Lengsta síbylja, sem heyrst hefur: "Black Friday, Black Friday, Black Friday..."

Í morgun mátti heyra á einni útvarpsrásinni einhverja lengstu síbylju, sem heyrst hefur í útvarpi hér á landi hvað varðar fyrstu upphrópunarorðin í hverri einustu auglýsingu, sem hlustað var á í auglýsingatímanum: "Black Friday!...!", "Black Friday!...!", Black Friday!..." o. s. frv. 

Þessu var fylgt eftir með því að koma á beinni útsendingu í fréttunum við fréttamann vestur í háskóla, sem var að fylgjast með byrjun innleiðingar nýs hátíðardags hér á landi, "Thanksgiving Day" sem nú sækir í sig veðrið með upptöku kalkúnaáts og annarra siða, sem tilheyra þessum bandaríska frídegi og helgidegi og hafa fætt af sér Black Friday og Cyber Monday þar á eftir. 

Og nú má sjá að haldið er stíft að fólki alls konar varningi, sem tengist þessu ameríska hátíðahaldi, svo sem bestu kalkúnana og kalkúnasósurnar.  

Með því að byrja þessi ósköp á fimmtudegi og hætta ekki fyrr en á mánudegi er í gangi amerísk innrás í íslenskt þjóðlíf varðandi hátíðarhald, sem fer að slaga upp í páskana og jólin. 

Og hvert er tilefnið?

Jú, Thanksgiving Day er haldinn hátíðlegur sem frídagur í Norður-Ameríku fjórða fimmtudag nóvembermánaðar í tilefni að því að hópur landnema frá Bretlandseyjum hélt þakkargjörð við Plymouth klett í Massaschusetts fyrir tæpum þrjú hundruð árum. 

Þetta tilefni á ekkert minnsta erindi við okkur Íslendinga, því að þakkagjörðardagur er ekki óþekktur hér á landi. 

Öldum saman hefur verið haldið upp á lok aðal uppskerutímans í lok túnsláttar með því að hafa góðgæti á borðum á degi sem ber heitið töðugjöld. Ef halda ætti þakkargjörðardag hér á landi myndi það geta orðið til dæmis síðasta fimmtudag í ágúst. 

Þessi tillaga um töðugjðld er birt þótt fyrirsjáanlega muni hún ekki fá hinn minnsta hljómgrunn, því að allt verslunaræðið sem fyrirbæri með jafn flottum enskum nöfnum og Thanksgiving, Black Friday, Cyber Monday, sem fimm daga neysluæði fæðir af sér, er ósigrandi aðdráttarafl. 


mbl.is Sósan sem sögð er sú besta með kalkúninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við höfum gegnum aldirnar verið dugleg við að flytja inn hátíðisdaga. Meira að segja Þorrablótið er hægt að rekja til Finna og Páskarnir eiga ekki sinn uppruna í Borgarfirði. Það má vel hugsa sér hvernig gamalt fólk hefur fárast yfir þessum innfluttu nýjungum.

Image result for Ómar Ragnarsson Krakkar Mínir Komið Þið Sæl Jólasveinar ættaðir frá Coca Cola í fjörugum dansi.

Njóttu svo þessara fyrstu daga Ýlis, eða Frermánaðar eins og hann kallast í Snorra-Eddu. Það má svo alltaf fá sér svið ef kalkúnn freistar ekki.

Vagn (IP-tala skráð) 28.11.2019 kl. 23:08

2 identicon

Hugmyndin er góð.

Hilmar Bjarnason (IP-tala skráð) 29.11.2019 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband