20.10.2019 | 21:47
Öguð skógrækt er henni sjálfri holl.
Vegna hinna gríðarlegu verkefna, sem skógræktin stendur frammi fyrir hér á okkar gróðursnauða landi hefur hún fram að þessu markast af mikilli og skiljanlegri kappsemi, sem getur auðvitað verið góð og gegn ef árangri á að ná í þessu þjóðþrifastarfi.
En jafnframt verður að gæta að því að algerlega óheft og óöguð stórsókn getur valdið óþarfa tjóni og að vel þurfi að huga að því hvert stefnt sé.
Um það vitnar rannsókn Ólafs K. Nielsen um þau áhrif sem stórtæk og stjórnlítil skógrækt geti haft á mólendi og stofnstærð mikilvægra fuglategunda hér á landi.
Sum nýleg dæmi um skefjalausa skógrækt virðast ekki stórvægileg við fyrstu sýn og fara jafnvel framhjá mörgum.
Sem dæmi má nefna aðgerðir sem sjást frá þjóðvegi eitt skammt frá Munaðarnesi.
Þar hafa óvenju fallegir, langir og fjölbreyttir klettaröðlar utan í klapparholtum sett magnaðan og fagran svip á landslagið, einkum síðari hluta dags þegar sól er lág á lofti og eru þessi klettarbelti eitt af helstu sérkennum og sjónprýði þessa svæðis, bæði séð frá landi og líka enn frekar séð úr lofti.
Nú hefur plöntun barrtrjáa gert það að verkum að margir af þessum fögru klettaröðlum eru að sökkva í nýgróðursettan barrskóg sem með sama áframhaldi gera svæðin milli þjóðvegar og klettanna líka hverjum öðrum barrskógi og gereyðir öllum möguleikum til að dást að hinum fögru sérkennum þessa svæðis.
Þetta bendir til þess að alla yfirsýn og stjórnun skorti varðandi skógrækt hér á landi það þarfa en vandasama verk að vinna að því að land verði viði vaxið á hóflegan hátt og í sátt við önnur þörf sjónarmið varðandi meðferð á landinu.
Á myndinni í miðjunni má sjá stað þar sem þeir, sem ferð ráða barrskógasókninni á þessum slóðum, virðast ætla að láta glytta í örlítið brot af hinu langa klettabelti sem áður glóði í kvöldsól og var fágætt myndefni með sjaldgæfu landslaginu, sem byggðist á spili sólarljóss og skugga.
Næarneðar myndin er sú sama og efsta vegna tæknilegrar handvammar en á neðstu myndinni er sjónsviðið á efstu myndinni þrengt.
Með sama áframhaldi á þessum slóðum verður búið að hylja klettalandslagið þarna á næstu árum.
Á næstu árum eru þörf verkefni skógræktarfólks ærin á þúsundum ferkílómetra sem blasa við á stórum svæðum, þar sem ekki er þörf á að fórna eins miklu af náttúruverðmætum með gróðursetningu erlendra barrtrjátegunda.
Værum að bregðast hlutverki okkar sem gæslumenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.