Full ástæða að vara við virkjanaæðinu.

Það blésu nýir vindar um Orkuveitu Reykjavíkur þegar Bjarni Bjarnason tók þar við forstjórastöðu. Húsið sjálft var lýsandi dæmi um yfirlæti, mont og jafnvel hroka. 

Líka orðið ónýtt og staðan ófremdarástand á flesta lund. 

Bjarni og samstarfsfólk hans tók til hendi og sneri dæminu við.  

Á síðustu misserum hefur ríkt sannkallað virkjana- og framkvæmdaæði hér á landi.  

Fyrirætlunum um stórfelldar framkvæmdir við risa háspennulínur hafa verið réttlættar með því að með því sé verið að tryggja afhendingaröryggi til almennings. 

Mölbrotnar, gamlar og úreltar innanhéraðslínur hafa verið notaðar sem ástæður til þess að fara út í hrikalegar stóriðjulínur, sem flestar breyta engu um dreifilínurnar í héraði.  

Bjarni hefur sýnt fram á að tugmilljarða framkvæmdir í risa háspennulínum fyrir stóriðjuna muni einfaldlega hækka verðið á raforku, sem alltof mikið er framleitt af, gagnstætt því sem haldið er fram í virkjanaáróðrinum.

Sá áróður hefur einnig snúist um nauðsyn þess að framleiða raforku fyrir samgöngukerfið, svo sem bílaflotann, sem skorti orku. 

Bjarni hefur bent á, að rafvæðing alls samgönguflotans þurfi 3,5 % af raforku landsins, en hins vegar séu 7,5% vannýtt orka.   

En virkjanaæðið hefur hingað til bara sótt í sig veðrið með fyrirætlunum um vatnsaflsvirkjanir, jafnvel í hundraða tali og orkuaukningu um fjórðung á landsvísu, og hugmyndir um vindorkuvirkjanir sem myndu tvöfalda raforkuframleiðsluna. 

Þar að auki sé álverið í Straumsvík að nálgast hámarks líftíma slíkra verksmiðja og því verði menn að vera viðbúnir því að því verði lokað. 

 

 


mbl.is Varar við offjárfestingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrstu 9 greiðslur mínar fyrir rafmagn á líðandi ári voru kr. 7216. Fyrir flutning, RARIK, hinsvegar kr. 26741. Er það eðlilegt að borga nær fjórum sinnum meira fyrir flutning orkunnar, en fyrir orkuna sjálfa? Tek fram að fyrstu 6 mánuði ársins var enginn í húsinu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.10.2020 kl. 20:12

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Megnið af þeim virkjunum sem nú er verið að byggja eru held ég tiltölulega litlar, jafnvel mjög litlar virkjanir. Mér finnst það vera athugunarefni hver raunkostnaðurinn er af því að dreifa orkunni frá þessum virkjunum. Landsnet er held ég skyldugt til að gera það.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.10.2020 kl. 21:57

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Dreifikerfi sveitanna er óðum að færast í jörð og vandinn ekki þar. Hins vegar er byggðalínan orðin gömul og feyskin. Það voru einmitt áföll á henni og spennivirkjum hennar sem gáfu sig síðasta vetur. Sumpart vegna lélegs viðhalds spennuvirkja og einnig vegna gamalla og lélegra línustæða, sem einfaldlega þoldu ekki smá rok. Í desemberveðrinu síðasta vetur hrundi raforkukerfið, fyrst á norð vesturlandi. Það hrundi þó ekki vegna veðurofsans, þar sem rafmagn fór af svæðinu nokkru áður en veðrið náði hámarki, reyndar um það leyti er veðrið byrjaði að versna. Því er full þörf á að byggja upp byggðalínuna um allt land, enda komin nokkuð á fimmta áratuginn í aldri og viðhald verið minna en ekkert.

Samkvæmt orkupakkatilskipunum esb, sem misvitrir stjórnmálmenn okkar gengust að, mun þurfa að leggja þann kostnað á neytendur. Þarna var stigið skref út í fenið, sem sennilega erfitt verður að bakka upp úr. En hver veit?

Það er hins vegar gleðilegt ef BB er orðinn slíkur bjargvættur sem þú lýsir Ómar. Batnandi mönnum er best að lifa. Þetta er þó ekki sú kynning sem ég hafði af honum um nokkurra ára skeið. Því miður held ég að hann hafi svo sem lítið breyst og nefni þar tölur hans um orkuþörfina fyrir rafvæðingu bílaflotans. Hann hefur oft gert lítið úr þeirri þörf, bæði í ræðu og riti. En sem fyrr telur hann sig ekki þurfa að leggja neinar skýringar á þeim fullyrðingum sínum. Þó held ég að ekki þurfi mikla kunnáttu í reikningi til að átta sig á að þar er Bjarni á villigötum, eða í það minnsta vafasamri leið.

Það er ekki lengur spurning um hvort bílaflotinn muni rafvæðast, einungis spurning um hversu hratt það muni ganga. Það yrði skelfing ef upp kæmi sú staða að ekki væri til orka til að knýja þá áfram, vegna þess að stjórnmálamenn hlustuðu á svokallaða sérfræðinga sem þekkja ekki mun á gítar og trommu!

Gunnar Heiðarsson, 15.10.2020 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband