16.12.2020 | 18:26
Þegar tveir bílar veltu Cadillac úr sessi sem "Standard of the world".
Á fjórða áratug síðustu aldar var talað um Packard sem "Standard of the world" hvað lúxusbíla snerti. Það voru til miklu dýrari lúxusbílar, en gæðamunurinn þótti of lítill fyrir þá.
Packard var á þessum árum eingöngu með hágæða átta strokka vélar, sem vógu næstum hálft tonn, en gáfu einstaklega þýðan gang og áreynslulaust orkuflæði.
Annað var eftir því og útlitið var konunglegt með lóðrétt framstefni með afar fallegu lóðréttu grilli.
Í hremmingum kreppunnar gerðu verksmiðjurnar sín fyrstu mistök með því að bjóða til sölu minni og ódýrari 6 strokka bíla samhliða 8 strokka bílnum.
Þótt þessir bílar seldust það vel að þeir björguðu verksmiðjunum fyrir horn, rýrðu þeir ímynd merkisins til lengri tíma litið.
General Motors létu sig hafa það að tapa á Cadillac án þess að freistast til að slá af kröfunum um átta strokka vélar.
Packard tókst að gera nútímalegri bil, Packard Clipper, rétt fyrir stríð og var einn slíkur um borð í Goðafossi sem gjöf frá Bandaríkjaforseta þegar skipinu var sökkt í nóvember 1944.
Grái bíllinn hér efst er af þeirri gerð.
Aðeins eldri Packard með gamla laginu kom í staðinn íslenska forsetaembættið límdi sig við "Standard of the world" eftir stríð.
Síðuhafi man vel eftir því þegar nýr forsetabíll kom 1948 og grillið var nokkuð tignarlegt með styttu af fugli fyrir ofan eins og sjá má af mynd af svörtum Packard 48. .
Næstu ár varð þessi framendi hins vegar mun tilkomuminni.
1948 komu Ford, GM og Chrysler fram með alveg nýjar gerðir og auk þess splunkunýjar toppventla V-8 vélar fyrir Oldsmobile og Cadillac, Packard átti engin svör við þessum frábæru vélum og Packard Clipper var vandræða fyrirbæri.
Tveir slæmir kostir í boði. Að hætta við hann og sitja uppi með mikinn kostnað vegna hönnunar á úreltum bíl, þótt fagur væri; - eða að taka þetta viðrini og tjasla upp á útlitið til næstu 3-4 ára.
Þetta var gert en mislukkaðist að mestu; hrúgað var 100 kílóum utan á hliðarnar af pjátri til þess að brettalínan væri bein eins og tískan bauð og bíllinn fékk viðurnefnið "ólétti fillinn."
Viðbótarpjátrið á hliðunum þótti hallærislegt vegna þess hve neðarlega þessi viðbót var.
Keyptur var svona Packard handa íslenska forsetaembættinu 1948 til næstu tíu ára.
Þegar alveg nýr Packard með nýrri V-8 vél kom fram 1952 var það of seint og 1956 sameinaðist Packard Studebaker og Nash með þeim afleiðingum að 1957 var dýrasta gerð Studebaker dubbuð upp sem mislukkaður Packard og fékk viðurnefnið Packardbaker; það sáu allir að þetta var bara Studebaker, að vísu býsna góður bíll en enginn konungur bílanna.
1957 var greinilegt að þeir sem réðu því að Packardbaker af þeirri árgerð var keyptur, fylgdust illa með málum vestra og því sem var að gerast í Evrópu.
Það hefði jafnvel verið nær að kaupa Citroen DS eða bíða í tvö til fjögur ár og kaupa Mercedes-Benz SEL "fintail."
1958 náði niðurlæging Packard hámarki, svo ljótur og asnalegur var sá bíll.
Allir bílar frá keppinautunum komu með fjögur framljós 1957 og því var reynt að troða fjórum framljósum á þennan bíl, án þess að það væri pláss fyrir þau eins og sjá má af myndum af þessum bíl.
Afturendinn var herfilegur, mislukkuð eftirlíking af Dodge 57 og á hliðarnar var klesst eins konar öfugum armhvílum vitlausu megin á hurðunum!
Bíllinn kolfétt og auk þess kom í ljós þessi ár að það var Studebaker sem hafði allan tímann verið "sjúklingurinn" í AMC samsteypunni, sem dró hina niður.
Það var arfa vitlaust að fara með framleiðsluna til South Bend í úrelta verksmiðju Studebaker með alltof hátimbraða yfirbyggingu.
1958 Packardbakerinn varð banabiti hins fyrrum mikilsvirta bílaframleiðanda, sem var lagður niður.
Þótt mikil eftirspurn eftir bílum linaði raunir Packard til ársins 1952, brunaði Cadillac fram úr á þessum árum.
Hann hrifsaði til sín titilinn "Standard of the world" sem merkið hélt næstu fjóra áratugina.
Cadillac 1948 varð fyrsti bíllinn sem var prýddur smáum og smekklegum "uggum" sem afturljósin voru í, og var í þessu efni átta árum á undan hrikalegri tískubylgju, sem hófst 1956 hjá Chrysler og náði hámarki 1969.
Cadillac markaði þau tímamót 1948, að fram að því höfðu menn ævinlega horft á framenda bíla sem aðalatriðið í útlitinu, en ugginn eða hinn smái afturljósturn aftan á Caddillac gaf afturhluta bílsins jafn áhugavert sjónarhorn og framendinn.
En víkjum aftur að umskiptunum í kringum 1990.
Á níunda áratugnum kom Mercedes Benz fram með stórbætta dýrustu gerð sína, en Kanar uggðu ekki að sér; þeir voru jú sigurvegarar í Seinni heimsstyrjöldinn, sem skildi Þýskaland og Japan eftir í rústum.
En í kringum 1990 birtust tveir lúxusbílar hjá þessum tveimur tapþjóðum. Mercedes Bens S hafði að vísu veitt Caddilac keppni um skeið, en með nýrri gerð 1991 voru úrslitin ráðin.
Tveimur árum áðu hafði Lexus LS 400 árið markað ný viðmið hvað varðaði "Standard of the world."
Skyndilega var Cadillac ekki lúxusbíllinn, sem þjóðhöfðingjar kepptust um að nota.
Og Benzinn er enn á toppnum eftir þrjátíu ára velgengnisgöngu.
![]() |
Nýr Mercedes-Benz Maybach S-Class frumsýndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sú var tíðin að bílar litu út eins og alvöru bílar. Takk fyrir þessar flottu myndir. Nú bíð ég bara eftir að fá 300 E Bensinn minn 1989 úr yfirhalningu í vikunni. Það verður gaman.
Þorsteinn Siglaugsson, 16.12.2020 kl. 23:07
Mér finnst þessi nýji Bens einstaklega fallegur. Samt með svip Rolls Roys og Bentley, eiginlega eins og afkvæmi þeirra þ.e. ef þeir gætu eignast afkvæmi.
Jónas Ómar Snorrason, 27.12.2020 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.