7.8.2020 | 20:54
Jafn óvænt og Ólympíusilfrið.
Vilhjálmur Einarsson var hinn rólegasti að slaka á eftir hádegisverð hinn 7. ágúst 1960, þegar hringt var í hann og hann spurður, hvað hefði komið fyrir hann.
Það var ekki furða, því að stutt var í það að þrístökkið hæfist á frjálsíþróttamóti á Laugardalsvellinum og Vilhjálmur orðinn of seinn á vettvang; hafði lagt á minnið tímasetningu, sem var einni klukkustund of sein.
Hann flýtti sér að sjálfsögðu á völlinn, en var svo seinn fyrir, að hann hafði of lítinn tíma til að hita upp og varð að sleppa fyrsta stökkinu.
Síðan tók hann til við að stökkva og stökkserían varð sú langbesta, sem hann náð á ferlinum fram að því, með jöfnun á gildandi heimsmeti, 16,70 metrar.
Heimsmethafinn Jósef Schmidt var að vísu kominn með heimsmetstökk, 17,03 metra í safn sitt, en það átti eftir að fylgja því eftir og fá það samþykkt sem löglegt heimsmet.
16,70 stökkið þennan ágústdag kom næstum því jafn óvænt og silfurstökkið í Melbourne 1956, en var aldeilis stórkostlegt afrek, sem gaf talsvert fleiri stig þá en gildandi heimsmet í 100 metra hlaupi.
Á þessum árum voru ekki komnar í gagnið þær tartan-brautir sem síðar komu, né heldur mun betri keppnisskór og framfarir í þjálfun og tækni.
Met Vilhjálms og annarra á þessum árum er því erfitt að bera beint saman við met nútímans, en eru fyrir bragðið enn stórkostlegri en ella.
Á Ólympíuleikunum í Róm munaði örfáum sentimetrum að Vilhjálmur kæmist aftur á verðlaunapall, en þar stökk hann lengra en á leikunum í Melbourne, þriðji besti árangurs hans á ferlinum, en var óheppinn með aðstæður, sem mótuðust af misvindi, og bitnuðu á honum af völdum keppinautar, sem teygði tímann í undirbúningi stökkva sinna svo mikið, að með eindæmum var.
Þá höfðu ekki verið sett þau tímamörk í reglurnar, sem síðar komu til að koma í veg fyrir slíkt.
Afrek sem allar milljónaþjóðir yrðu stoltar af | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.