19.12.2020 | 22:10
Gætu verið betri fréttir frá útlöndum í veirumálum.
Tvær fréttir frá útlöndum, sem bárust um svipað leyti nú síðdegis eru lítt til þess fallnar að auka mönnum bjartsýni í COVID-19 málum. Önnur þeirra greinir frá nýrri tegund kórónaveirunnar, sem fundist hefur í Bretlandi sem sé 70 prósent meira smitandi en sú, sem glímt hefur verið við fram að þessu.
Þetta hlýtur að kalla á enn meiri viðbúnað og varúð en verið hefur.
Hin fréttin er ekki með mikinn jólasvip, því að af henni má ráða hættuna á því að í hönd geti farið kapphlaup þjóða við að krækja sér sem fyrst í sem mest bóluefni.
Í því efni vekur umfjöllun Der Spiegel athygli, því að í henni er mörgum flötum þessa máls velt upp sem geta falið í sér að álíka ástand kunni að skapast og þegar margir reyna að komast í björgunarbáta á sökkvandi skipi.
Við slíkar aðstæður er alltaf hætta á að hinir smærri troðist undir, og enda þótt framundan kunni að vera tafir vegna seinagangs í kerfinu í Evrópu, er ekki líklegt að íslensk stjórnvöld eigi greiða leið með því að segja sig úr samfloti Evrópuþjóða um þessi mál og komast á þann hátt með einhverri yfirburða ýtni framar í röðina.
Með slíkum einleik yrði tekin gríðarleg áhætta á því að verða undir í baráttunni.
Nema menn hugsi sem svo að það sé líklegt að vegna þess hve við erum örsmá þjóð, muni lyfjafyrirtækin frekar gauka einhverju að okkur sérstaklega.
Eða að það sé sigurvænlegt að segja upp því alþjóðlega samstarfi sem við erum í og fá eitthvað miklu meira í staðinn, einir og sér?
Þegar horft er á stóru myndina á heimsvísu stingur kannski mest í augun að talið er að milljarður manna muni ekkert bóluefni getað fengið á árinu 2021.
Bóluefnaframleiðslan komin á fulla ferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það verður miklu meira en milljarður manna sem fær ekkert bóluefni. En líklega skiptir það engu máli því við getum gert ráð fyrir að þegar hafi tveir milljarðar fengið pestina. Í Stokkhólmi sýna rannsóknir nú að um 40% hafi þegar öðlast ónæmi.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.12.2020 kl. 00:54
Það er eitthvað undarlegt við fréttir af þessum bóluefnum. Kannski er einhver togstreita á bak við, sem við fáum ekki að vita um.
En í gærkvöld heyrði ég í þýskum fréttum að opnuð hefðu verið tíu km löng neðansjávargöng í Færeyjum. Ekkert hef ég heyrt um þetta getið í fréttum RÚN. Þykir það kannski ekki fréttnæmt eða hefur fréttin farið fram hjá mér?
Hörður Þormar, 20.12.2020 kl. 10:48
Göngin liggja til Austureyjar og geta stytt ferðatíma um allt að klukkustund.
Leiðin milli Klakksvíkur, sem er næst stærsti bær Færeyja,, og Þórshafnar styttist um hálftíma.
Eitt ógleymasta ferðalag mitt á lífsleiðinni var sigling á Dronning Alexadnrine á milli Klakksvíkur og Þórshafnar um hinn stórbrotnu sund á milli eyjanna í heiðskíru veðri og hlýju veðri.
Þá hefði mann aldrei órað fyrir að hægt yrði að aka neðansjávar að hluta á milli þessara eyja.
Ómar Ragnarsson, 20.12.2020 kl. 12:17
Það er í sjálfu sér ekki verið að gagnrýna samflot okkar með esb í kaupum á bóluefni. Það hefur legið fyrir í nokkrar vikur án gagnrýni. Það sem verið er að gagn4ýna er sleifarskapur framkvæmdastjórnarinnar og ef satt er, sú pólitíska ákvörðun að ekki hafi mátt kaupa meira af þýsk-bandaríska fyrirtækinu af því hugsanlega muni franskt fyrirtæki einnig komið með bóluefni, einhvern tímann í framtíðinni.
Það er eðlilegt að taka upp umræðu um málið, enda ljóst að veiran mun plaga Evrópu og okkur hér á landi mun lengur en þarf.
Reyndar er umræðan um þetta hér á landi nánast engin, meðan allt er vitlaust út af því í Þýskalandi
Gunnar Heiðarsson, 20.12.2020 kl. 12:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.