15.12.2020 | 15:24
Síbyljan um þörf á 600 megavöttum fyrir orkuskipti bílaflotans heldur áfram.
P. S. Vegna deilna í athugasemdum við þessum bloggpistli er eftirskrift sett inn hér, af því að aðeins hér er hægt að birta myndir.
Efsta myndin sýnir forsíðu Autokatalog þýska tímaritsins Auto motor und sport.
Næst efsta myndin er af umfjölluninn um Nissan Leaf þegar hann fékk 60 kWst rafhlöðu og fyrir neðan myndina af Tazzari og Nissan Leaf 1.kynslóð er síðan nærmynd af textanum, þar sem segir að nýjasti bíllinn sé með 60 kWst rafhlöðu, en 149 kW rafmotor.
Í athugasemdinni, sem þessar myndir vísa til, er því nefnilega haldið fram fullum fetum að aðeins séu notuð afltalan í kílóvöttum varðandi bíla en ekki talan með kílóvattstundunum.
Hér kemur síðan bloggpistillinn sjálfur.
Nú er tölunni 600 megavöttum varðandi það hve mikla raforku bílaflotinn muni þurfa í orkuskiptnum stanslaust haldið fram í umræðunni um orkumálin í fjölmiðlum og á netmiðlum.
Meðan þessari tölu er haldið fram og hún ævinlega notuð í umræðunni er hún svo arfaskökk, að hún eyðileggur alla umræðu, því að venjulega er hnykkt á með því að segja að þessi gríðarlega orkuþörf sé á við framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar.
Hin rétta tala er nefnilega 100 megavött, eða á við Sogsvirkjanirnar eða Búðarhálsvirkjun.
Búðarhálsvirkjun er 95 megavött en framleiðir 585 gígavattstundir yfir árið.
Undanfarin ár hafa stóriðjufyrirtæki í eigu útlendinga notað um 2000 megavött á ári, en öll heimili og fyrirtæki í eigu Íslendinga hafa samanlagt notað um 500 megavött.
Samkvæmt 600 megavatta síbyljunni um rafbílana myndu þeir einir taka alla raforku af íslenskum heimilum og fyrirtækjum og gott betur!
Með síbyljunni um 600 megavött sem bílaflotinn einn muni þurfa að nota, er reynt að drekkja ummælum Bjarna Bjarnasonar forstjóra ON sem þó byggir á upplýsingum innan úr bókhaldi eigin fyrirtækis og annarra fyrirtækja og orkunotenda.
Þar að auki bendir Bjarni á það hagræði sem hægt er að ná fram varðandi þann tíma, sem rafbílarnir eru í hleðslu.
En það er líka hægt að giska á rétta tölu með því að nota upplýsingar beint innan úr bílageiranum sjálfum um fjölda bílanna, meðalorkueyðslu og árlegan akstur þeirra.
Fjöldinn x meðalorkueyðsla á hverja 100 ekna kílómetra x 150)
Þá verður hæsta mögulega tala 600 gígavattsstundir, (200.000 x 20 x 150) sem er svipað og orkuframleiðsla Búðarhálsvirkjunar, sem gefur 585 gígavattssdundir út úr aflinu 95 megavött.
Spá fjölgun stórra á orkunotenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef bíll notar 2,5 kílóvött (svipað og tveir hárblásarar) á klukkutíma í hleðslu þá nota 1000 bílar 2,5 megavött þann klukkutímann.
Og taki hleðslan 10 tíma þá nota þessir 1000 bílar 25 megavött í hleðsluna þann daginn.
Þurfi að hlaða þessa 1000 bíla tvisvar í viku þá eru það 2600 megavött yfir árið, eða 2,6 gígavött. 200.000 bílar gera þá 520 gígavött yfir árið. Í dag eru bílar á Íslandi um 270.000.
Búðarhálsvirkjun er með 95 megavatta uppsett afl á klukkutíma og gæti því verið stöðugt með 38.000 bíla í hleðslu meðan virkjunin helst í 100% afköstum, eða 26.400 bíla miðað við 585 gw ársframleiðslu.
Það er frekar ólíklegt að fólk stökkvi út kvöld og nætur til að setja bíla í hleðslu frekar en að stinga þeim í samband síðdegis þegar komið er heim. Stinga í samband um það leiti sem ljós eru kveikt, þvottavél sett í gang og kveikt á eldavél.
