Gömlu forfeðurnir voru ekki gallalausir.

Þótt Mitsubishi og hugsanlega fleiri hefðu smíðað fjórhjóladrifinn jeppa á undan Willys, er gamli góði Willysinn samt almennt viðurkenndur sem forfaðir alvöru jeppanna, vegna þess að hann var fjöldaframleiddur.

Hvorki hann né Land Rover voru þó með óaðfinnanlega hönnun, og Rússar urðu fyrstir til að átta sig á því. 

Ástæðan er sú að fyrir 1940 voru vélarnar í bílum yfirleitt hafðar fyrir aftan framhjólabúnaðinn. 

Fyrir bragðið fóru 15 til 20 sentimetrar í súginn aftan við hjólskálar framhjólanna sem annars hefði verið nýtilegt pláss fyrir farþegarýmið.  

Þetta kom sér illa í Willysnum sem var smábíll á alla lund, með aðeins 2,03 metra hjólhafi og um 3,30 m heildarlengd. 

Þeir sem sátu í framsætum, sátu alveg aftur við hjólskálar afturhjólanna og farþegarýmið teygði sig alveg aftur í gafl bílsins. 

Staðsetning vélarinnar gaf að vísu lágan þyngdarpunkt, en gallinn var sá, að aðeins um 25 sentimetra veghæð var undir millikassann. 

Þegar bíllinn var hlaðinn, seig millikassinn neðar. 

Fjaðrirnar voru undir hásingunum og í krapi og klaka tóku þær á sig snjó og krap. 

Land Rover hélt sig við svipaða hönnun, en með sniðugri smá breikkun á bílnum, var hægt að hafa þrjá hlið við hlið frammi í. 

Fyrstu GAZ jeppar Rússa 1953 voru eftirlíkingar af Willys, en síðan komu Rússarnir fram með snilldar breytingu, settu vélina framar, ofan á hásinguna, og færðu með því farþegarýmið um 35 sentimetrum framar en á Willysnum. 

Við það bötnuðu þyngdarhlutföll bílsins stórlega í bröttum brekkum og með 30 sm aukalengingu á hjólhafi, fékkst heilmikið aukarými aftast í bílnum. 

Í ofanálag höfðu Rússarnir þennan jeppa um 20 sentimetrum breiðari en Willys og Land Rover og unnu með því á móti hækkun vélar og driflínu. 

Meira en 10 sentimetrum hærra var undir Rússann en Willys og Land Rover, fjaðrirnar ofan á hásingum og með áður óþekkta mýkt blaðfjaðra. 

Ford Bronco fór svipaða leið 1966 og setti gorma á framhásingarnar. 

Í kjölfarið kom svo Range Rover 1970 sem var langt á undan samtíðinni á alla lund, og síðar var millikössum Land Rover lyft. 

Wrangler er núna líka með öllu hærri millikassa en gamli Willys en hins vegar eru enn vannýttir sentimetrar fyrir aftan framhjólaskálarnar. 

Það telst samt lítilfjörlegur galli hjá þessum mikla alvörujeppa, sem stendur undir nafni á sama tíma sem búið er að eyðileggja hugtakið jeppi í bílabransanum. 

 


mbl.is Tímalaus hönnun skín í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband