Athyglisverð orð Bjargar Thorarensen í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins.

Björg Thorarensen lagaprófessor hélt athyglisverðan fyrirlestur á málþingi, sem haldið var í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. 

Þar hvatti hún til þess að gerður yrði samanburður á stöðu Íslands gagnvart EES-samningnum frá 1994 miðað við stöðuna nær aldarfjórðungi síðar. 

Nauðsynlegt væri í ljósi mikillar framþróunar við innleiðingar hinna ýmsu reglugerða og laga á þessum langa tíma að endurmeta stöðuna varðandi fullveldi Íslands. 

Gott hefði verið ef þetta hefði verið gert þá í ljósi þeirra miklu umræðu, sem nú hefur skapast. Vafalítið hefði verið betra að taka umræðuna um mat á stöðunni sem fyrst.  


mbl.is EES með yfirþjóðleg einkenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lýðveldið Ísland og Evrópusambandið

Baldvin Nielsen

Eftir Baldvin Nielsen: "Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í umræðunni um ESB hér á landi eftir að verðandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson tekur við starfanum..."

HÆSTVIRTUR forsætisráðherra Davíð Oddsson fór fyrst fyrir ríkisstjórn 1991 þá í samstarfi með Alþýðuflokknum (Samfylkingin). Formaður Alþýðuflokksins var Jón Baldvin Hannibalsson og jafnframt utanríkisráðherra í þeirri ríkisstjórn. Hún gekk undir nafninu Viðeyjarstjórnin. Á þeim tíma leiddi Jón Baldvin þá vinnu að koma í höfn samningi um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og við þau tímamót þegar skrifað var undir samninginn lét ríkisstjórnin í það skína að við Íslendingar hefðum fengið nánast allt fyrir ekkert og velmegun myndi aukast verulega þegar fram liðu stundir.

Andstæðingar aðildar vildu láta reyna á tvíhliða viðræður við Evrópusambandið (ESB) um samning sem yrði svo hægt að auka að efni til eftir atvikum. Þeir sem voru á móti EES-samningnum töldu hann ekki verða til góðs því með honum yrðu tekin tvö skref af þremur inn í ESB sem hefði í för með sér brot á fullveldisákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Annað ákvæði í EES- samningnum um frjálst fjármangsflæði milli aðildarríkjanna skipti sköpum og fullveldissinnar treystu því ekki að okkar litla hagkerfi stæðist ágang erlends fjármagns og myndi því hreinlega sogast inn í hringiðu hagkerfis Evrópusambandslandanna. Þetta myndi leiða til þess að Íslendingar misstu efnahagslegt sjálfstæði sitt í framtíðinni.

Eins og sjá má á þjóðmálaumræðunni í dag hafa erlendar skuldir landsmanna vaxið langt umfram getu okkar litla hagkerfis eftir inngönguna í EES og hafa þær aldrei verið meiri. Góðæriskenningin á sínar rætur frá þessari þróun, skuldir undirstaðan þótt þeirra væri aldrei getið í sjálfum málflutningnum þ.e.a.s. þeirra sem studdu EES-samninginn. Sannarlega hafa þær verkað sem driffjöður á lífæð hagkerfisins hér á landi, já, hér er verið að tala um skuldir, sem jafnframt hafa verið stór þáttur stöðugleikans, svokallaða. En hvar er hin raunverulega framleiðni?

Uppsveifluna í efnahagslífinu má rekja að mestu leyti til uppbyggingar á Reykjavíkursvæðinu sem varð til vegna landsbyggðarflóttans sem hefur verið mikill síðustu tvo áratugina. Hornsteinn þessarar þróunar, (landsbyggðarflóttinn annars vegar og fjármagnsstreymið til uppbyggingar hér syðra hins vegar) var lagður með kvótabraskkerfinu sem tryggt var svo í sessi með aðildinni að EES-samningnum, áratug síðar. Þetta gerði hinum fáu útvöldu kleift að fjármagna mestu búsifjan af mannavöldum í sögu þjóðarinnar. Alls kyns spákaupmennska hefur rutt sér til rúms síðustu árin þar sem arður er gerður úr væntingum og greiddur út í milljörðum til réttra aðila. Þetta hefur verið að gerast í íslensku atvinnulífi og nú síðast í sjávarútveginum á Akureyri, sem tekið sé dæmi.

