20.11.2019 | 20:10
Stórt stökk Renault Zoe. Skoda Citigo rafbíll verður spennandi!
Á tímabili naut Renault Zoe þess að vera með hlutfallslega einu stærstu rafhlöðuna í flotanum en að vera jafnframt seldur á lágu verði, enda stærð bílsins og þyngd hagstæð.
Það er gríðarlega mikið um vera í rafbílaframleiðslu heimsins og mikið rafhlöðukapphlaup í gangi. Stökkið hjá Zoe upp í 52 kwst er myndarlegt og enn mikilvægara er að hægt sé að hlaða hann á mun afkastameiri hátt en áður.
En verð og þyngd eru helstu annmarkar rafbíla, og þess vegna verður afar spennandi að sjá hve snemma fyrsti Skoda rafbíllinn kemur á markaðinn hér.
Citogo er systurbíll Volkswagen e-Up!, sem hefur hingað til verið sá minnsti og léttasti á markaðnum hér á landi hvað snertir verulega fjöldaframleidda smáa rafbíla, en uP! hefur liðið fyrir stutta drægni, aðeins rúmlega 100 kílómetra við íslenskar aðstæður, enda rafhlaðan aðeins 19 kwst.
En nú er að koma fram systurbíll e-Up með tvöfalt stærri rafhlöðu, sem hlýtur að gerbreyta bílnum og hagkvæmni hans. 36 kwst rafhlaðan ætti að geta skilað vel yfir 200 kílómetra og verður væntanlega einnig með möguleika á hraðari hraðhleðslu en áður.
Í Þýskalandi verður verðið á þessum frábæra rafknúna smábíl í kringum 20 þúsund evrur, sem er langlægsta verðið fyrir fjögurra sæta rafbíl.
Þrátt fyrir allan þann rafbúnað, sem nauðsynlegur er fyrir fjögurra sæta bíl, verður hann nákvæmlega með jafn mikið rými fyrir fólk og farangur og hinn vinsæli bensínknúni bíll, sem er með fimm stjörnur í árekstraprófunum.
Hér á landi verða að vísu áfram í umferð tveir tveggja sæta ör-rafbílar af Tazzari-gerð, sem eru um 500 kílóum léttari en e-Up og Citigo og eru því ódýrustu og vistmildustu rafbílarnir hér eins og er, en engin áform eru um að flytja inn fleiri bíla af þessari gerð, sem hafa 90 km drægni og ná 90-100 km/klst hraða.
Kraftmeiri og langdrægari Renault ZOE kynntur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.