Fólk vill einfaldlega, og eðlilega, hafa eins mikla hleðslu og það getur þegar á bílnum þarf að halda, hvort sem það er morguninn eftir eða óvænt eftir kvöldmat. Skapi það vandamál þá er það annarra að leysa þau. Hjá flestum verður það dagleg rútína þegar komið er heim að stinga í hleðslu. Því verða flestir bílar fullhlaðnir eftir kvöldmat og mjög mikið álag síðdegis en nær ekkert yfir nóttina.
Og topparnir hvern dag segir hver þörfin er en ekki eitthvað sólahrings meðaltal eða árs framleiðsla.
Vagn (IP-tala skráð) 15.12.2020 kl. 16:03
Það virðist greinilegt að þú teljir þig vita miklu betur en ég hvernig og hvenær rafbílar eru hlaðnir, Vagn. Ég þarf á ráðgjafaþjónustu að halda, því að ég virðist hafa gert þetta kolvitlaust í þau þrjú ár sem ég hef átt og notað rafbíl.
Hann er nær eingöngu heimahlaðinn, og yfirleitt stungið í samband á kvöldin og látið malla yfir nóttina. Tekið úr sambandi eftir að farið er á fætur.
Miðað við þessa reynslu undrast ég, hvernig ég sjálfur komist hjá því að gera þetta öðruvísi.
Ómar Ragnarsson, 15.12.2020 kl. 16:26
Talan 585 hjá Búðarhálsvirkjun táknar gígavattSTUNDIR, Vagn, ekki gígavött.
Megavött og megavattstundir eru ekki sama einingin, megavött táknar afl, en megavattstundir orku.
Oft er talað um "uppsett afl", mælt í megavöttum, sem táknar það afl, sem túrbínurnar geti afkastað í hámarksátaki.
En auðvitað eru túrbínur eða aflvélar ekki alltaf í fullum afköstum, og þess vegna er önnur eining, megavattstundir notuð um það.
Rafbílar er til dæmis með rafhreyfla, sem afkasta oftast á bilinu 110 til 200 kílóvattaafli í hámarksátaki.
En bílunum er hins vegar yfirleitt aðeins ekið á broti af þessu afli, og þess vegna er uppgefin orkueyðsla ekki nema á bilinu 12-25 kílóvattstundir á hverja 100 kílómetra.
En þú veist þetta víst allt saman miklu betur en ég, svo að ég þig afsökunar á því að vera að angra þig svo mikið með þessari bloggsíðu minni, að þú þarft að eyða allri þinni fyrirhöfn í stöðugt andóf gegn flestu, sem á henni birtist af minni hálfu.
Ómar Ragnarsson, 15.12.2020 kl. 16:38
Ég þekki ekki til hvernig heimahleðslutæki eru almennt, hef aldrei notað slíkt. En það getur ekki verið flókið að útbúa þau með "klukku" þannig að bíllinn byrji að hlaðast á ákveðnum tíma.
Þannig er t.d. hægt að fá ýmis heimilistæki og ljós.
Hins vegar vantar á Íslandi að bjóða upp á ódýrara rafmgn, t.d. eftir 9 eða 10 á kvöldin.
Ég held að "mælarekendur" þurfi að huga að þeim möguleika þegar settir eru upp nýjir mælar og gamlir endurnýjaðir.
Ef til vill er einhver vísir að slíkum "smartmælum" á Íslandi, en það er þörf á hvata, til að dreifa rafmagnsnotkuninni, ekki síst eftir að rafmagnsbílar verða algerngari.
G. Tómas Gunnarsson, 15.12.2020 kl. 17:05
Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér og að fólk geri eins og þú og skjótist út fyrir svefninn til að stinga bílnum í hleðslu. Það kemur þá bara í ljós. Og ég veit ekki hvað hleðslutæki notar mikið til að hlaða, eða hvort bílar verði sítengdir og notkunin dreifist jafnt eins og sumir reikna með, eða hvað bílar verða margir eftir 10-15 ár. En útreikningarnir eru réttir þó viðmiðunartölurnar geti verið bæði hærri og lægri.
Orkueyðsla rafbíla er gefin upp í kílóvöttum en ekki kílóvattstundum. Rafgeymirinn inniheldur visst mörg kílóvött sem deilast niður á kílómetrana sem hægt er að aka á hleðslunni en ekki klukkutímana sem ekið er. En það er hleðslan sem hægt er að mæla í kílóvattstundum, tómur Leaf þarf 40 kílóvött með sína 40 kílóvattstunda rafhlöðu sama hvort hlaðið er með 40 kílóvatta súperhleðslu í einn klukkutíma, eins kílóvatta hleðslukríli í 40 tíma eða 100 vatta sólarrafhlöðu í 400 sólarstundir.
