18.7.2019 | 23:37
Uppsetning snjóflóðavarna gengur of hægt.
Fram til 1994 til 1995, þegar þrjú mannskæð snjóflóð féllu á Vestfjörðum, virtust fæstir Íslendingar, hvorki Alþingismenn né sveitarstjórnarmenn gera sér grein fyrir snjóflóðahættunni, sem vofði yfir á mörgum stöðum á landinu.
Í ferð síðuhöfundar til að skoða snjóflóðavarnarstöðina í Davos í Sviss og snjóflóðavarnir þar í landi 1997 kom margt fróðlegt í ljós, enda Svisslendingar með langa reynslu af því að fást við snjóflóðavá.
1. Víða ofan byggða og bæja mátti sjá snjóflóðavarnarmannvirki, sem var ætlað að koma í veg fyrir það á upphafssvæði snjóflóða að þau gætu farið af stað. Fyrir neðan svona varnarmannvirki var talið öruggt að byggja hús og hafa byggð.
2. Sums staðar voru leyfð hús, sem ekki brotnuðu þótt snjóflóð féllu á þau, heldur væru bæði það sterkbyggð og klyfu flóðin eða væru grafin þannig inn í brekkur, að snjóflóð fleyttust fram af þökum þeirra, líkt og skíðastökkvarar. Þegar gefin var út snjóflóðaaðvörun, var íbúum leyfilegt að vera áfram inni í svona húsum á meðan á hættunni stæði, að uppfylltum ströngum skilyrðum um samband við umheiminn og með nægt rafmagn, vatn, vistir og loft.
Eitt hús, sem sneri eins og skip með stefni upp í snjóflóðastefnu, reis á Norðureyri við Súgandafjörð. Framsýnn, sá húsbyggjandi og húsið virkaði.
Hér á landi hefur fyrst og fremst verið farin leið 1. í snjóflóðavörnum og því haldið áfram síðan 1997 eða í meira en 20 ár.
Greint hefur verið frá því í fréttum, að samt sé helmingur heildarverkefnisins eftir.
Þótt mikil bót sé að þeim mannvirkjum, sem komin eru, gengur þetta of hægt.
Þótt nú sé hlýrra loftslag en áður, gilda orð norska sérfræðingsins, sem var kvaddur til eftir snjóflóðið á Seljalandsdal 1994: "Þar sem getur fallið snjór og landi hallar, þar getur fallið snjóflóð."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.