24.6.2020 | 23:32
Mun blasa við á einum mestu söguslóðum landsins. "Laxdæludeilan".
Vindorkuverinu rétt fyrir ofan þorpið í Búðardal er ætlað að framleiða álíka mikla orku og Blönduvirkjun, sem skilgreind var sem stórvirkjun á sínum tíma. Vindmyllugarðurinn á eftir að sjást á mestöllu sögusviði Laxdælu, Eiríks sögu rauða og Sturlungu og verða í hjarta mestu söguslóða landsins.
Þetta verður aðeins einn af þeim tugum og síðar hundruðum vindorkuvera, sem þegar er búið að leggja upp með út um allt land á aðeins tveimur síðustu árum, og eiga að framleiða alls 3200 megavött, sem er á við meira en fjórar Kárahnjúkavirkjanir og eiga samtals að afkasta talsvert meiri orku en nemur heildarorkuframleiðslu Íslands núna.
Á kortinu má sjá staðsetningu vindorkugarðsins við Hróðnýjarstaði, sem mun að öllum líkindum ryða braut fyrir margfalt stærri garð.
Neðar er kort af Hafnarfirði og Garðabæ með álíka svæði sett inn á með bláum lit í landi Hafnarfjarðar til að sýna stærðarhlutföll sem íbúar höfuðborgarsvæðisins þekkja.
Sjá má á blaðaskrifum eigenda vindorkuveranna, að þeir sækja fast að vindorkuverin falli ekki undir rammaáætlun, þannig að leiðin til að þekja allt landið frá hálendi út í sjó geti orðið sem greiðust.
Þrautreyndri og árangursríkri aðferð verður beitt, en hún felst í þrýsta málinu í gegn sem hraðast.
Því lengra sem komist er, áður en efasemdarmenn ná vopnum sínum, því erfiðara verður að snúa við blaðinu. Sagt verður, að þegar sé búið að eyða svo miklum fjármunum í málið, að þeir sem ætli sér að stöðva það, beri ábyrgð á fjárhagstjóninu, sem verði.
Þessari aðferð var beitt í upphafi Laxárdeilunnar 1969-70 og andófsmönnum þar kennt um að stofna til stórfellds tjóns, af því að búið væri að kaupa túrbínur í nýja Laxárvirkjun.
Sigurður Gizurarson, verjandi Mývetninga og Laxdælinga, sneri dæminu við og sýndi fram á að með offorsi sínu hefðu kaupendur túrbínanna bakað sér ábyrgð á þeim fjárútlátum.
Nú hefur sveitarstjórn farið út í vinnu og undirbúning við breytingar á aðalskipulagi vegna vindorkuveranna tveggja í Dalabyggð og með því gengið inn í gamalkunnuga gildru þeirra sem stefna að því að láta efasemdarmenn standa frammi fyrir gerðum hlut.
Hvers vegna var ekki látin fyrst fara fram viðhorfskönnun áður en lagt var í undirbúning breytinga á aðalskipulaginu?
Það er athyglisverð tilviljun, að báðir dalirnir sem koma við sögu í þessum tveimur málum, bera heitið Laxárdalur.
Að því leyti var sagan af Laxárdeilunni þess tíma Laxdæla.
Á kynningarfundi um vindorkuverið var fullyrt að hávaðinn af vindmyllugarðinum yrði minni en í ísskáp!
Með slíkri fullyrðingu er því treyst að íbúarnir viti ekkert um það, að það er einmitt hávaðinn frá vindmyllunum, sem er ein af ástæðum andófs næstu nágranna vindmylla erlendis.
Síðuhafi heyrði gnauðið með eigin eyrum á ferð um Jótland fyrir rúmlega 20 árum og um gnauðið snýst óánægja erlendis.
Einnig var á fundinum sýnd mynd, sem átti að sanna, að vindmyllurnar væru nær ósýnilegar!
Myndin var tekin beint ofan frá, svona eins og að þeir, sem horfðu á myllurnar, væru yfirleitt staddir lóðrétt fyrir ofan þær!
Auk þess þurfa svona vindmyllugarðar heilmikið veganet sem tengja þær.
Söguslóðirnar frægu úr Laxdælu, Eiríks sögu rauða og Sturlungu, eru eitt af helstu atriðunum í aðdráttarafli Dalabyggðar, og það er nokkuð ljóst, að margir tugir og síðar hundruð af 150 til 180 metra háum vindmyllum, sem munu sjást um allan Hvammsfjörð og víðar, mun fæla fólk frá því að koma á slóðirnar til að teyga í sig andrúmsloft Íslendingasagnanna.
Kanna viðhorf íbúa til nýtingar vindorku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hafðu góðar þakkir fyrir þennan þarfa pistil.
Tek heils hugar undir góð og afar brýn varúðarorð þín.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.6.2020 kl. 15:05
Útlitið venst, gnauðið venst eins og hver annar árniður.
Auka-kostnaðurinn verður hinsvegar erfiður. Vatnsaflsvirkjanir kosta ekki svo mikið og eru mjög áreiðanlegar, vindorka er dýr og óáreiðanleg.
Ásgrímur Hartmannsson, 25.6.2020 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.