28.6.2020 | 13:24
Hvað gerði fólkið i Venhorst?
"Kaupmaðurinn á horninu", sem var svo ómissandi þáttur í þjóðlífinu fyrir hálfri öld, má muna sinn fífil fegri. Brotthvarfi hans úr þjóðlífinu hefur verið tekið eins og náttúrulögmáli, og fá ráð hafa sýnst vera til varnar.
Tíndar hafa verið til alls konar ástæður, svo sem nýir verslunarhættir í stórmörkuðum, með sjálfsafgreiðslu og tilheyrandi kostum stærðarinnar, en einnig almenn einkabílaeign.
Kaupstaðurinn Venhorst í Hollandi er um tvö þúsund manna bæjarfélag í um tíu kilómetra fjarlægð frá miklu stærri bæ.
Myndin er tekin á fjölmennri Evrópuráðstefnu þar 2017.
Fyrir nokkrum árum var svo komið í Venhorst, að öll smásöluverslun var að deyja út.
Svipað vandamál og í mörgum íslenskun þorpum, svo sem Kópaskeri og Vopnafirði.
En íbúar Venhorst dóu ekki ráðalausir, heldur settust á rökstóla og krufðu vandamálið til mergjar.
Þeir rákust strax á þá staðreynd, að stór hluti íbúanna var kominn á eftirlaunaaldur og hafði enga atvinnu og litla afþreyingu. Samskipti bæjarbúa voru komin í lágmark.
Þarna leyndist visst tækifæri, og farið var í vinnu við að greina vandann á þann hátt að skoða, hve margir íbúar voru tilbúnir til að fórna hluta af tíma sínum í sjálfboðavinnu eða fyrir afar litla þóknun við að inna nauðsynlega þjónusu af hendi.
Niðurstaðan varð sú að opna að nýju smásöluverslunina og dreifa störfum við hana á íbúana sjálfa. Hagkvæmnisathugun leiddi í ljós, að þegar heildarkostnaður var reiknaður saman, var dýrasta lausnin fólgin í því að halda áfram að láta íbúana aka langar leiðir á einkabílum til verslunarerinda.
Þess lausn leysti heilmikið líf og fjör úr læðingi, og árið 2017 var 43ja þjóða mörg hundruð manna þriggja daga ráðstefna Dreifbýlisþings Evrópu ( European Urban Parliament) haldið í Venhorst með glæsibrag, þar sem ýmsar lausnir fólksins, sem bjó þar, vöktu aðdáun og umræður.
Það hafði komið í ljós að fjöldi þeirra, sem vildi taka að sér vaktir og störf í versluninni var hæfilega mikill, og alveg nýtt líf færðist í samskiptin í bænum.
Vitanlega eru aðstæður misjafnar eftir stöðum og verður því að vanda vel til undirbúnings lausnar, sem virkar.
Kaupfélaginu bjargað frá lokun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.