Skemmtilegar rökræður um svonefnda stjörnuspeki.

Fyrir allmörgum árum var birt athyglisverð tímaritsgrein um stjörnuspeki og stjörnumerkin, sem margir hafa svo mikinn áhuga á. 

Í þessari grein, sem ég man frekar lítið úr nú, eftir svona langan tíma, voru grundvöllur stjörnuspekinnar og stjörnumerkjanna tætt í sundur.  

Nokkrum dögum eftir lestur greinarinnar hitti ég konu, sem var sérfræðingur í þessum málum og lá í spádómum og öðru, sem tengdust þessu fyrirbrigði. 

Ég var með blað í höndunum með stjörnuspádómum svipuðum þeim, sem sýndir eru tengdri frétt á mbl.is. og hugði gott til glóðarinnar að nota nýfengna vitneskju til að hrekja það sem konan góða var svo ánetjuð og virtist trúa á í blindni. 

Upp hófust rökræður, þar sem ég tíndi til allt það sem ég mundi úr greininni, og var hluti af því byggður á því, að í sögu þessara fræða hefði verið skipt um tímatal, þannig að undirstaða stjörnuspeki nútímans væri kolskökk og tóm steypa. 

Konan horfði sallaróleg á mig, og þegar ég hafði tínt allt til spurði hún: 

"Ertu búinn að ljúka þér af?"

Ég hélt nú það; og þetta væri nú ekkert smávegis, sem væri að í fræðum hennar. 

Konan brosti og spurði: "Hvenær ert þú fæddur, vinur minn?"

"16. september." 

Konan ljómaði af ánægju og sjálfstrausti þegar hún sagði: 

"Er þessi endalausa og nákvæma smámunasemi þín ekki dæmigerð fyrir mann í meyjarmerkinu?"

Þögn. 

Yppon.  


mbl.is Meyjan: Það er blessun yfir þér í þessum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ungan sannsöglan mann hef ég fyrir mér í því að það séu yfirleitt konur sem trúi á þetta. 

Merkilegt ef rétt er. 

ps. Ég er í bogamanninum

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.9.2020 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband