Víkingaskipin, sem fluttu landnema Íslands hingað til lands, voru talin fullgóð á sínum tíma tl þeirra nota. Þau myndu hins vegar ekki standast kröfur Siglingamálastofnunar nú og hefðu ekki gert það þegar verið var að sigla þeim um síðustu aldamót. Ef núverandi kröfur Siglingamálastofnunar hefðu verið í gildi fyrir rúmlega 1100 árum, hefði Ísland ekki verið numið. Það stóð í stappi með endursmíði víkingaskipa sem siglt var yfir Atlantshaf um síðustu aldamót, af því að þau voru ekki talin standast styrkleikakröfur nútímans; skipin voru upphaflega hönnuð til þess að hafa innbyggða hreyfingu. Svipað átti við um flekann Kon-tiki hjá Thor Heyerdal, sem þorði ekki annað en að styrkja flekann með auka stögum. Þegar farið var af stað, kom í ljós, að stögin söguðu flekann í sundur og hann liðaðist í sundur á haföldunni. Flekinn var því látinn fara í upphaflegt form og honum siglt farsællega yfir Kyrrahaf.
Burt með þessi gömlu og "úreltu" fley?
Fiat 500 árgerð 1972 og NSU Prinz árgerð 1958, nú í eigu síðuhafa, stóðust kröfur þeirra tíma um búnað og hönnun bíla, en eru fjarri því í dag. Engir hliðarspeglar voru eða éru á Fiatinum af því að hann var hannaður til að smjúga um mjóstu göturnar í Napoli og Róm. Engin öryggisbelti voru eða eru í þessum bílum. Þeir fengju enga stjörnu í árekstrarprófunum NCAP núna. Á tímabili fengu þeir að vera í umferð fyrir rúmum áratug, til dæmis í akstri Fornbílaklúbbsins 17. júní og í Gleðigöngunni.
Burt með þá?
Svipað og enn magnaðra mætti segja um elstu bílana í íslenska bílaflotanum, sem eru á ferli á tyllidögum.
Burt með þá og gamla forsetabílinn?
Nú kemur í ljós, að fyrsta húsið, sem hannað var sérstaklega og byggt fyrir tækjarekstrar útvarps á Íslandi 1929-1930 og stóðst allar kröfur þá, gerir það ekki í dag.
Burt með það?
Á lóð Menntaskólans í Reykjavík stendur lítið hús, fyrsta húsið á Íslandi, sem hannað var og byggt sem íþróttahús.
Það var gefið byggingarleyfi fyrir því á sínum tíma, en í dag er það víðsfjarri því að standast kröfur nútímans. Það er til dæmis svo lítið, að það er langt frá því að hægt sé að koma fyrir heilum vítateigum fyrir í því, heldur enda þeir úti í hliðarveggjum. Á tímabili voru uppi áform um að umturna því að innanverðu.
Burt með það?
Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.