27.8.2020 | 22:19
Sparakstursrall á rafbílum kallar á allt öðruvisi rall en HM í ralli.
Það er gott og gaman þegar Íslendingum gengur vel í bílaíþróttum erlendis og ástæða er að óska þeim til hamingju með það.
Á okkar tímum, tímum umhverfismála, nýtni og sparneytni, skipar keppni í sparakstri vaxandi mikilvægi og athygli sem betur fer, og er það vel.
En helst þyrfti að forðast það að gefa til kynna að e-rally sé sams konar og það rall, sem keppt er í í HM í rallaksri.
Heitið Consumption Cup er fyrst og fremst sparakstur, því að orðið consumption þýðir eyðsla á íslensku og hvað bíla varðar þýðir orðið eldnsneytiseyðsla á bílum, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, en sameiginlegt heiti fyrir alla bíla gæti verið orkueyðsla.
Fyrstu sparaksturskeppnirnar hér á landi byggðust á því að eyða sem minnstri orku á tiltekinni vegalengd, og var hægt að ná ansi langt á dropanum ef engin hraðatakmörk voru sett.
Síðasta sparaksturskeppni FÍB fór fram í ágúst 2016 og var reynt að líkja eftir venjulegum þjóðvegaakstri á leiðinni Reykjavík-Akureyri.
Þar voru settar þær reglur, að ekki væri eytt meiri tíma í aksturinn en sex klukkustundum, og gert að skyldu að stoppa í hálftíma miðja vegu, á Gauksmýri, Sem sagt: Akstur í 5 klst 30 mín og stans í 30 mín.
Ef of löngum tíma var eytt, var gerð refsing fyrir það, þannig að það borgaði sig ekki að fara óeðlilega hægt.
Bíllinn, sem eyddi minnstu, eyddi 4,03 lítrum á hverja hundrað kílómetra.
Af því að vélhjól voru ekki hlutgeng í þessum sparakstri tók síðuhafi óbeinan þátt í honum með því að fara á léttbifhjóli af gerðinni Honda PCX 125 cc sömu leið á 5 klukkustundum og 30 mínútum brúttó, og var eyðslan 2,5 lítrar á hundrað kílómetra.
Síðuhafi keppti á sínum tíma hérlendis og erlendis bæði i rallakstri í þeim hluta HM, sem fór fram i Svíþjóð 1981 og í alþjóðlegri sparaksturskeppni í Yveskila í Finnlandi.
Þetta voru gerólíkar keppnir, eins og útlit og eiginleikar keppnisbílanna báru gott vitni um, báðar fóru að vísu fram á sérleiðum og ferjuleiðum, en grunnatriðin í því sem keppt var að, voru svo ólík, að engum datt þá í hug að nota heitið rall um sparaksturinn, enda ólík heimssambönd, sem að þeim stóðu.
Við heimsmeistarakeppnina ERRC Consumption Cup er stigagjöf fyrir atriði sem byggjast á hraða blandað saman við sparaksturinn, en aðferðin varðandi aðstæður og keppnisleiðir gerir það að verkum, að keppnin HM í ralli er allt annars eðlis en HM í rafralli.
Ekki þarf annað en að skoða smíði og styrkingar rallbílanna til þess að sjá, hve krafan um hámarkshraða í vondum vegum vegur þungt í rallaksturskeppni.
Unnu rafbílarallið á Opel Corsa-e | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.