Bjarni segir 2017:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/16/varasamt_ad_blodmjolka_audlindir/
Og það vill svo til að "3% af öllu rafmagninu sem hér er framleitt" eru 600 gigavattstundir á ári sem eru 600.000 megavattstundir á ári. En virkjun sem skilar 600.000 megavattstundum á ári þarf að framleiða 68,5 megavött á klukkutíma allt árið.
Stóriðjan notar um 80% af raforkunni, 80% af 20 teravattstundum á ári. Sem eru 16 teravattstundir eða 16.000.000 megavattstundir eða megavött á ári eða 1826 megavött á klukkutíma. En öll heimili og fyrirtæki í eigu Íslendinga hafa þá samanlagt notað um 4 teravattstundir, 4.000 gigavattstundir, 4.000.000 megavattstundir eða 457 megavött á hverjum klukkutíma allt árið.
Megavattstundir eru fjöldi stunda ef notað er eitt megavatt á klukkutíma. 600 megavött og 600 megavattstundir eru sama orkumagnið, það er sama hvort þú tekur stöðugt 1 megavatt í 600 tíma eða 600 megavött á einum tíma.
Talan 585 hjá Búðarhálsvirkjun táknar gígavattstundir á ári, Ómar, eða framleidd gígavött á ári. Uppsett afl er hins vegar 95 megavattstundir á klukkutíma, venjulega er sleppt að nefna tímann oft og því talað um megavött á klukkutíma eða bara megavött því vatt er afl á klst. Búðarhálsvirkjun væri því 95 megavatta virkjun.
Vagn (IP-tala skráð) 15.12.2020 kl. 20:03
Uppgefin stærð rafhlaðna á öllum rafbílum og þar með raforkumagni til umráða í öllum þeim bókum og upplýsingum sem ég hef séð síðustu átta ár er gefin upp í kílóvattstundum, ekki kílóvöttum.
Fyrsta kynslóð Nissan Leaf var til dæmis með 24 kwst, síðan var það hækkað í 40 kwst og loks í 60 kwst.
Flestir nýjustu bílarnir sem eru með mestu drægnina eru með 52ja kwst, 60-64 kwst eða 77 kwst.
Aflgeta rafhreyflanna er hins vegar mismikið á annað hundrað kílvött í þessum bílum.
Bíllinn sem ég á er minnsti rafbíll landsins með 12,8 kwst geymi en uppgefið afl í rafhreyflinum er 15 kw.
Hvernig væri að þú röltir inn í eitt rafbílaumboð og fengir þetta staðfest?
Ómar Ragnarsson, 15.12.2020 kl. 20:49
Ekki ætla ég að fara út í hnippingar varðandi orkunotkn rafmagnsbílaflotans. En ef það er rétt að það sé að verða orkuskortur nú þegar þá þarf væntanlega að spíta svolítið í á næstu árum. Tenging raforkukerfisins gerir örugglega eitthvað eins og formaður VG minntist á um daginn og þá var hún væntanlega þar að tala um fyrir norðan þar sem VG liðar komu í veg fyrir lagningu dreifikerfis fyrir um áratug. Háspennulögn yfir hálendið myndi líka skila heilmiklu og ekki myndi spilla að leggja heilsársveg í leiðinni eins og þekktur skemmtikraftur lagði til fyrir nokkrum áratugum ef mig misminnir ekki. En það hefur ekki verið virkjað í áratugi og hlýtur að vera kominn tími á. Ef ekkert verður hinsvegar að gert verða hér engin orkuskipti.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 15.12.2020 kl. 21:01
300 þúsund bílar sem eru hlaðnir fjórða hvern dag. gera 75 þúsund á dag 7kw hleðslutæki við hvern bíl gera 525 þúsund kw ef allir hlaða ef að þeir koma úr vinnu. Ef flestir færu að hlaða bílinn á sunnudegi færi þessi orkuþörf langt upp fyrir þessi mörk
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 15.12.2020 kl. 21:46
Til að spara Vagni sporin getur hann litið á myndskreytt P.S. sem ég hef sett í upphaf bloggpistilsins.
"Þekktur skemmtikraftur" lagði það aldrei til að lagður yrði heilsársvegur yfir hálendið þótt hann fjallaði um málið í sjónvarpi.
Ómar Ragnarsson, 15.12.2020 kl. 21:50
Það verða ekki svo margir raf-bílar hér eins og fólk heldur og með bara 6 ára lífslend og orkuverð fjórfaldast eins og raunin varð í Noregi þá halla menn sér að BMW og Benz sem eru að koma með núll útslepp á bæði diesel og bensínbílum með 15-20 ára endingu sér hver maður hvert bílakaupin fara. Olía til 200 ára ef fyrir hendi í Noregi bara sem þeir eru búnir að prufubora og vita að annað eins er á óhreyfðu svæðunum svo ekki verðum við bensínlaus í bráð.
Eyjólfur Jónsson, 15.12.2020 kl. 22:46
Í athugasemd minni er því haldið fram fullum fetum að aðeins sé notuð kílóvattatalan varðandi eyðslu bíla en ekki talan með kílóvattstundunum sem eingöngu er notuð um rafhlöðuna.
"Orkueyðsla rafbíla er gefin upp í kílóvöttum en ekki kílóvattstundum. Rafgeymirinn inniheldur visst mörg kílóvött sem deilast niður á kílómetrana sem hægt er að aka á hleðslunni en ekki klukkutímana sem ekið er. En það er hleðslan sem hægt er að mæla í kílóvattstundum, tómur Leaf þarf 40 kílóvött með sína 40 kílóvattstunda rafhlöðu sama hvort hlaðið er með 40 kílóvatta súperhleðslu í einn klukkutíma, eins kílóvatta hleðslukríli í 40 tíma eða 100 vatta sólarrafhlöðu í 400 sólarstundir."
Rafgeymar eru gefnir upp í kílóvattstundum, eða amperstundum þeir litlu í bensínbílunum. Eyðslan er mæld í vöttum og mótor rafbílsins er gefinn upp í vöttum eða hestöflum (hestafl er það afl sem þarf til að lyfta 75kg um einn metra á sekúndu, eða 735,5 vött. Eins mætti segja 735,5 vött eru það afl sem þarf til að lyfta 75kg um einn metra á sekúndu. 149 kW rafmótor er því 202 hestöfl)
Því má svo bæta við að það er enginn munur á kílóvatti og kílóvattstund. 1 kílóvatt er ein kílóvattstund. Og 40 kílóvattstunda rafhlaða inniheldur fullhlaðin 40 kílóvött. Hvort er notað ræðst aðallega af hefð og siðum. Eldra fólk er gjarnara með að bæta þessu óþarfa "stundir" við vöttin. Vattstundir er eins rökrétt og hestaflstundir, tími er þegar hluti af mælieiningunum, sjá: " 75kg um einn metra á sekúndu ".
Vagn (IP-tala skráð) 15.12.2020 kl. 23:41
Í Katalognum eru gefnar upp tölur um 2300 bíla eins og sést á forsíðu.
En þú vilt kannski ekki skoða myndirnar af honum í bloggsíðunni.
Þrjár tölur eru gefnar upp um rafbila. Afl mótors í kílóvöttum.
Orkan sem er í rafhlöðunni í kílóvattstundum.
Síðan er þriðja talan í miklu nákvæmlegra og ítarlegra yfirliti með afar smáu letri. Sú tala sýnir hve mikilli orku í kílóvattstundum bíllinn eyðir á hverja 100 ekna kílómetra.
Síðasta talan er aðaltalan, því að meðalakstur bíla á ári er ekki mældur í klukkustundum, heldur í kílómetrum; ca 12-15 þúsund km á ári.
Þar með fæst út með því að margfalda orkueyðslu meðalbílsins í kílóvattstundum með fjólda bíla á landinu sú útkomutala sem felst samtals gígavattstundum þeirra allra.
Sú tala er ekki mæld í afl tölunni megavött, heldur gígavattSTUNDUM.
Ómar Ragnarsson, 16.12.2020 kl. 01:26
Og 1 gígavatt eru 1000 megavött, breytir engu þó "stundir" sé bætt við hvora töluna sem er. 1 gígavattstund og 1 gígavatt er nákvæmlega sami hluturinn, eini munurinn er að annað orðið er lengra.
