21.10.2019 | 20:07
Því meiri þrengsli, tafir og teppur, því betri kostur fyrir hjólin.
Það er lærdómsríkt að fylgjast með umferðarteppunum og töfunum í mörgum erlendum borgum á álagstímum kvölds og morgna.
Bílaraðirnar, margra kílómetra langar, silast áfram á meðan vespuhjólin smjúga hunruðum saman á milli bílaraðanna án þess að vart verið við neina hindrun fyrir þau.
Enda eru bílstjórarnir, hoknir af margra áratuga reynslu, meðvitaðir um það, einn fyrir alla og allir fyrir einn, að nauðsynlegt er að gefa hjólunum nægt rými til að smjúga í gegn, því að hver knapi á hjóli, sem annars væri á bíl, gefur í raun eftir rými í bílakösinni fyrir einn mann á bíl.
En í borgarumferð heimsins er meðaltalið 1,1 til 1,2 persónur í hverjum bíl, líka á Íslandi.
Og síðan gildir svipað um þá, sem eru á meira hægfara hjólum á hjólastígum og gangstéttum ef svo ber undir, og gefa hver um sig einni persónu í bíl eftir rými í bílakösinni.
Nokkrar uppgötvanir birtast þeim, sem prófar hjólalausnina.
1. Það er ekki kvíðaefni eins og áður var að þurfa að vera á ferli á álagstímum.
2. Það er ekki nándar nærri eins oft "ófært" veður til að nota hjólin eins og svo margir hyllast til að halda. Á veturna er hægt að negla dekkin og hreyfingin og góður klæðnaður sjá um að bægja kuldanum burt.
3. Það er hægt að hafa með sér farangur í allt að 120 lítra farangurstöskum.
4. Orkukostnaður er aðeins ein króna á hverja fjóra kílómetra.
Alþingi með rafhjól til reynslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég elska að hjóla og geri það helst umfram að sitja í farartæki.
Það má samt vega og meta og þú nefnir nokkra kosti en ég vil bæta við göllum:
- Það hafa ekki allir áhuga á að mæta kófsveittir í vinnuna, né hafa tíma til að byrja vinnudaginn á sturtu ef það er þá yfirleitt aðstaða til slíks
- Hjólreiðar krefjast ákveðins ótta við stærri farartæki, veður og aðstæður. Það þarf ekki mikið að ama að manneskju til að hjólreiðar séu mikill hjalli
- Skutl með krakka og innkaup heimilisins á síðdegi þar sem er í nægu að snúast er ekki alltaf raunhæft á hjóli (en alls ekki alltaf útilokað)
- Það þarf að huga að mörgu áður en hjólað er af stað, sérstaklega í myrkri: Virka ljósin? Er klæðnaðurinn við hæfi? Sést ég nógu vel almennt? Hef ég tíma fyrir mótvindinn eða brekkuna? Menn vilja oft bara geta hoppað upp í bílinn.
Vil svo bæta aðeins við þína jákvæðu upptalningu:
- Það er hægt að hengja vagna aftan í hjól sem margfalda notagildi þeirra, bæði fyrir skutl á krökkum og innkaupum
- Rafmagnsmótorar margfalda einnig notagildi hjóla, og bæði létta hjólreiðarnar og gera þyngri flutninga upp og niður halla yfirstíganlegri
- Úrval hjóla er slíkt að það ættu allir að geta fundið eitthvað við hæfi: Hjól með kössum fyrir krakka/innkaup, rafmagnshjól, með og án rafmagns, léttmálmar og svona mætti lengi telja.
Geir Ágústsson, 22.10.2019 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.