28.3.2020 | 15:02
Veikleikar og styrkleikar mismunandi þjóðfélagsgerða.
Verstu gallar og bestu kostir mismunandi þjóðfélagskerfa koma oft fram í sviptingum á borð við illvígar farsóttir.
Alræði kommúnismans birtist í sinni verstu mynd í upphafi faraldurins í Wuhan, þar sem viðbrögðin urðu gróf brot á mannréttindum við að berja niður og fjarlægja þá, sem reyndu að vara við því, sem blasti samt við þar í borg.
Meðal þeirra var læknirinn sem fyrstur sendi út aðvörun, sem lést í faraldrinum.
Við þetta töpuðust dýrmætar vikur við að greina ástandið og grípa strax til árangursríkra aðgerða.
Þegar yfirvöldin sáu loks hv3r voði var að ferðum, sneru þau alveg við blaðinu og nýttu yfirburða einræðisvald sitt til róttækra aðgerða.
Sjúkrahús, byggt á einum degi, var táknrænt fyrir þetta. Á þessum tíma hurfu líka margir þeirra, sem hafði tekist með myndatökum á snjallsíma að koma myndskeiðum og hjálparbeiðnum á netið.
Veikleikar og styrkleikar þjóðfélagsgerðar hafa líka komið fram í Bandaríkjunum, þótt ekki hafi verið á nákvæmlega sama hátt og í Kína.
Í byrjun byggðist það á einhverju lélegustu frammistöðu veraldar í sýnatöku, sem var allt fram til 20. mars, hundrað sinnum lakari á hverja milljón íbúa en til dæmis í Suður-Kóreu og á Íslandi.
Með því að vanrækja þessa grundvallaraðgerð til að komast að hinu raunverulega ástandi tókst forsetanum að halda því fram vikum saman að hvergi í heiminum væri ástandið betra en í Bandaríkjunum og engin ástæða væri til annars en að vera bjartsýn um það að háþróaðasta heilbrigðiskerfi heims myndi bægja farsóttinni frá dyrum Ameríkumanna.
Afleiðingin af þessu varð alveg sú sama og á fyrstu vikunum í Wuhan þótt aðferðin væri önnur, falskt öryggi, sem er nú að hefna sín á svipaðan hátt og varð í Kína.
Eins og í Kína býr samt mikill kraftur í bandarísku þjóðlífi eins og kom vel fram á sínum tíma þegar þeir urðu þátttakendur í Seinni heimsstyrjöldinni.
En þá breyttu Bandaríkjamenn þjóðarframleiðslunni úr einkareknum stóriðnaði í ríkisstyrktan á tveimur mánuðum og skópu með því framleiðslumátt hergagna í stað borgaralegs varnings, sem fáa hafði órað fyrir að væri mögulegur.
Nú hefur sýnishorn af slíkri getu birst í hundraðföldun við sýnatökur, og getur forsetinn um síðir verið stoltur af þessari grundvallaraðgerð.
En heildarmyndin er því miður ekki eins skýr vegna hringlandaháttar og hentistefnu hans auk þess að kenna öðrum um það sem miður fer.
Meðal annars kennir hann Barack Obama, sem lét af embætti fyrir næstum fjórum árum, um kæruleysistímabilið í upphafi faraldursins í landinu.
Og hann gortar sig af því að hafa verið fyrstur allra til að sjá stöðuna, en hafi ekki tekist að fá yfirmenn heilbrigðismála vestra á sitt band.
Nú hefur hins vegar sést á skjölum um þetta, að þetta var þveröfugt; þeir töluðu fyrir daufum eyrum forseta, sem var upptekinn af því að sannfæra landa sína um það að hafa gert Ameríku mikilfenglega á ný til frambúðar.
Forsetinn lofar því nú að verða búinn að kveða faraldurinn niður og aflétta andófsaðgerðum gegn honum eftir hálfan mánuð, og að þá verði allt fallið í ljúfa löð í blómstrandi þjóðfélagi.
Ef það loforð bregst verður honum líklega ekki skotaskuld úr því að kenna Obama um það.
Verri árangur í New York en í Wuhan og á Ítalíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, eru einhverjar öruggar heimindir því að símnotendum í Kína hafi fækkað um 14 miljónir í janúar og febrúar ?
Haukur Árnason, 28.3.2020 kl. 16:48
Sjúkrahúsid sem thu talar um, er ekki sjúkrahús heldur "fangelsi".
Ómar Ragnarsson, 21 miljónir símnotenda hafa horfid af netinu. Tugir thúsunda barna í Wuhan, eru munadarlaus og eiga ser enga aettingja. Radir fyrir utan útfararstofur, eru í thúsundum manna sem vilja fá leifar aettingja sinna. Bílstjóri sem keyrdi einni umferd af "brenndum einstaklingum í kössum", vitnadi um ad thad voru um 2500 slíkir kassar í bílnum ... bara ein ferd, frá einni útfararstofu af mörgum.
Harmleikurinn í Kína, er óheirilegur ... thad sem fólkid thar, hefur thurft ad lída er med ólíkindum. Thad sem kommalídurinn lét reida yfir heiminn, svo their geatu bjargad eigin andliti ... er einnig, med ólíkindum.
Gleimdu aldrei theim föllnu.
Örn Einar Hansen, 28.3.2020 kl. 20:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.