Vagn (IP-tala skráð) 16.12.2020 kl. 03:41
Nei. Það er von að mér misminni eitthvað enda orðið langt síðan. En þetta var samt góð hugmynd hjá þér þau þér hugnist hún ekki í dag. Mér finnst þú reyndar hafi verið miklu skírari í kollinum þegar þú varst yngri og hafðir hár. En varðandi hálendisveg þá hrærist meira í kollinum á mér þó ég sé orðinn gamall enda hárprúður. Ég vil ekki einungis veg og háspennulínu heldur einnig rafmagnslest við hliðina til þess fyrst og fremst að sjá um vöruflutninga en sem einnig mætti nota til fólksflutninga og ferja bíla norður/ suður. Ég sé að næsta færsla hjá þér fjallar einmitt um álag á vegina sem fylgir vörubílunum og þarna væri ákveðin lausn. Þessi tilllaga er ekki sett fram til höfuðs náttúruvernd enda ef menn hugsa dæmið til enda þá sýnist mér að náttúran myndi njóta góðs af og sparnaður á orku.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 16.12.2020 kl. 08:21
Ég verð að biðja þig afsökunar, Vagn, en ég var svo frekur að veita mér þann munað í nótt að fara að sofa fyrr en klukkan 03:41 og er því fyrst að svara þér núna, einu sinni enn.
Hér er ein staðreynd, sem ég get lesið af orkureikningi mínum:
Þegar ég set rafbílinn minn í hleðslu með tóma rafhlöðu og ætla að fullhlaða hann á ég um tvennt að velja samkvæmt handbók bílsins:
1.
Ég hef nógan tíma og ætla að sofa vel og lengi og stilli á "slow" við inntakið á bílnum, en á þeirri stillingu er straumurinn 1,0 kílóvött. Læt rúlla eitt kílóvatt inn í 14 stundir og ég fæ reikning upp á 14 kílóvattsstundir ( 1 x 14 = 14 ). Ég borga fyrir kílóvattsstundir en hvorki fyrir kílóvöttin ein og sér né 14 stundirnar einar og sér, heldur margfeldið af þessu tvennu.
2. Ég þarf að vakna fyrr og stilli á "fast" við inntakið á bílnum. Þá rúlla 1,7 kílóvött inn í 8,5 stundir og ég fæ reikning upp á 14,45 kílóvattsstundir ( 1,7 x 8,5 = 14,45 ). Nokkurn veginn sama útkoma í orkukaupum og kostnaði og í 1.
Ómar Ragnarsson, 16.12.2020 kl. 08:26
Varðandi það hvort einhver hafi einhverntímann lagt til hugmynd hálendisveg, þá rifjar það upp nokkuð sem hefur lengi velzt um í kolli mínum háspennubraut yfir hálendið til að tryggja rafmagnsflutninga milli norður- og suðursvæðis landsins. Sú háspennubraut væri þá jafnframt teinabraut sem sinnti vöruflutningum milli norður og suðursvæðanna. Þessi flutningabraut yrði eðlilega rafknúin, enda stutt í rafmagn. Hún myndi létta mjög á flutningabílaumferð um þjóðvegina og yrði fljótari í förum.
Arnar (IP-tala skráð) 16.12.2020 kl. 12:11
Arnar, ég átta mig nú ekki alveg hvað þú meinar með háspennubraut/ teinabraut en held að þarna sé ákveðinn misskilningur á ferðinni. Ég hélt reyndar alltaf að lestarnar tækju rafmagn úr teinunum en áttaði mig síðan á því þegar ég fór út að straumurinn er tekinn að ofan . Enda væri nú svolítið hættulegt að nota teinana sem straumtaka. Hvernig núllið og jörðin eru síðan tengd í þessu veit ég ekki. En hugmyndin er góð að mínu mati.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 16.12.2020 kl. 16:39
Það sem ég á við, Jósef Smári, háspennubraut væri í raun braut, eða virki ofanjarðar sem bæri háspennukapla í stað mastra. En um leið væri hún þannig úr garði gerð að hægt yrði að koma fyrir braut sem flytti vörugáma. Engin gatnamót yrðu á leiðinni, aðeins tvær endastöðvar. Slík gámalest gæti farið margar ferðir á dag ef meðalhraði væri 100-120 km/klst. Útfærsla á tengingu er ég svo sem ekki með í kollinum en tæknifræðin fyndi eflaust út úr því.
Arnar (IP-tala skráð) 17.12.2020 kl. 13:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.