25.9.2019 | 06:51
Nýyrðasmiðurinn Emil Björnsson. "Þynnka"?
Einn þýðingarmesti þáttur9inn í því að viðhalda gæðum og lífsvon íslenskrar tungu felst í smíði nýyrða yfir bæði ný og gömul fyrirbæri.
Fjölnismenn, einkum Jónas Hallgrímsson, unnu ómetanlegt brautryðjendastarf á því sviði þegar ofurveldi dönskunnar var sem mest á fyrri hluta 19. aldar.
Einn margra góðra nýyrðasmiða fyrir hálfri öld var séra Emil Björnsson, fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, og sjá má dæmi um nýja notkun gamals íslensks orðs í fyrirsögninni á mbl.is: "Fyrsta stiklan...frumsýnd..."
Þegar leitað var að heiti á fyrstu þáttaröðinni, sem Sjónvarpið lét gera með nýjustu myndbandstækni þess tíma árið 1981, fann Emil gamla orðið stiklur sem heiti á hana.
Upphafleg merking orðsins er sótt í það fyrirbæri í gönguferðum, sem felst í því að komast sem léttast yfir ár og læki með því að stikla á steinum og grynningum, og einnig birtist orðið í íslensku máli í orðtakinu "að stikla á stóru."
Úr smiðju Emils munu heitin hyrna og ferna komin yfir nýjustu ílátin fyrir mjólk á þessum tíma.
Ekki man síðuhafi hver kom fram með hið frábæra nýyrði þyrla í stað erlenda heitisins helekopter, en heitin þyrla fyrir helekopter og sími fyrir telefón eru dæmi um það hve þjál og snjöll íslensk tunga getur verið.
Emil var afar rökvís og fundvís í senn, og gerði kröfur til nýyrða sinna í því efni.
Þegar heitið léttmjólk var valið yfir þá nýju tegund mjólkur, sem fólst í því að skerða fituna í henni án þess að fjarlægja hana alveg, fannst Emil það heiti bæði of hugmyndasnautt og of mikil eftiröpun á skandinavíska heitinu, auk þess sem það væri tæknilega rangt, því að léttmjólk væri í raun þyngri en venjuleg mjólk.
Emil stakk upp á nýyrðinnu "þynnka" sem bæði lýsti eðli vörunnar betur og væri eins stutt og auðskilið og unnt væri.
Auk þess fólst ákveðin kímni í því heiti.
En Emil varð ekki að ósk sinn í þetta sinn, því miður.
Fyrsta stiklan úr Venjulegt fólk 2 frumsýnd á mbl.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.