7 sekúndurnar voru samkvæmt Evrópustaðli fyrir 40 árum.

Sérstök ljós fyrir beygjur komu fyrst til sögunnar hér á landi fyrir rúmum 40 árum og þá strax byrjuðu hin séríslensku vandræði með sjö sekúndurnar, þannig að það þýðir ekkert að kenna Degi B, Ingibjörgu Sólrúnu, Davíð Oddssyni eða öðrum borgarstjórum síðari áratuga um þessi vandræði.  

Erlendur sérfræðingur var hafður með í ráðum, þegar beygjuljósin voru stillt og lagði hann til í ljósi reynslunnar erlendis, að láta slík ljós loga allt niður í sjö sekúndur í einu, en í Evrópu átti sá tími yfirleitt að nægja til þess að 5-7 bílar kæmust yfir á grænu ljósi. 

Sérfræðingnum yfirsást hins vegar hegðunarmynstur íslenskra bílstjóra, sem afrekuðu það oft á tíðum að sjaldan komust fleiri en tveir bílar yfir á ljósinu og í sumum tilfellum einn eða jafnvel enginn bíll. 

Og í ofanálag var það algengt að menn héldu áfram að dratthalast í beygjunni eftir að komið var rautt ljós og valda með því öryggisleysi og hættu í umferðinni. 

Ástæðurnar fyrir þessu rammíslenska rugli okkar eru margar, en lýsa sér yfirleitt þannig, að engu er líkara en að bílstjórar séu sofandi eða á kafi í símunum sínum. Nefnum tvennt:  

1. Þeir sem eru fremstir við ljósin eru hálfsofandi eða að fást við snjallsímann og hafa enga tilfinningu fyrir því að sofandaháttur þeirra og sérgæska skaði þá sem eru fyrir aftan þá. Stundum eru margir tugir metra á milli bílanna þegar þeir drattast yfir. 

2. Á mörgum gatnamótum halda ökumenn áfram að aka yfir eftir að rautt ljós er komið fyrir framan þá og koma með því í veg fyrir að þeir, sem þá eru búnir að fá grænt ljós í öðrum akstursstefnum, geti nýtt sér það. 

Á mörgum gatnamótum er því meira og minna umferðarstopp þegar bílar, sem drullast hafa inn á gatnamótin, hafa lent þar í kös sem lokar fyrir allt flæðí. 

Víða í landi frelsisins, Bandaríkjunum, er bannað að fara inn á gatnamót ef bílstjóranum má vera það ljóst að hann muni festast þar og valda umferðaröngþveiti.  Liggja viðurlög við. 

Enda líta menn þar í landi svo á, að enginn hafi rétt á að skerða frelsi annarra af geðþótta sínum. 

Ekki er kunnugt um að nokkurn tíma hafi neitt verið gert hér á landi til að stemma stigu við svona háttalagi. 

Á sínum tíma var kvartað við erlenda sérfræðinginn, en hann hristi hausinn og sagðist aldrei hafa séð annan eins vitleysisgang. 

Eftir að hann var farinn var byrjað á að lengja tímann fyrir græna ljósið, en eftir bráðum hálfrar aldar afmæli beygjuljósanna, hefur ekkert breyst. 

Allir bölva öllum fyrir ástandið en enginn gerir neitt til að breyta því. 

Enda þarf ekki nema einn eða tvo drulluhala til þess að valda usla með sauðshætti sínum. 

Stundum hefur verið sagt að sauðkindin sé hin heilaga kýr Íslands. 

En almennt má alveg eins segja að sauðshátturinn sé hin heilaga kýr okkar. 

 

 


mbl.is 7 sekúndna grænt ljós „algjörlega ólíðandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Helgason

Glæsileg lýsing !!! ???

Tryggvi Helgason, 20.6.2019 kl. 02:01

2 Smámynd: Már Elíson

Almennilegur, rökstuddur og kjarnyrtur pistill ! - Af eigin reynslu þá styð ég hvert orð þessa pistils og hef oft velt þessu fyrir mér en gott að þú komst inn á þetta á þínum vettvangi.

Már Elíson, 22.6.2019 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband