1.7.2019 | 09:28
Kostur, að bíll og hjólhýsi séu aðskilin. "Ég fer í fríið."
Ferðavagnar geta aðallega verið af tveimur gerðum, annars vegar húsbílar, þar sem ferðast er í bíl, sem er með gistiaðstöðu, en hins vegar tjaldvagnar, fellihýsi, hjólhýsi, eða pallhús, sem eru í raun sérstök ökutæki, sem bílar bera ofan á sér (pallhús).
Pallhúsin gleymast oft í umræðunni, en þau hafa þann kost, að lögun þeirra passar við staðlaða lögun margra pallbíla, og því hægt að flytja þau á milli pallbíla.
Ef viðkomandi pallbíll fer að rygða eða verða frekur í viðhaldi, er oftast hægt að færa húsið yfir á annan pallbíl, sem húsið passar við.
Ókostur felst þó í því, að talsvert klifur er oftast upp í pallhús, og vegna hæðar sinnar taka þau á sig meiri vind en lægri ferðavagnar.
Ókosturinn við húsbíla er sá, að notkun gistiaðstöðunnar er algerlega háð ástandi bílsins sjálfs, svo sem vélar eða driflínu.
Meiri hætta er á bilunum, sem hamla för og notkun þegar bíllinn er sambyggður við hýsið, heldur en ef gistiaðstaðan er sjálfstætt tæki.
Þar að auki endast flóknir hlutir og slitgjarnir á borð við vélar og driflínur verr.
Alveg frá því í vor hefur verið í gangi óvenju viðamikil og langvinn auglýsingaherferð fyrir ferðavagna og hún virðist hafa skilað sér.
Það sýnir stemninguna, sem gítarleikið lagið "Ég fer í fríið" vekur, hve vel heppnuð og einföld og ódýr þessi herferð hefur verið.
Lagið "Ég fer í fríið" er ítalskt, sungið af Þorgeiri Ástvaldssyni, og varð að öðrum tveggja sumarsmella Sumargleðinnar 1981.
Hinn smellurinn var "Prins póló" sem Magnús Ólafsson flutti með tilþrifum.
Mig minnir að Þorgeir hafi grafið lagið "Ég fer í fríið" upp eins og það var með ítölskum texta og í byrjun var þjóðþekktur og afar góður textahöfundur fenginn til að gera texta við lagið.
En þessi texti var ekki jafn grípandi og textar þessa höfunar voru almennt og var Iðunn Steinsdóttir jafnframt beðin um að spreyta sig.
Það gerði hún með þeim glæsibrag sem langlífi textans og lagsins hefur sýnt.
Með því að spila aðeins lagið en syngja ekki, komast auglýsendurnir hjá því að borga önnur höfundarréttargjöld en hinum ítölsku höfundum lagsins sjálfs.
Siðfræðilega finnst mér að greiða eigi líka fyrir þau hughrif, sem texti Iðunnar á í því að kalla fram lokkandi sölumöguleika.
Hvort það er gert, veit ég ekki.
Segja að brjálað hafi verið að gera í sölu ferðavagna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Á Austurlandi eru hjólhýsi sem tengd eru aftan í bíl, gjarnan kölluð draghýsi. Þetta kemur í veg f. misskilning á því um hvers konar ferðavagn sé að ræða.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 1.7.2019 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.