Einu sinni var boðuð trú á þá björgun að kasta sér út úr farartækjum.

Rétt er að taka það skýrt fram að þessi pistill er eingöngu skrifaður um gildi öryggisbelta í bifreiðum og til að rifja upp fróðlegar rökræður um gildi bílbelta allar götur frá því að þau komu til sögunnar hér á landi fyrir tæpri hálfri öld. 

Saga þeirra rökræðna er lærdómsrík svo að helstu staðreyndir öryggismála í bílum falli ekki í gleymsku og dá. 

Þegar reynt var að koma á skyldu fólks til að vera í bílbeltum á sínum tíma, var reynt að fræða um dýrmæta erlenda reynslu af notkun þeirra hjá nokkur þúsund sinnum mannfleiri þjóðum í hinum ólíkustu löndum með bæði síkjum og vatnsföllum eins og Holland eða snarbröttu og enn hrikalegra fjalllendi en Ísland. 

En hér á landi var landlægt það viðhorf að vegna "séríslenskra aðstæðna" væri það fyrir öllu, að geta "bjargað sér" með því að kasta sér út. 

Þetta gekk svo langt, að við urðum á eftir öðrum þjóðum í þessu öryggismáli og meira að segja var í fyrstu veitt undanþága frá beltisskyldu, ef ekið væri í brattlendi, svo að þeir, sem í bílum væru gætu kastað sér út ef þeir lentu utan vegar. 

Þessi íslenska kenning var þrert á allar slysarannsóknir erlendis og kostaði nokkur mannslíf hér heima. 

Raunar er það enn svo, að á hverju ári tapast nokkur mannslíf að meðaltali við það að vegna þess að bílbelti eru ekki notuð, kastast fólk stjórnlaust út úr bílum og lendir undir þeim eða lemstrast við að lenda harkalega. 

Bílarnir sjálfir eru hannaðir þannig að þeir leggist sem minnst saman og myndi þannig varnarvegg allan hringinn í kringum bílstjóra og farþega, sem bílbeltin haldi kyrrum á meðan.  

Eitt atriði vill nefnilega oft gleymast varðandi bílbeltin, en það er það öryggisatriði, að bílstjórinn hreyfist sem minnst í sæti sínu og viðhaldi þannig stöðu sinni og getur til að stjórna bílnum. 

Hér í gamla daga, þegar farið var í keppni í ralli, var notað fjögurra punkta belti, sem hélt manni rígföstum við bílstjórasætið og kom í veg fyrir að maður missti tökin á stýri og stjórntækjum við að slengjast til og frá ef bíllinn lenti í loftköstum. 

Eftir þriggja daga keppni fannst fyrir mikilli óöryggiskennd við það að setjast undir stýri í bíl með aðeins þriggja punkta belti. 


mbl.is Lenti undir framhjóli veghefils og lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband