11.2.2020 | 10:37
"...fúndur ogh fúndur ogh fúndur ogh fúndur; égh ekki skilja það..."
Ofangreind orð eru hluti af setningu sem útlendur starfsmaður á stórum vinnustað mælti fyrir m0rgum árum, þegar rætt var um starf hans á Íslandi og hvernig honum líkaði það.
Lýsing hans getur átt víða við, ef marka má tengda frétt á mbl.is um gagnsemi og tilgang funda á vinnustöðum eða annars staðar, sem getur verið jafn misjafn og fundirnir eru margir.
Pólverjinn hafði verið undra fljótur að geta gert sig skiljanlegan á vinnustaðnum, hafði kynnst aðstæðum á fleiri vinnustöðum og lýsti reynslu sinni nokkurn veginn svona:
"Íslendingar duglegir ogh vinna mikið, en égh ekki skilja alltaf hvernig eyða tímanum. Ekki vinna heldur alltaf fúndur ogh fúndur ogh fúndur ogh fúndur."
Eitt af lögmálum Parkinsons fyrir sextíu árum fjallaði um svonefnd smámunalögmál, sem í stuttu máli byggist á því að mesta og ákafasta umræðan í þjóðfélaginu fer oft fram um undralega einföld og lítilsverð mál.
Á undan Parkinson hafði reyndar Halldór Laxness lýst þrasgirni Íslendinga eftirminnilega í svipuðum dúr.
Parkinson tók sem dæmi fundi, þar sem smámunalögmálið virkar oft, svo sem í stjórn afar tæknivædds stórfyrirtækis eins og kjarnorkuvers þar sem lang mikilvægasta ákvörðunin snertir kaup á tæknivæddum vélbúnaði upp á hundruð milljarða króna, sem valdamikill stjórnandi og hópurinn í kringum hann hefur mikinn áhuga á að kaupa.
Til þess að tryggja framgang þess máls, raðar fundarboðandi málefnum fundarins þannig, að fyrst verði rætt um ákvarðanir um smámál, sem allir hafa vit á og hafa markað sér ákveðnar skoðanir.
Ákvörðunin um vélbúnaðinn verður síðast á dagskránni.
Dæmið gengur upp. Miklar deilur verða um smámálin eins og fyrirkomulag í nýbyggingu við innganginn í höfuðstöðvar kjarnorkuversins, hvort eigi að vera teppi hér eða þar, litaval og aöstaða fyrir starfsfólk.
Umræðurnar og skoðanaskiptin verða heit og langdreginn, þannig að stóra, stóra ákvörðunin um vélbúnaðinn feiknadýra, sem fundarmenn hafa upp til hópa ekki vit á, rennur í gegn hjá fundarmönnum, sem búnir eru að eyða öllu þreki sínu í einföld en tiltölulega ódýr málefni.
Síðuhafi var rétt fyrir tvítugt í samvinnubyggingarfélagi, sem stóð fyrir byggimgu háhýsisins að Austurbrún 2 í Reykjavík.
Á þeim árum var nokkur verðbólga, og var lang mikilvægasta ákvörðun flestra funda í félaginu sú, að ákveða hækkkun á framlögum félagsmanna til smíðar hússins.
Óánægja kraumaði undir í því máli, en stjórnin var snjöll í að raða fyrst á dagskrá hvers fundar atriðum, sem allir höfðu vit á og gátu rifist um, svo sem litaval í sameiginlegri eign á neðstu og efstu hæð.
Flestir væntanlegir eigendur eyddu sem mestum frítíma sínum á kvöldin og um helgar til að vinna við bygginguna til þess að borga byggingarkostnað og félagsgjöld og eitt sinn, þegar mikil hækkun félagsgjalda var á dagskrá á fundi, var smalað á þann fund til þess að andæfa fyrirætlununum stjórnarinnar.
En á fundinum var uppröðunin á dagskránni þannig, að loksins þegar búið var að eyða öllu kvöldinu í mikil álitamál um lítilsverð atriði og komið var að stóru ákvörðuninni um mikla hækkun útgjalda, var stjórnin komin í meirihluta vegna þess hve margir örþreyttir fundarmenn höfðu gefist upp og farið af fundinum.
Þess má geta, að vafalaust gerði verðbólgan stjórninni erfitt fyrir, en einnig olli það óánægju, hve stór hluti hagnaðarins af hinni frábærlega einföldu byggingaraðferð rann til þeirra sem högnuðust á uppmælingarkerfinu.
Eru fundir martröð eða uppspretta góðra hugmynda? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta með fundina er alveg rétt hjá þér. Las Parkinson á sínum tíma, minnir samt endilega að mest hafi verið rifist um þakið á reiðhjólageymslunni, en eftirminnileg var sagan allavega.
Sæmundur Bjarnason, 11.2.2020 kl. 11:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.