Aldrei aðvörunarmerkingar þessa dagana, svo munað sé eftir.

Þegar komið er af slitnu og grófgerðu slitlagi á vegi yfir á glæruhált nýtt malbik er voðinn vís. Maður, nákominn síðuhafa, lenti í þessu fyrir allmörgum árum og mölbrotnaði svo á ökkla að það þurfti margar aðgerðir í nokkur ár til að gera hann gangfæran á ný. 

Engin aðvörun, engin merking.

Núna má sjá svona hættukafla út um allt og hvergi eru neinar aðvörunarmerkingar þótt augljóst sé hver hættan er.  "Það er bannað að detta" er eitt helsta boðorð vélhjólamanna en þegar ekið er inni í röð af bílum sem byrgja fyrir útsýnið framundan og allt í einu komið út á glæru nýs malbiks, þarf oft ekki að spyrja að leikslokum, hvort sem það er hellirigning eða sólskin. 

Í Þýskalandi og víðar erlendis eru aðvörunarmerkingar settar það langt frá hættusvæði eða lokaðri akrein eða vegi, að ökumenn geti gert sínar ráðstafanir í tíma.

Hér í landi virðist hins vegar algengur sá hugsunarháttur að gefa engar aðvaranir í umferðinni eða þá allt of seint. Erlendis gefa menn stefnuljós í tíma en hafa það ekki eins og hér, að gefa annað hvort ekkert stefnuljós eða gefa það svo seint að komið er inn í beygjuna. 

Í eina skiptið sem síðuhafi hefur verið nærri því að detta enn sem komið er á sínum ferli á vélhjóli, var þegar taka þurfti að stað í brekku við umferðarljós fyrir aftan tvo bíla fyrir framan. Þá kom í ljós eins konar svunta af nýlögðu malbiki yfir gatnamótin, og mátti hafa sig allan við að komast af stað, án þess að og detta við það að spóla og renna til. 

Ekkert merki til aðvörunur.  

Hér á síðunni var sagt frá því fyrir allmörgum árum að verktaki lokaði nyrsta hluta Háaleitisbrautar klukkan sjö að morgni og lokaði með því leið inn í og út úr 700 manna byggð fram eftir degi. 

Ekkert merki, engin aðvörun kvöldið áður. 

Stjórnandinn á staðnum reif kjaft og sagði að samkeppnin milli verktaka væri svo mikil að þeir hefðu ekki efni á því að merkja neitt. 

Þegar snúið var sér til borgarinnar kom í ljós, að merkingaskylda var inni í útboðsskilmálum, en því miður væri ekki mannskapur eða peningar hjá borginni til þess að gera neitt. 

Hringurinn lokaðist. 

Árið áður höfðu þeir sem óku um hluta af Suðurlandsbrautinni komist í öngstræti þegar þeir voru komnir út á skurðbakkann! 

Fyrir þremur árum lokaði verktaki frárein af Reykjanesbraut úr norðri niður í Garðabæ, þannig að þeir, sem annars hefðu farið þarna, þurftu að aka fimm kílómetra hring um Hafnarfjörð og Garðabæ til þess að komast leiðar sinnar í stað þess að ef merking hefði verið einum gatnamótum norðar hefðu engin vandræði orðið. 

Í hve marga áratugi í viðbót á svona ástand að líðast?  


mbl.is Tveir létust í árekstri á Kjalarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Á vegöxlinni frægu sem lá meðfram Keflavíkurveginum á sínum tíma var eitt skilti. Það var staðsett við enda vegaxlarinnar og á því stóð Vegöxl endar. Svipað og að setja varúð skurður ofan í skurð.

 Dæmigerður slugsháttur og eftirlitsleysi með flestöllum framkvæmdum. Þetta reddast attitjúið er farið kosta of mikið og tími til kominn að tekið sé á þessum málum af ábyrgð og festu. Slugsið hefur þegar kostað of mörg mannslíf og allt útlit fyrir að fleiri muni farast í framtíðinni vegna þess. Kominn tími til að sparka ærleg í rassgatið á embættismannaelítunni og draga hana til ábyrgðar, í stað þess að hlýða endalaust á fánýtar útskýringar vanhæfs fólks á klúðri sínu. Klúðri sem kostað hefur mannslíf og mun halda áfram að gera, nema bjúrókratið girði sig í brók, átti sig á hlutverki sínu og taki afleiðingum gerða sinna.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 28.6.2020 kl. 23:32

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Áralögn reynsla af daglegum akstri á mótorhjóli í þýzkalandi æsku minnar kenndi mér það að maður er heppinn ef maður sleppur frá byltum vegna hálku sem getur komið í frostleysu á yfirborði götu eins opg þú lýsir.Steinlögðu strætin í Þýzkalandi voru þeirra gerðar og marga byltuna hlaut maður þar.

Mótorhjól eru því miður lífshættuleg þrátt fyrir sjarmann og fegurðina. Það er aldrei spurning um hvort heldur bara hvenær, ef þú átt í ástarsambandi við þessar dásemdir sem hjólin eru.

Play it safe on four wheels and live longer.

Halldór Jónsson, 28.6.2020 kl. 23:39

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ek ekki rafknúnu hjólunum mínum í hálku eða á vetrum nema á grófum negldum vetrardekkjum.  

Ómar Ragnarsson, 29.6.2020 kl. 00:25

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Og eftir að ég fékk litla rafbílinn fyrir tveimur og hálfu ári er hann tiltækur, ef svo ber undir. 

Ómar Ragnarsson, 29.6.2020 kl. 00:26

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Haltu þig við 4 hjól héðan af Ómar minn. Mig langar til að hafa þig áfram meðal okkar. Ekki freista Drottins með þína slysasögu að baki.

Halldór Jónsson, 29.6.2020 kl. 01:05

6 identicon

Með fullri virðingu fyrir dýralæknum, þá  segir sig sjálft að ekki er von á góðu í vegamálum þegar forstjóri Vegagerðarinnar er dýralæknir og ráðherra vegamála einnig, til dæmis þær "vegabætur" sem gerðar hafa verið á Hellisheiði og Suðulandsvegi með 2+1 akbrautum sitt á hvað valda stórkostlegri hættu í umferðinni og þá sérstaklega á veturna í hálku og skafrenningi, auðvitað á að gera tvær akreinar í báðar áttir þó svo að vegalagningin taki eitthvað lengri tíma, mannskapur og tæki á staðnum á hverjum framkvæmdatíma en núverandi stjórar "dýralæknarnir" skilja ekki öryggið sem felst í 2+2 vegi. Ómar takk fyrir allt efni sem þú hefur fært okkur þjóðinni og lifðu vel og lengi. 

Jón Ingi Kristjánsson (IP-tala skráð) 29.6.2020 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband