aftan og ofan vélina. Það hafði þann kost í för með sér, að bensínið rann úr geyminum til vélarinnar fyrir þyngdaraflinu, svo að það þurfti ekki bensíndælu.
Allt fram yfir síðustu aldamót voru framleiddir bílar með bensíngeymana í hefinu, svo sem Volkswagen Bjallan, til 2003, og Trabant, til 1992.
Einnig var Fiat 600 með geyminn fremst í þrjá áratugi eftir 1956 og Fiat 500 frá 1957-1975.
Renault 4CV, Dauphine og 8 voru líka með geyminn að framan auk rassvélabíla á borð við Skoda 1000MB, Hillman Imp og NSU Prinz.
Þegar framdrifsbílar urðu vinsælir, voru varadekkin oft sett efst í vélarhúsið, svo sem á Fiat 127 og 128 og Subaru Leone. Þetta gaf færi á stækka farangursrýmið.
Á tímabili á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru framleiddir bílar með vélina frammi í en með bensíngeymana í afturhorni bílsins.
Þetta voru, meðal annarra, fyrstu gerðirnar af Ópel Kadett, Ford Escort og Pinto.
Fræg varð mynd af því hvernig Pinto varð alelda eftir árekstur aftanfrá.
Í ljós kom nefnilega, að eldhætta af þessum bensíngeymum var enn meiri en ef geymarnir voru í nefinu, þótt ótrúlegt megi virðast.
Á Reykjanesbraut varð banaslys á sínum tíma þegar Ford Escort snerist þar í hálku svo að afturhorn hans rakst framan á bíl sem kom á móti og eldur kviknaði í bensíngeyminum.
Á síðari árum hefur orðið æ algengara að bensíngeymarnir séu undir aftursætum bíla og er varla hægt að finna betri stað.
Og þó.
Á upprunalega Willys-jeppanum 1941 var bensíngeymirinn á stað sem var afar hentugur, bæði af öryggisástæðum en einnig vegna rýmisnýtingar og þyngdardreifingar.
Þetta var undir framsætinu.
Þegar Honda Jazz kom á markaðinn sló hann öllum bílum af svipaðri stærð við varðandi rýmisnýtingu og farangursrými með því að geymirinn var settur undir framsætið.
Fyrir bragðið varð farangursrýmið 350 lítrar.
Alelda bíll á Reykjanesbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er tölfræði: hve oft miðað við eintök á götunni/ekna kílómetra.
Þannig er Teslan með eldfimari bílum, með fá eintök á götunni, en grunsamlega marga eldsvoða.
Hef ekki heyrt að Leaf eigi við þetta vandamál að etja, af einhverjum sökum. Kannski vegna þess að Teslan er "súper." Ofurbílar eru bara eldfimir, sama hverju þeir ganga fyrir.
Þetta vandamál verður engineerað í burt, eins og allt annað.
Ásgrímur Hartmannsson, 5.6.2019 kl. 20:07
Ómar þú ert flugmaður og ættir að þekkja að rafmótorar og alternatorar brenna hvað þá rafgeymar og kveikja í bílnum. Hvað hafa margar Teslur brunnið en ekki er eldsneyti þar.Ég segi Teslur vegna þess að heyrist mest um þær.
Valdimar Samúelsson, 5.6.2019 kl. 21:34
Rafbílar hafa átt til að brenna fyrirvaralaust án sýnilegrar ástæðu.
Slökkviliðs og sjúkraflutningamönnum er kennt að nálgast rafbíla eftir árekstur, með sérstakri varúð, því þeir geta gefið hressilegt rafstuð.
Það er ekkert verið að auglýsa þetta sérstaklega þegar rafbílar eru dásamaðir.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.6.2019 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.