Fjórir niðursetningar á einum bæ. Svo stutt síðan.

Í athyglisverðri tengdri frétt á mbl.is er fjallað um niðursetninga fyrr á tíð sem sagnfræðilegt fyrirbæri og er það vel.

En það er ekki lengra síðan að niðursetningar voru til á Íslandi, að síðuhafi var í æsku í sveit á bæ, þar sem voru fjórir niðursetningar, þrjár mæðgur í gömlum, hálfhrundum torfbæ, og ein háöldruð kona í litlu herbergi í íbúðarhúsinu. 

Móðirin í torfbænum var einnig öldruð, lést vorið 1954 þegar mikið fannfergi var enn á jörðu, og lá óhreyfð dauð inni í bænum í marga daga. 

Mæðgurnar þrjár bjuggu við svo óskaplega erfið kjör í torfbænum, að líkja mátti þeim við mennskar moldvörpur. 

Það var ógleymanlegt að kynnast þessu fólki, sem bjó yfir miklu meiri hæfileikum en staða þess benti til. 

Gamla konan í torfbænum, Ásdís Jónsdóttir, skáldkona frá Rugludal, orti mikið um dagana, og á meðan Margrét Jónsdóttir, gamla konan í íbúðarhúsinu, var enn starfandi vinnukona, fékk hún sérstök verðlaun hjá Búnaðarfélagi sýslunnar, fyrir afburða vel unnin störf. 

Hún var bæði ljóðmælt og afar vel að sér í íslenskum og erlendum bókmenntum.  

Síðasta árið, sem Ásdís lifði,  voru niðursetningarnir í meirihluta á bænum, fjórar konur, en "venjulega" heimilisfólkið voru konan, sem var bóndinn þarna, og 19 ára gamall sonur hennar. 

Við að kynnast þessu fólki opnaðist skilningur á vísu Bólu-Hjálmars: 

 

Víða til þess vott ég fann, 

þótt venjist frekar hinu, 

að Guð á margan gimstein þann, 

sem glóir í mannsorpinu.  


mbl.is Niðursetningum fjölgaði í harðæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Áhrifamikil færsla hjá þér Ómar. Kvikmynd af bænum með frásögninni væri áhrifamil.

Halldór Jónsson, 2.10.2019 kl. 11:43

2 Smámynd: Halldór Jónsson

 Skelfileg lýsing hjá Sigríði í Mbl:

„Þetta of­anskrifað bú­andi fólk nær­ir sig og sína á litlri [svo] mjólk, sölv­um og smær­um, og fisk­korni, þegar fisk­ast vet­ur og sum­ar, og er ein­um guði kunn­ug­ast, hvað það hef­ur liðið og þolað í nokk­ur umliðin ár af svengd fisk­leys­is­ins vegna og mis­brests málnytj­unn­ar [svo], hvað grasorm­ur­inn hef­ur helst or­sakað í tvö ár, og eru nú all­ir þess­ir bænd­ur auðmjúk­lega umbiðjandi, fyrst guð al­mátt­ug­an og kon­ung­legt yf­ir­vald að veita sér ásjá í Jesú nafni. Ofan og fram­anskrifað fól­kreg­ist­ur í Reyniskálki hér í Mýr­dal er rétt sam­an­skrifað, karl­manna og kvenna, ungra og gamlra[svo], fjöldi og ald­ur, eft­ir því sem nú á sig komið er og næst hef­ur orðið kom­ist um ald­ur­inn. ... Alt þetta fólk mjög klæðlítið og sumt af því hold­ljett.“

Halldór Jónsson, 2.10.2019 kl. 11:49

3 identicon

Sæll Ómar.

Þessi vísa verður seint seld, -
þó annað sé um Sigurhæðir.

Gleymt er þá gleypt er!

Húsari. (IP-tala skráð) 2.10.2019 kl. 12:25

4 identicon

Einmitt, Ómar minn. "Svo stutt síðan." En verum stolt af þeim breytingum sem hafa orðið á stuttum tíma.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.10.2019 kl. 12:36

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt, Haukur og Halldór. Ég hef skrifað tvær bækur um fólkið, sem átti heima í Langadalnum á sjötta áratug síðustu aldar. 

Fyrri bókin var "Manga með svartan vanga" 1993, og síðan endurbætt bók með fyllri upplýsingum undir heitinu "Manga með svartan vanga - sagan öll" réttum 20 árum seinna, árið 2013. 

Ómar Ragnarsson, 2.10.2019 kl. 14:46

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í fórum mínum er handskrifað bréf umkomulausrar konu til vinkonu sinnar í nágrenninu frá fyrri hluta síðustu aldar, þar sem hún biður hana um hjálp, ef hún ætti eitthvað aflögu, þótt ekki væri nema "...sitt lítið af hvoru, keti og sméri."

Í bréfinu biður konan vinkonu sína afsökunar á því hve lengi hafi dregist að hafa samband við hana, en það stafi bæði af erfiðum aðstæðum vegna kalds vors og "grasið er svo snöggt", - en einnig vegna þess að erfitt sé að senda bréf vegna þess að "hnýst geti verið í það."

Þegar ég var í Hvammi kom Ásdís stundum kjagandi frá gamla bænum niður að þeim nýja með litla flösku, sem var vafin inn í leppa og tók eina mörk af mjólk. 

Fátæklingar og vesalingar þessa tíma lifðu við kjör sem varpa ljósi á orðtakið "allar bjargir bannaðar." 

Ómar Ragnarsson, 2.10.2019 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband