12.12.2019 | 10:31
Man einhver eftir Hólmsheiði? Einu sinni nægðu ælupokarnir.
Fyrir rúmum áratug stóð álíka umræða um innanlandaflugvöll á Hólmsheiði og nú stendur um Hvassahraun. Hver af öðrum talaði upp í annan um það hve ákjósanlegt það væri að gera þar þennnan líka frábæra flugvöll.
Þótt hugmyndin væri andvana fædd vegna hinna augljósu ókosta sem þetta flugvallarstæði hafði, var Hólmsheiði töfraorð í hugum ótrúlega margra í nokkur ár.
Það tekur því ekki núna að fara að rifja upp þessa umræðu, sem dó næstum því jafn skjótt og hún kviknaði.
Hæð vallarins yfir sjó, nálægð við fjöll, takmarkað rými og hæðótt flugvallarstæði, og aðalaðflug svo kílómetrrum skipti yfir þétta byggð í allt frá Vogahverfi yfir Úlfarsárdal og Grafarholtshverfi voru meðal fjölda augljósra atriða sem felldu þessa hugmynd sem betur fór.
Nú er það Hvassahraun og enn og aftur eru það nálægð við 700 metra háan fjallgarð og áhrif þess á flug að og frá vellinum í algengustu hvassviðravindáttinni, stæði á vatnsverndarsvæði, óheyrilegur kostnaður og fleira, xem munu fella þessa hugmynd, nema kannski að mönnum takist með því að brjóta gróflega skilyrði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um fimm ára veðurathuganir að láta tvö heppnisár ráða.
Fyrir um 60 árum drapst hugmyndin um flugvöll við Hvassahraun í einu flugi með Flugráð, þar sem gert var eitt aðflug og fráflug að flugvallarstæðinu í snarpri en langalgengustu vindáttinni úr austsuðaustri en jafnframt, eðli málsins samkvæmt, samsvarandi aðflug og fráflug að Reykjavíkurflugvelli til samanburðar.
Meira þurfti ekki. Ælupokarnar í Hvassahraunsfluginu nægðu.
Dögum saman eru nú birtar myndir af hinum glæsilega flugvelli í Hvassahruni,(það hraun heitir reyndar Almenningar) þar sem litið er fram hjá því að samkvæmt teikningunum verði gercöllum flugvellinum klesst yfir Reykjanesbrautina eins og ekkert sé.
Man einhver eftir hinni stórfenglegu hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum og Bessastaðanesi?
Hvassahraun er fjarstæða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Æi, af hverju viðurkenna menn ekki Reykjavíkur flugvöll.
Hörður (IP-tala skráð) 12.12.2019 kl. 11:43
Einfaldast og ódýrast er auðvitað að bæta flugvöllinn í Vatnsmýrinni.
Í þeirri umræðu um loftlagsbreytingar og áhrif þeirra er næsta undarleg ofuráhersla borgarstjórnar að fylla Vatnsmýrina af íbúðarhúsnæði. Fari allt á versta veg, eins og stjórnmálamenn halda fram, mun þetta svæði Reykkarvíkur fara undir sjó. Þó vissulega yrði slæmt að missa þannig flugvöllinn undir sjávarmál, er ljóst að það tjón yrði hégómi miðað við að missa byggð tugþúsunda landsmanna undir sjó.
Og á meðan verið er að moka í skurði vítt um landið, á kostnað landsmanna, til að endurheimta votlendi, vill borgarstjórn eyða því litla votlendi sem enn er til innan borgarmarkanna.
Það fer ekki alveg saman hljóð og mynd hjá þessu fólki.
Gunnar Heiðarsson, 12.12.2019 kl. 13:42
Talsmenn svonefndra "Samtaka um betri byggð" hafa haldið því fram, að ef byggt hefði verið strax í Vatnsmýri 1940 hefði engin byggð risið austan Elliðaáa!
Á því svæði búa nú um 130 þúsund manns, og þessir menn trúa því statt og stöðugt að 130 þúsund manns geti búið í Vatnsmýri!
Tal um tugþúsundr íbúa á því svæði þar sem flugvöllurinn er nú, er fráleitt, enda gera þær tillögur, sem nú eru komnar, ráð fyrir innan við tíu þúsund.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2019 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.