21.12.2019 | 19:25
Sumar auglýsingar um eyðslu hybrid bíla eru villandi.
Nokkrir japanskir bílaframleiðendur hafa farið sér hægt í því að skipta úr bensínknúnum bílum yfir í rafknúna eða dísilolíuknúna. Má þar nefna Toyota, Mazda, Honda, Subaru og Suzuki.
Í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða svonefnda Hybrid bíla, hafa oft verið veittar villandi upplýsingar um hybrid eða tvinnbíla, þar sem orkan, sem bílarnir fá, er eingöngu bensín, en hins vegar einnig hægt að láta bensínvél hvers bíls hlaða orku inn á rafhlöður í bílunum, sem nýta þá orku fyrir rafhreyfil í bílnum.
Með þessu móti er hægt að nýta yfirburði rafhreyfils yfir bensínhreyfil varðandi nýtni orkunnar, sem er yfir 80 prósent í rafhreyfli, en aðeins um 30 prósent í bensínhreyfli.
Samkvæmt uppgefnum eyðslutölum frá framleiðendum, sem miðaðar eru við raunverulegan meðalakstur á bílum, má sem dæmi nefna Toyota Yaris, sem með 1,5 lítra bensínvél er gefinn upp með 5,1 lítra af bensíni á hundraðið, en með sömu bensínvél og rafmótor í samskonar bíl gefinn upp með 3,7 lítra af bensíni á hundraðið.
En í staðinn fyrir að auglýsa þessar tölur, 5,1 og 3,7, t. d. með því að segja að bensíneyðslan minnki minnki um 27 prósent, eða rösklega fjórðung, er auglýst, að bílnum sé að meðaltali ekið að hálfu leyti með rafafli. Grandalaus kaupandi gæti því haldið að bensíneyðslan minnki um helming eða 50 prósent, en þannig er það alls ekki í raunakstri, eins og bensíneyðslutölurnar 5,1 og 3,7 lítrar sýna.
Auglýsingin um að helmingur akstursins fari fram með rafafli byggist á því að stilla akstri bílsins þannig til í ákveðinni sérprófun, að þannig sé þetta hvað snertir aksturstíma.
En orkureikningurinn í raunkeyrslu fer ekki eftir tíma, heldur eftir orkukostnaði miðað við ekna vegalengd. Í niðurstöðum EU prófunar er því reynt er að líkja eftir raunverulegri umferð með töfum, brekkum og misjöfnum aksturleiðum utan bæjar og innan.
Í raunakstri hybridbíla sér bensínvélin um hinn erfiðari hluta akstursins, svo sem upp brekkur og á miklum hraða, auk þess að sjá rafmótornum fyrir raforku, en rafmótorinn getur hins vegar lullað á hægri ferð, þar sem loftmótstaða er lítil og á jafnsléttu og niður brekkur, þar sem hann getur endurheimt hluta af eyðslu á rafmagni með beinni hemlun í gegnum mótorinn.
Ofan á þetta bætist, að t.d. í Þýskalandi er hybrid Yaris um hálfri milljón króna dýrari í innkaupi en venjulegur Yaris.
Þótt Toyota hætti, sem betur fór, að auglýsa Hybrid bíla sem bíla, sem hlæðu sig sjálfir, hafa sést auglýsingar annars bílaframleiðanda á "sjálfhlaðandi" hybrid bílum.
Slíkt orðalag var úrskurðað villandi af Samkeppniseftirlitinu á sínum tíma, því að langflestir sem heyrðu hana, héldu að hér væri um að ræða bíla, sem hefðu þá yfirburði yfir aðra bíla með rafmótor, að aldrei þyrfti að kaupa rafmagn á þá.
Sem sagt: Valið stendur á milli þess að kaupa rafbíl, sem þarf að stinga í samband til þess að kaupa raforku á hann, - eða - að kaupa hybrid rafbíl, þar sem aldrei þarf að kaupa raforku eða stinga honum í samband, af því að hann "hleður sig sjálfur."
En það er auðvitað aðeins hálf sagan, því í staðinn er öll orka, sem keypt er, í formi bensínorku, sem þarf auðvitað að kaupa, því að orkukaup á bílinn eru 100 prósent í gegnum bensíndælurnar.
Subaru Forester e-Boxer tvinnbíll væntanlegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Q: "Toyota Yaris, sem með 1,5 lítra bensínvél er gefinn upp með 5,1 lítra af bensíni á hundraðið"
Vá. 1500 í svona dollu. Hlýtur að vera æðislegur bíll. Ég á Aygo með 1 líters, og það apparat gerir engar rósir. Eyðir samt frekar litlu, milli 4.5 og 4.9. Innanbæjar.
