31.10.2019 | 23:28
"Jes or no" tíminn að renna aftur upp?
Fyrst eftir seinna stríðið og alveg fram á miðjan sjötta áratuginn áttu Íslendingar engan löglegan handboltasal. Í Reykjavík var spilað í gömlum bragga við Hálogaland, og ef útlendingar komu, varð að leita á náðir Kanans á Keflavíkurflugvelli.
Brautryðjandi handboltans í Reykjavík, Valdimar Sveinbjörnsson, hafði notað íþróttahús MR, þar sem varla var rými miðjunni á milli vítateiganna, sem lágu út í hliðarveggina þannig að það vantaði hornin fyrir hornamennina.
Íþróttafulltrúi ríkisins á þessum árum var litríkur og sterkur persónuleiki, mikill vexti og karlmannlegur, Þorsteinn Einarsson, talaði hátt og skýrt á agaðri íslensku fornbókmenntanna og var afar hrifinn af islensku glímunni meðal annars vegna þess hve lítið rými hún þurfti.
Í fjárskortinum slapp körfuboltinn en ekki handboltinn og Þorsteinn neyddist til þess að miða þau örfáu íþróttahús, sem reist voru, við glímu og körfu.
Hann átti son, sem hét Jes Einarsson, var snjall arkitekt og auðvitað með áhuga og útsjónarsemi varðandi íþróttahús.
Hann teiknaði það mörg íþróttahús, að gárungarnir fléttuðu fjárskortinn og neitanirnar á smíði húsa saman við nafnið, og lögðu pabbanum þetta svar í munn: "Það er annað hvort Jes eða no."
Og Jes teiknaði naumhyggjuhúsin samviskusamlega.
Þorsteinn íþróttafulltrúi ríksins virtist vera fornmaður sem var uppi á tímum hippa og rokks, en kom á óvart á fundi, sem haldinn var af þeim sem ætluðu sér að skipuleggja byltingu í íþróttum, sem fælist í því að hætta að stunda svonefndar keppnisíþróttir og fara í staðinn að stunda svonefndar almenningsíþróttir, en þær fólust helst í skokki og gönguferðum og gera þær að aðal dagskrárefni í nýstofnuðu sjónvarpi.
Þorsteinn sat þögull meðan hver nefndarmaðurinn á fætur öðrum boðaði þessa byltingu.
Skyndilega bað Þorsteinn um orðið og stóð hnarreistur eins og fornaldarvíkingur þegar hann krafðist þess að þetta yrði allt endurskoðað.
"Stans! Stans!" þrumaði hann. "Lítum til þess tíma þegar hetjur riðu um héruð og við áttum frækilegustu íþróttamenn Íslandssögunnar, Gunnar á Hlíðarenda, Gretti sterka, Egil Skallagrímsson, Kjartan Ólafsson, Skarphéðin Njálsson og Orm sterka á Stórólfshvoli. Þar liggur fyrirmyndin."
Andvarp leið um salinn, sem fundurinn var haldinn í. Var þessi fulltúi afturhaldsins nú enn einu sinni komin aftur í gráa forneskju glímunnar?
En þá kom svarið: "Elsku fólk. Nú er komið sjónvarp og haldið þið virkilega að það verði svona myndrænt að sýna endalausar gönguferðir? Það blasir við í fornsögunum hvað það var sem gerði íþróttirnar áhugaverðar. Hvað voru þeir að gera, Gísli Súrsson og fleiri, samkvæmt því sem sögurnar segja? Voru þeir að skokka og labba? Nei, þeir voru að leikum, knattleikum, það voru leikarnir, leikurinn, leikurinn, sem skópu glæsileik og skemmtun íþróttanna! Leikurinn, krakkar, leikurinn!"
Það mátti heyra saumnál detta eftir þessa áhrifamiklu ræðu sem flutt var af afburða myndugleika og sneri umræðunni algerlega á hvolf.
Enginn treysti sér til andsvara. En um hugann fór setningin um valið, sem væri skýrt: Leikurinn, jes. Skokkið, no.
Minnir í raun svolítið á jarðarför | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.