27.10.2020 | 23:42
Sérkennileg bandarísk óvissa og ófriður.
Að uppruna til og að miklu leyti til dagsins í dag eru Bandaríkin víðfemt land með miklu meira dreifbýli en hinar stóru borgir í landinu benda til.
Líkast til eru það þessar aðstæður sem hafa gert það að verkum að ákvæðin um utankjörstaðaatkvæði og póstlögð atkvæði eru býsna nýstárleg í augum annarra þjóða.
Það hljómar ótrúlega að í einum forsetakosningunum vestra hefði ekki verið hægt að úrskurða endanlega um úrslit kosninganna fyrr en í mars.
Þannig verður þá trúlega aldrei aftur, en minna má á, að eftir forsetakosningarnar árið 2000 leið ótrúlega langur tími frá kjördegi, þar til seinleg endurtalning og þref um framkvæmd kosninganna virtist stefna í átt að pattstöðu, sem Hæstiréttur batt síðan enda á.
Eftir það finnast enn þeir, sem telja að Al Gore hafi í raun sigrað, enda fékk hann fleiri atkvæði en George W. Bush.
Trump hefur í góðum tíma fyrir kosningarnar nú spáð mesta kosningahneyksli allra tíma og með því gefið í skyn, að líki honum ekki úrslitin, muni hann fara í slag út af úrslitunum.
Í ljósi þessa er hægt að leggja sérstakan skilning í þau ummæli Trumps að það að klára skipan nýs hægrisinnaðs hæstaréttardómara fyrir kosningarnar hafi verið mikilvægasta mál þessara síðustu daga fyrir kosningarnar.
Í tengdri frétt á mbl.is sést nánar, hvernig hlutföllin í réttinum gætu breytt miklu í einstökum málum.
Og vald Hæstaréttar í svona málum er algert ef þau koma inn á borð til hans.
Hann hefur meðal annars lýst persónulegri stefnu sinni að hún snúist um það að hopa aldrei heldur berjast, berjast og berjast.
Það er líklegt að slíkt muni gilda á öllum sviðum valdsins, löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu og að framundan kunni að verða alveg einstakur tími ósættis, ófriðar og óvissu í Bandaríkjunum.
Átök í aðsigi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.