Til samanburðar átti ég Town Car með 4.6 V8, sá eyddi 13-18, eftir hvort það var frost eða ekki. Minna í frosti.
Q: "með sömu bensínvél og rafmótor í samskonar bíl gefinn upp með 3,7 lítra af bensíni á hundraðið."
Dream on. Plug-in, kannski, þar sem þú getur svindlað. Ekið fyrstu 15-25 km á rafmagni. Ef ekki, þá eru menn ansi bjartir. Trúa á eylífðarvélar.
Rafmótorar hinsvegar draga úr eyðzlu innabæjar á sama hátt og lestir - taka á sig erfiði. Á langkeyrzlu virkar þetta ekki, hef heyrt í mönnum hér í eyjum sem lenda í að þeirra bílar eyða skuggalega miklu á langkeyrzlu, því bílarnir eru 250 kg þyngri en venjulegir.
Umhverfisverndarsynnar eru að skemma rafbíla fyrir fólki. Þetta er viss kostur fyrir suma. En ekki alla. En umhverfissinnar vilja troða rafbílum á alla. Raunveruleikinn virkar ekki þannig.
Það væri óskandi að þessi lýður hætti að gera rafbíla að táknmynd fasisma. Enginn vill eitthvað svoleiðis. Þau ættu að gera eitthvað skemmtilegt í staðinn, eins og t.d. klæða sig í býflugu-búning og líma sig við strætó.
Ásgrímur Hartmannsson, 21.12.2019 kl. 21:53
"Enginn vill svoleiðis." Jæja? Það átti ekki við þrautreynda bílablaðamenn Auto Zeitung, sem prófuðu fjóra bíla af álíka stærð, verði og þyngd, Tesla 3, Audi 4 dísil, BMW 330 bensín-tengiltvinnbíl og Benz C dísil-tengiltvinnbíl.
Afar hörð keppni var á milli Benz, BMW og Audi, en Tesla þrír var langefstur að stigum.
Í hröðun var hann í sérflokki, 3,4 sekúndur í 100 km/klst, og þarf að fara í ofurbíla til að finna fljótari fararskjóta.
Ómar Ragnarsson, 22.12.2019 kl. 00:44
Í hverjum lítra af bensíni eru um 9,5 kwst. Miðað við 30% nýtni bensínmótorsins og tap í dínamónum fást þá um 3 kwst inn á rafhlöðu bílsins. Miðað við verð á besníni kostar þá hver kwst um 70 krónur. Má bera þá tölu saman við verð á rafmagni úr innstungu á venjulegu heimili sem er 15-17 kr.
Það að menn selja hybrid bíla án tengimöguleika er algerlega óskiljanlegt.
Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 22.12.2019 kl. 02:03
Í okkar strjálbýla landi er orkugeymslan sem mestu máli skiptir. Auðvitað munu rafbílar verða arftaki bíla með sprengimótor, hvort sem okkur líkar betur eða verr, en meðan vandinn við geymslu raforkunnar er ekki leystur, er útilokað að þessi skipti geti orðið. Menn tala um að hægt sé að aka hringinn á rafmagni og vel má svo vera, en í raun er akstur landsmanna meiri en bara innanbæjar eða styðstu leið um hringveginn.
Sjálfur bý ég út á landi og þarf að sækja vinnu um nokkra leið. Í dag nota ég að öllu jöfnu nýlegan VW Golf til þeirra ferða (hef jeppa til að bjarga mér ef veður eða færð spillist). Hefði gjarnan viljað skipta yfir á rafbíl, því þó Golfinn sé sparsamur þá er bensínið dýrt og þetta telur til lengdar. Hægt er að fá Golf E, en vandinn er að orkugeymsla rafmagns í þeim bíl jafngildir því að minn bíll væri einungis með 10 lítra tank. Það er fráleitt viðunnandi. Ég get einnig fengið sama bíl sem tvinnbíl, þ.e. rafmagns og bensín. Í þeim akstri sem ég stunda mest hentar það þó alls ekki, bíllinn væri nánast alltaf á bensíni og þar sem hann er umtalsvert þyngri yrði rauneyðsla nokkuð meiri en í dag.
Tvinnbílar eru í raun misheppnað millistig, til þess eins gert að slá ryki í augu fólks, Skiptir þar einu hvort þeir eru tengitvinn bílar eða með sprengimótor til að framleiða orku fyrir rafmótorinn.
Tengitvinn bílar eru þó öllu skárri og gætu nýst þeim sem einungis þurfa að aka stuttar leiðir og komast í rafmagn á sem flestum stoppistöðvum.