Sameiningarferli íslenskra fyrirtækja undir nafninu ,,Hagræðing" er eingöngu til þess fallið að fyrirtækin geti haldið sjó á meðan þau eru að ná þeim stærðum á markaðinum að þau verði góður fjárfestingarkostur fyrir stóru erlendu fjárfestana sem bíða handan við hornið. Lykillinn til að ná þessum markmiðum endanlega er innganga okkar í ESB svo að erlendir fjárfestar geti eignast hér áhrif og völd í framtíðinni í okkar annars auðuga landi. Með inngöngunni myndu hinir fáu útvöldu áskotnast mikið fé við að selja auðlindir íslensku þjóðarinar ásamt réttindum til lands og sjávar sem þeir hafa verið að sölsa undir sig síðustu misserin gegn vilja þorra landsmanna.

Íslenskum útflutningsfyrirtækjum er fyrirmunað að stunda sjálfbæran og heilbrigðan atvinnurekstur svo sem í sjávarútvegi og iðnaði. Þau heyja allt að því vonlausa baráttu vegna kvótabrasksins og hás gengis íslensku krónunnar en í staðinn hefur rekstrargrundvelli þeirra verið haldið gangandi með stöðugu flæði af erlendu lánsfé inn í hagkerfið. Gjaldþrot hafa verðið með mesta móti á síðasta ári og sér ekki fyrir endann á þeirri óheillaþróun. Samtök iðnaðarins hafa staðfest flótta iðnfyrirtækja frá Íslandi. Þreytumerki hafa líka komið fram hjá fyrirtækjum sem framleiða gjaldeyrissparandi vörur fyrir innanlandsmarkað og eru í samkeppni við innfluttar vörur sem eru ódýrari en ella vegna gjaldeyrisútsölunnar. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins Sveinn Hannesson vísaði til þeirra staðreynda í Viðskiptablaði Mbl. 26. febrúar s.l. þegar hann sagði að mörg fyrirtæki væru í rekstri þrátt fyrir að í raun væru þau löngu orðin gjaldþrota. Þar kom einnig fram að Samtök iðnaðarins teldu að full aðild að ESB og upptaka evru væri besta vörnin til að bæta markaðsstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja.

Hér ber að hafa í huga þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES samningnum töldu sömu aðilar að stigið hefði verið eitt stærsta skref til sóknar fyrir atvinnulífið hér á landi. Stundum verður manni á að þekkja ekki muninn á vörn og sókn þegar kemur að framsetningu markaðsmála. Matarbúr landsmanna, íslenski landbúnaðurinn, sem er einn stærsti öryggisþáttur í almannavörnum þjóðarinar, vegna legu landsins sem eyríki, er í hættu vegna áhrifa frá Evrópusamrunnanum.

Hörðustu stuðningsmenn aðildar að ESB er að finna í Samfylkingunni og vilja þeir hefja aðildarviðræður sem fyrst. Framsóknarflokkurinn er líklegastur ásamt Samfylkingunni að vera í þeirri ríkisstjórn sem myndi samþykkja inngöngu okkar inn í Evrópusambandið. Hæstvirtur utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, sem settist í stól fyrirrennara síns Jón Baldvins hefur verið að undirbúa jarðveginn fyrir seinni áfangann að Ísland geti tekið þriðja skrefið inn í ESB.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í umræðunni um ESB hér á landi eftir að verðandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson tekur við starfanum 15. september n.k úr hendi núverandi hæstvirts forsætisráðherra Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eftir Baldvin Nielsen, árið 2004 eða fyrir 15 árum.

B.N. (IP-tala skráð) 5.8.2019 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband