18.10.2019 | 01:12
Hryllingssögur um rafbíla.
Rafbílar eru ungt fyrirbæri á Íslandi og því geta orðið til ýmsar hryllingssögur af eiginleikum þeirra, sem breiðast út.
Ein þeirra, sem sást bregða fyrir í vetrarveðri í hitteðfyrra, var sú, að í frostum lentu rafbílaeigengur í vandræðum með þá bíla, sem stæðu úti í kuldanum, þyldu kuldann ekki og gætu því eyðilagst auk þess sem kostnaðurinn vegna þessara vandræða væri himinhár.
Sagan sagði, að vegna þess að rafhlöðurnar þyldu ekki frostið, neyddust rafbílaeigendur til þess "að hafa bílana í gangi" á frostnóttum til að halda frosti frá rafhlöðum og rafmótoruum og það gæti endað með ósköpum.
Orðalagið er sérstakt vegna þess þeir, sem trúðu þessu, trúðu því sem margir halda, að eiginleikar rafhreyfla séu hinir sömu og bensínhreyfla, að það þurfi til dæmis að starta þeim í gang.
Hefur síðuhafi orðið oftar en ekki að reyna að útskýra fyrir fyrirspyrjendum um þetta, að enginn startari væri á rafhreyflum og að þeir væru ekki í gangi eins og sprengihreyflar, heldur eyddu engri orku nema hreyfillinn hreyfði bílinn úr stað eða setti álag á hjólin, eða að raforkan væri notuð sér fyrir hitamiðstöð í bílnum.
Og rafbíll síðuhafa hefur staðið úti í öllum veðrum í tvo vetur án þess að kuldinn hafi verið neitt áhyggjuefni eða að erfiðleikar við gangsetningu séu vandamál.
Enda þarf enga upphitun á hreyflinum eins og flestir kannast við að þurfi á sprengihreyflum.
Þvert á móti hefur aðeins þurft að ýta á tvo hnappa til að tengja rafmagn við hreyfilinn og aka tafarlaust af stað með því að stíga á aflgjöfina.
Hryllingssagan um skelfileg áhrif frostkulda á rafbíla er aðeins ein af mörgum, sem auðvelt er að koma af stað, vegna þess hve nýtt fyrirbrigði rafbílar eru.
Rafhleðslur fleiri en bensíndælur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sölumaður hjá Volkswagen sagði mér þegar ég spurði hann út í kuldann að geymarnir héldu hleðslunni lengur í kulda en ekki öfugt við það sem margir halda fram. Var þetta sölutrix eða ekki?
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 18.10.2019 kl. 08:59
Rafgeymar duga styttra í kulda Jósef. Reyndar er líka sýnt að mjög hátt hitastig getur rýrt endingu rafgeimanna, svo það er eins og er "optimal" hiti til að fá besta nýtingu.
Á hvorn veginn sem er þá er sölumaðurinn að ljúga eins og hann er langur til. Ég hef hinsvegar aldrei heyrt nokkurn fara með þær fullyrðingar sem Ómar nefnir hér og held að hann sé bara að búa sér til strámann til að fylla blogg dagsins, sem í sívaxandi mæli eru um akkúrat ekki neitt.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.10.2019 kl. 10:55
Vonandi fáum við aldrei frásagnir norskra slökkviliðsmanna um rafbíla í íslenskar fréttir. Það gæti sett sölu rafbíla í algjört frostmark.
Geir Ágústsson, 18.10.2019 kl. 11:05
Geir Ágústsson...
Alveg eins og sala rafbíla er við frostmark í Noregi?
Magnús (IP-tala skráð) 18.10.2019 kl. 12:23
Nei, þar hefur ríkið gefið eftir mikið af tekjum og að auki bætt í útgjöld til að koma þessum tækjum út, og þrengt að öðrum til að bæta í hvatana.
En varðandi Noreg:
https://www.linkedin.com/posts/offshore-engineer_a-fire-in-the-battery-room-activity-6589874545883131904-wntA
Geir Ágústsson, 18.10.2019 kl. 14:16
Það þarf greinilega umræðu um þessi mál. Jón Setinar Ragnarsson og Geir Ágústsson standa sig hér vel eins og að vanda í flestum málum.
Samt er ég mest hissa á honum Ómari að átta sig ekki á því, að raforkuverð á eftir að tvöfaldast til þrefaldast hér í kjölfar þriðja orkupakkans (og sennilega þess fjórða, sem sömu kvikindin á Alþingi hyggjast leiða yfir okkur). Og það verður ekki endalaust hægt að niðurgreiða allt til þessara rafbíla með gríðar-útgjöldum ríkisins (auk tapaðra tolltekna).
Ómar tók ekki, svo að mig reki minni til, afstöðu gegn þriðja orkupakkanum og ástæðan þá trúlega sú, að hans Samfylking fylgdi því skelfilega máli á fullu rétt eins og annar ESB-bandingjaflokkur, "Viðreisn" (sér er nú hver viðreisnin að innlima Ísland í stórveldi -- Jón Sigurðsson, virtasti maður ætta minna, gæti snúið sér við í gröfinni!).
En Ómar má gjarnan fara að lesa löngu greinarnar hans Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings um bannsettan orkupakkann, löngu kominn tími til. Bjarni outwittar alla þessa asna sem láta teymast af flokksleiðtogum til skaðræðisverka gegn þjóð sinni og fyrirtækjum í landinu.
Jón Valur Jensson, 18.10.2019 kl. 15:43
Sennilega rétt hjá þér Jón Steinar. En reyndar hef ég ekkert orðið var við lélegri endingu þegar ég hef verið að nota hleðsluborvélarnar í kuldanum. það eru sömu lithium batterí í þeim eins og í bílunum. Það má alls ekki rugla saman sýrugeimana í venjulegum benzínbílum við lithium batteríin. En varðandi aðra umræðu þá er kosturinn við rafmagnsbílavæðinguna sá að mínu mati að þar er verið að nota innlendan orkugjafa. Umhverfisáhrifin liggja algjörlega milli hluta. En ég hef heyrt bent á að vetnisvélarnar verði framtíði en ekki rafmagnsmótorinn. Það eru enn vandamál varðandi vetnið sem sennilega verða leyst á næstu árum. það hlýtur að verða draumastaða að vera laus við að fita konungsfjölskyldurnar í arabalöndunum, ekki satt?
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 18.10.2019 kl. 17:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.