Svokallaðir sjálfhlaðandi rafbílar eru hins vegar algert bull. Samkvæmt eðlisfræðinni þarf ákveðna orku til að færa ákveðinn þunga ákveðna leið. Þar skiptir engu máli hvað orkan heitir. Því er ljóst að takist bílaframleiðanda að framleiða rafbíl með innbyggðum bensínmótor til að framleiða raforku fyrir rafmótorinn, sem eyðir litlu, ætti tæknimönnum þess fyrirtækis að vera í lófa lagið að hanna bensínvél fyrir sama bíl sem eyðir jafn litlu, eða jafnvel minna, þar sem einum millilið væri þá kippt út úr keðjunni og bíllinn léttari.
Reglulega koma fréttir af því að nýjar aðferðir við orkugeymslu sé að koma. Því miður heyrist sjaldan meira. En ljóst er að til að orkuskipti geti farið fram að fullu, verður að leysa þetta vandamál. Verður að finna leið til að geyma meiri orku í minni og léttari umbúðum. Takist það er hægt að segja bless við sprengimótorinn.
Gunnar Heiðarsson, 22.12.2019 kl. 09:01
Fyrir þá sem aka mikið úti á þjóðvegunum hafa tengiltvinnbílar misst stóran hluta af hagkvæmni sinni, því að rafhlöður þeirra duga ekki nena til 30 til 40 kílómetra aksturs.
Í þjóðvegaakstri þarf bensínvélin því að flytja mun þyngri bíl en ella væri og jafnframt að sjá um að viðhalda lágmarksorku fyrir raf-driflínuna.
Meðal lofthiti hér á landi er um 15 stigum fyrir neðan 20 stig plús, sem þýðir, að að meðaltali missa rafbílar hér á landi 15 prósent af drægninni, sem hefðu við skástu skilyrði.
Nú hafa nýjar mengunarkröfur fyrir dísilbíla kallað fram dísilbíla, sem eyða jafnvel minna en hybrid-bensínbílar en eru ekki eins flókinn vélbúnað og drifbúnað.
Það er hins vegar hægt að liðka fyrir skynsamlegustu útfærslunni á einkabílaflotanum með því að nýta sér nýjustu tölvutækni og gefa fólki kost á að eiga sérstakan bíl á heimilinu fyrir fjölnota ferðabíl, sem fengi afslátt af opinberum gjöldum og tryggingum í hlutfalli við ekna kílómetra.
Ég vinn enn við bókaskrif og ljósmyndun og kvikmyndun fyrir bækur og kvikmyndagerð, þannig að skásta umhverfislega lausnin varð svona:
Við hjónin höfum hagrætt á þann hátt að -
- fyrir fimm árum fékk hún sér ódýrasta og sparneytnasta bílinn, sem þá var á markaði, Suzuki Alto. Hefur farið vestur á firði, upp á Brúaröræfi og í Loðmundarfjörð.
Ég sjálfur er með:
1. Óskráð rafreiðhjól síðan 2015. Fyrir snatt innan höfuðborgarsvæðisins.
2. Vespulaga 125 cc Honda PCX hjól, sem nær þjóðvegahraða um allt land og eyðir aðeins 2,2 lítrum innanbæjar. Er hvað kolefnisspor varðar jafnoki 10 sinnum dýrari, 10 sinnum þyngri og margfalt flóknari venjulegs rafbíls, auk mikils sparnaðar á rými í gatnakerfinu.
3. Minnsta og umhverfismildasta rafbíl landsins, 2ja manna Tazzari Zero rafbíl með 90 km drægni og 90 km/klst hámarkhraða, fyrir akstur allt til Borgarness, Selfoss og Reykjanesbæjar.
4. Einn léttasta og sparneytnasta jöklabíl landsins, Suzuki Grand Vitara dísil, árgerð 1998, breyttur fyrir 35 tommu dekk, fyrir fjalla- og jöklaferðir. Meðalakstur nokkur hundruð kíómetrar á ári og því blóðugt hve mikið þarf að borga af honum í opinber gjöld og tryggingar. Fór síðast jöklaferð fyrir fjórum árum.
(5. Range Rover fornbíl, árgerð 1973, breyttur fyrir 38 tommu, lækkað drif, Nissan Laurel dísilvél, eingöngu hafður til taks ef krafist er 38 tommu á lokuðu almannavarnasvæði. Hefur ekki farið jöklaferð í fimm ár því ekið aðeins nokkra tugi kílómetra á ári. )
Ómar Ragnarsson, 22.12.2019 kl. 16:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.