Samgöngumannvirki á borð við brýr, vegamót, hafnir og flugvelli laða að sér byggð.
Á þjóðvegi eitt urðu brýrnar yfir Ölfusá, Ytri-Rangá, Þverá, Skaftá, Lagarfljót, Héraðsvötn og Blöndu til þess að þéttbýli myndaðist við þær eða sem næst þeim, þ. e. Selfoss, Hella, Hvolsvöllur, Kirkjubæjarklaustur, Egilsstaðir, Varmahlíð og Blönduós.
Breyttar aðstæður gátu á sumum stöðunum leitt til þess að það mynduðust umferðartafir í þessum þorpum eða þá að brúarstæðin urðu til þess að lengja þjóðveginn óhæfilega.
Þannig var brúin yfir Ytri-Rangá, sem varð til þess að þorpið á Hellu myndaðist, afar mjó og leiðin að henni og frá þröng og krókótt þar sem hún lá í gegnum þorpið.
Þegar hugmynd kom um að gera nýja brú talsvert neðar við ána, urðu miklar deilur og heyrðust setningar sem enn lifa góðu lífi annars staðar, svo sem að tilfærsla brúarinnar yrði "dauðadómur fyrir bæinn" og að öllu skipti "að leiða umferðina í gegnum bæinn."
Andstæðingar nýs brúarstæðis gáfu sér það að það að þorpið hafði myndast við brúna þýddi að þéttbýlið gæti hvergi verið annars staðar, ekki einu sinni við nýja brú.
Ingólfur Jónsson, kenndur við Hellu, enda kaupfélagsstjóri þar, sá hins vegar í hendi sér, að ný brú myndi laða að sér nýtt þéttbýli, sem tryggði vöxt þorpsins og beitti sér fyrir því að hún yrði gerð.
Málið var allt nákvæmlega eins vaxið og deilan um nýja Ölfusárbrú norðan við Selfoss er.
Nú er talað um nauðsyn þess að "leiða alla umferð í gegnum bæjarmiðjuna í Selfossbæ, þar sem hefur verið vaxandi umferðaröngþveiti vegna þrengsla í áraraðir.
Þetta umferðaröngþveiti á álagstímum hefur skapað mikla töf á umferðinni yfir Ölfusá, enda leiðin hvorki bein né greið nema síður sé.
Rétt eins og var á Hellu, gefur auga leið að best sé að búa til greiðari og styttri leið yfir nýja brú fyrir norðan bæinn.
Á Hellu kom í ljós, að tilfærslan á brúnni varð ekki til þess að fólk hætti að versla eða eiga erindi í þorpinu, heldur stansaði það þar ef á þurfti að halda.
Og smám saman hefur atvinnu- og þjónustustarfsemi þorpsins færst að nýju brúnni, en munurinn samt sá, að í stað algers öngþveitis og þrengsla við gömlu brúna, er leiðin greiðari um nýju brúna, og þeir sem um hana aka, eiga val um það hvort þeir vilja stansa eða halda áfram í stað þess að reynt sé að neyða fólk til þess að stansa.
En stefnan "að leiða umferðina inn í bæjarmiðjuna" lifir enn góðu lífi á tveimur til þremur stöðum við þjóðveg eitt, á Blönduósi, í Varmahlíð og á Egilsstöðum.
Á Egilsstöðum var tækifæri til að stytta leiðina frá Seyðisfirði vestur yfir Lagarfljót í stað þess að þvæla ferðamönnum suður í þorpið og siðan aftur út úr því til norðurs inn á Lagarfljótsbrú.
Ef þjóðvegur eitt yrði lagður beint frá Stóru-Giljá yfir í miðjan Langadal við Fagranes, yndi þjóðvegur eitt styttast um 14 kílómetra og það yrði arðsamasta vegaframkvæmd landsins.
En í staðinn er öllum, sem koma að sunnan, gert að aka í norður út á Blönduós og síðan í suður um Langadal og greiða á leiðinni fram og til baka alls um 3000 krónur í aukinn aksturskostnað samkvæmt taxta ríkisins.
Samt liggur fyrir, að við brúna hjá Fagranesi, sem er innan vébanda Blönduósbæjar, væri hægt að byggja upp þjónustu líkt og gert var á Hellu án þess að sveitarfélagið Blönduás missti þá starfsemi frá sér. Á Hellu var því til leiðar komið á sínum tíma að styrkja heimamenn til að aðlagast breyttri vegarlínu, og miðað við þá miklu fjármuni sem vinnast við styttinguna um Húnavallaleiðina, eins og hún hefur verið kölluð, er styrkur til breytinga vel hugsanlegur.
Síðan er líka styttingarmöguleiki um Skagafjörð, þótt hann liggi ekki eins augljóslega við. Ef þjóðvegur eitt yrði lagður beinni leið en nú er, austur úr Stóra-Vatnsskarði og á ská yfir í syðsta hluta Blönduhlíðar, yrði styttingin minnst 6-7 kílómetrar.
Sú stytting, plús styttingin um Húnavallaleiðina er alls 20 kílómetrar, 40 kílómetrar samtals fram og til baka með um 4000 króna auka aksturskostnaði, og hálftíma lengri aksturstíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.