19.9.2019 | 23:25
Sagan endalausa.
Á árunum í kringum Hrunið var eðlilega mikil umræða bæði hér á landi og erlendis vegna síhækkandi ofurlauna þeirra, sem sitja í efstu stöðum hjá fyrirtækjum og stofnunum.
Í aðdraganda Hrunsins voru þessi ofurlaun réttlætt með því að störfunum fylgdi svo gríðarlega mikil ábyrgð.
Í samræmi við það hefði mátt ætla, að launin lækkuðu umtalsvert þegar hið hátimbraða efnahagskerfi lenti í mestu hremmingum um áraraðir.
En það var nú öðru nær víðast hvar. Og gullfiskaminnið er mikið, samanber það, hvernig ofurlaun í efstu lögum launastigans hækkuðu mjög í aðdraganda síðustu kjarasamninga.
Nú virðist það allt vera gleymt og grafið hjá öllum, nema kannski forseta Íslands.
Ólga vegna ofurlauna í skugga kjaraviðræðna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Verkalýðsfélögin hafa sum verið hávær, jafnvel háværari gegn háum launum en kjarabótum fyrir sína meðlimi. Enda líklegt til vinsælda að höfða til öfundar fólks og ekki sakar að verið er að ráðast á kjör launþega, einstaklinga, sem ekki nota verkalýðsfélög til að semja um sín kjör. Og baráttan hefur skilað launalækkunum hjá nokkrum konum.
Forsetinn gat hvorki hafnað launahækkunum á sín ofurlaun, skattfrelsi, bílafríðindum, fæðishlunnindum, fatapeningum né fríu húsnæði. Hvað hann kýs síðan að gera eða segist gera við sín laun breytir engu um það hver hans laun eru. Geti samviska hans ekki sætt sig við launin og launahækkanir embættisins þá væri heiðarlegast að segja sig frá embættinu. En hann kýs að sitja áfram í embætti á ofurlaununum og með öllum þeim launahækkunum sem koma kunna.
Vagn (IP-tala skráð) 20.9.2019 kl. 01:28
Á endanum ráðast laun annars vegar af framboði og eftirspurn og hins vegar af því virði sem starfið skapar. Laun fyrir störf sem nánast hver sem er gæti unnið verða því ávallt lægri en laun fyrir þau störf sem aðeins fáir geta unnið, að öðru óbreyttu. Ef starfið skapar mikið virði og fáir geta unnið það verða launin hæst.
Hvað er þá til ráða fyrir þá sem vinna störf sem nánast hver sem er gæti unnið og sem skapa ekki mikinn virðisauka? Hvað er best fyrir þá að gera vilji þeir hækka laun sín umtalsvert?
Margir virðast halda að leiðin til þess sé að setja fram kröfur um miklar launahækkanir og fara í verkföll til að reyna að þvinga þær fram. En er þetta rétta leiðin? Reynslan sýnir að svo er ekki.
Rétta leiðin er sú að afla sér þekkingar eða reynslu sem veitir aðgang að störfum sem skapa meiri verðmæti og þar sem færri eru um hituna. Finna út hvaða sértæku hæfileika maður hefur og byggja á þeim. Því allir hafa eitthvað til brunns að bera sem veitir þeim sérstöðu. Líka þeir sem finnst þeir fastir í láglaunastörfum.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.9.2019 kl. 10:32
Eftir því sem næst er hægt að komast lætur forsetinn launahækkun sína renna til baka inn í ríkissjóð með því að leggja þau til líknarmála, sem snerta ríkissjóð beint.
Ómar Ragnarsson, 21.9.2019 kl. 15:17
Hvað menn gefa eða segjast gefa af sínum launum breytir engu um hver launin eru. Ofurlaun eru ofurlaun þó ofurlaunamaðurinn segist styrkja einhver líknarmál.
Vagn (IP-tala skráð) 21.9.2019 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.