Flottasta og óvæntasta viðskiptahugmynd allra tíma?

Þótt Lee Iacocca hefði ekki afreka nema bara eitt, að vera aðalmaðurinn á bak við Ford Mustang, hefði það verið nóg til að halda nafni hans á lofti. Ford Mustang

Fyrirfram var þessi viðskiptahugmynd Iacocca vonlaus. 

Allt benti til þess að Bandaríkjamenn sæktust eftir sífellt stærri og glæsilegri bílum í byrjun sjöunda áratugarins. 

Hin snjalli hönnuður Virgil Exner, sem hafði verið maðurinn á bak við stækkandi og djarflegra Chryslerbíla 1957-1959, lenti í vandræðum 1960. 

Slagorðið "allt í einu er 1960" frá því 1957 var farið að virka á móti sjálfu sér. 

Exner las þannig í vaxandi sölu smærri bíla, að Kanar vildu fá smærri bíla af "bread and butter" bílum Chevrolet, Ford og Plymouth og lét því framleiða smærri bíla 1961. 

Þetta voru yfirleitt ljótir bílar líka, vegna þess að stílæfingar Exners voru komnar í þrot. 

GM taldi sig á góðu róli, nema að í flokki smærri bíla hafði Ford Falcon selst betur en Chverolet Corvair og Plymouth Valiant. 

Corvairinn var með róttækri loftkældri 6 strokka boxervél og talinn misheppnaður, of dirfskufull nýjung. 

Til að reyna að klóra í bakkann gerði GM sportútgáfu af Corvair með litlu og þröngu aftursæti, fjögurra gíra handskiptingu, sportlegum framsætum fyrir tvo og "tjúnaða" vél.

Á þessum tíma voru yfirleitt þriggja manna bekkir frammi í amerískum bílum og engin bílbelti.  

Heildarsalan jókst ekki við þetta, en sportgerðin seldist betur en aðalgerðin. 

Þetta vakti enga athygli nema hjá Iacooca, sem skynjaði að áður óþekkt tilhneiging væri í sókn hjá stækkandi markhópi, sem vildi sportlegan bíl, en samt einfaldan og ódýran og ekki með of mikil þrengsli í aftursætinu. 

Iacocca lagði niður hugmynd að svona bíl, með löngu húddi, stuttu skotti og möguleikum til að nýta nær allar vélar Ford ef á þyrfti að halda. Vera byggður á botni Ford Falcon og með sem flesta hluti sameiginlega með öðrum bílum Ford. 

Svo sannfærður varð Iacocca brátt um að hann hefði rétt fyrir sér að gerðar voru ráðstafanir til að hafa margfalda afkastagetu við að framleiða nýja bílinn. 

Iacocca sá að öllu skipti að nýta sér svefn keppinautanna og setja bílinn í sölu sem allra allra fyrst, mánuðurinn skipti ekki máli. 

Mustang kom á markaðinn 17 apríl sem venjulega var slæmur tími, en reyndist réttur í þessu tilfelli, eins og himnasending fyrir þá sem vildu eignast sportlegt sumar. 

Bíllinn vakti þvílíka athygli, að einstætt er. Gamlar konur flykktust til að skoða og kaupa sér hann, bílstjórar á ferð gleymdu sér við stýrið og óku gegnum búðarglugga, bergnumdir, og unga upprennandi rokk og síðar bítlakynslóðin var í sjöunda himni.

"Litli maðurinn" og gamla konan gátu eignast sparneytinn, léttan og hundódýran bíl með lítill 6 strokka 170 kúbika vél 

Kraftbílaunnendur gátu fengið hann með stærstu og aflmestu V-8 vélunum og óteljandi viðbótarhlutum. 

Engin dæmi eru um þvílíkar viðtökur við einni bílgerð. Það seldust tæplega 700 þúsund Mustangar fyrsta módelárið. 

Afrek út af fyrir sig að geta framleitt svo marga bíla af alveg nýrri gerð strax í byrjun. 

En þessi hraði og sókn varð til þess að enda þótt keppinautarnir flýttu sér að gera eftirlíkingar í Chevrolet Camaro, Pontiac Firebird, AMC Javelin og Plymouth Barracuda o. fl. varð Mustang "The pony car" eins og hinn nýi flokkur bíla var nefndur.  

 


mbl.is Lee Iacocca látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Guðnason

Mörg fræg tilsvör eru höfð eftir þessum snillingi - Spurningunni hvort hann væri ekki faðir Ford Mustang-sins, sagðist Lee Iacocca hafa svarað:
Svo margir hafa sagst vera feður Mustangsins, að ég mundi forðast að láta sjá mig með móðurinni á almannafæri. 
(So many men have claimed to be father of the Mustang, that I wouldn't like to be seen in public with its mother)

Þorkell Guðnason, 4.7.2019 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband