9.10.2019 | 23:09
Stór hópur að kasta tölu á sjálfan sig?
Hundruð milljóna manna gæti notað GRID. Svona gæti fyrirsögnin á frétt á viðskiptasiðu á mbl.is um fyrirtækið GRID litið út á rökréttu mannamáli. En í staðinn er fyrirsögnin svona: "Mögulegur notendahópur telur hundruð milljóna."
Bíðum nú við, hér er sagt frá mögulegum notendahóp sem getur talið hundruð milljóna, og miðað við rökrétta og eðlilega uppbyggingu íslensks máls og það að frá þessu er sagt á fjármála- og viðskiptasíðu, virðist þessi mögulegi notendahópur þegar farinn að telja peninga.
En þegar lengra er lesið sést að peningarnir verða taldir í þúsunda milljóna króna.
Ef hópurinn er ekki að telja peninga, hvað er hann þá að telja.
Það fylgir ekki sögunni, heldur endar setningin án þess að nefna það.
Þegar notuð eru sagnorð, sem lýsa verknaði, eru venjulega notuð þrenns konar orð:
1. Nafnorð um geranda eða gerendur.
2. Orð, sem lýsir athöfninni, verknaðinum.
3. Orð, sem lýsir því sem sýslað er við.
Orð númer 3 vantar í ofangreinda fyrirsögn, því að verið er að segja frá því að notendahópur sé að telja eitthvað en ekkert nefnt um það, hvað það er.
Nú kunna einhverjir að segja: Hvaða látalæti eru þetta? Hér er verið að lýsa því hve stór notendahópurinn kunni að verða.
Já, en eftir stendur, að alveg er látið hjá líða í fyrirsögninni að nota orð um andlagið.
Og augljóst er samkvæmt orðanna hljóðan að varla er allt þetta fólk að kasta tölu á sjálft sig.
Enda verður þessi furðu algenga orðanotkun enn meiri rökleysa þegar hún er notuð um dýr og fugla, svo sem að segja að arnarstofninn í Noregi telji 4000 fugla.
Dýr og fuglar kunna ekki telja.
Mögulegur notendahópur telur hundruð milljóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.