Enn á ný sækja múrarnir á.

Fram til 1989 voru múrar, bæði rammgerir og raunverulegir eins og Berlínarmúrinn, eða virkir í fjölbreytilegu formi, áberandi í samskiptum þjóðanna. 

1947 sagði Winston Churchill í frægri ræðu sem kennd var við Fulton að rammgert Járntjald hefði verið reist frá Eystrasalti í norðri suður til Miðjarðarhafs. 

Fram eftir öldinni var ígildi múrs í formi Apartheid aðskilnaðarstefnu stjórnvalda hvítra í Suður-Afríku og fyrsta aðgerð Gandhis sem féll undir hugtakið borgaraleg óhlýðni beindist gegn hindrunum sem voru við lýði í landinu. 

Norður-Kórea varð æ lokaðra land.

En síðan gerðist að Berlínarmúrinn og Járntjaldið og Apartheid stefnan í Suður-Afríku féllu óvænt, og heimurinn stóð í þeirri trú að upp væri runnin tími brúa í stað múra. 

En á síðustu árum er þetta að snúast við. Komnir eru til valda áhrifamiklir stjórnmálaflokkar, ríkisstjórnir og valdagráðugir leiðtogar, sem vilja ólmir reisa múra í stað þess að byggja brýr. 

Norður-Kórea r lokuð sem aldrei fyrr, mikill múr hefur verið reistur til að loka Palestínumenn inni í hernumdu landi sínu og hart sótt fram í því að reisa úr milli Bandaríkjanna og Mexíkó. 

Ótaldar eru allar þær fjölbreyttu aðgerðir sem eru ýmist komnar í gildi eða verið að undirbúa, og birtast í formi tollmúra og hliðstæðra hafta. 

Enn á ný sækja múrarnir á.

Á sínum tíma stóð Reagan Bandaríkjaforseti við Brandenborgarhliðið og grátbað Gorbatsjov að rífa múrinn. 

Núverandi forseti BNA er hins vegar önnum kafinn við að mæla fyrir því að reisa múra af fjölbreyttu tagi nánast hvar sem því verður við komið og verði stærsta draumsýn hans að veruleika, mun glæsilegasti múr okkar tíma rísa, meira en 3000 kílómetra langur, og afgirða hinn endurheimta glæsileika Ameríku, sem er aðeins norðan þessa glæsta mannvirkis.  


mbl.is Og ekkert var eins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Öll lönd vilja stjórna flæði fólks inn og út úr eigin landi.

Jafnvel þessi steinn sem Ísland er úti í miðju Norður Atlandshafi takmarkar innflæði fólks og sendir til baka í samræmi við lög og reglugerðir án tilfinningarsemi.

Grímur (IP-tala skráð) 10.11.2019 kl. 09:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Austur-Þjóðverjar réttlættu Berlínarmúrinn með tölum, sem sýndu, að landinu væri að blæða út vegna gífurlegs útstreymis hæfasta og best menntaða fólksins. 

Eftir fimmtán ára reynslu frá stríðlokum var múrinn eina ráðið sem þeir sáu, þótt það kostaði að fjölskyldur sundruðust og yrði stíað í sundur. 

Með múrnum uppfylltu þeir svo sannarlega kröfur, sem lýst er svo skilmerkilega hér að ofan að "takmarka flæði fólks án tilfinningsemi."

Trump lýsti þvi yfir þegar þúsundir hrjáðs fólks þrammaði í átt að landamærum Bandaríkjanna að þetta væri múslimskir hryðjuverkamenn undir stjórn ISIS. 

Ómar Ragnarsson, 10.11.2019 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband