Gylliboð og orkubruðl?

Alheims netvæðingin hefur skapað miklar framfarir og nýja möguleika í samskiptum, efnahagslífi og þjóðfélagsþáttum ríkja heims. 

En henni fylgja líka lúmskir gallar eins og sjá má af tengdri frétt þar fyrirtækið Valitor varar við svikum af hálfu rafmyntarfyrirtækisins Bitcoin.  

Um langt skeið hafa skotið upp kollinum eins konar herferðir á samfélagsmiðlum varðandi ævintýralegan ágóða sem þátttakendur í braski með rafmyntarinnar bíði ef þeir bara táka þátt. 

Fróðleg umfjöllun á RÚV í þessari viku hefur sagt aðra sögu. Hún felst í því að jafnvel þótt einhverjir kunni að hagnast stórum á þátttöku sé aðeins um að ræða hluta þátttakendanna, því að sveiflur í veltunni séu afar stórar, bæði upp og niður. 

Það bendir til þess, sem áður hefur verið spurt um hér á síðunni, hvernig stórir hópar fólks geti grætt hrikalegar háar upphæðir án þess að nokkur tapi fé í leiðinni. 

Í einni athugasemd var því svarað til, að þetta væri raunverulegur gróði svipaður þeim sem verður til hjá þeim sem stunda hlutabréfaviðskipti. 

En sú skýring hrekkur skammt hvað varðar það að það geti ekki allir grætt alltaf á öllum. 

Í tilkynningu Valitors segir frá dæmum um það að falskar nafnbirtingar og falsfréttir séu stundaðar til að segja frá því hvernig nafnkunnir Íslendingar hagnist á Bitcoin viðskiptum. 

Það er ekki traustvekjand ef þessi er raunin. 

Síðan er önnur og stærri hlið á þessu máli, sem Andri Snær Magnason hefur vakið athygli á, en það er sú vaxandi og mikla orkunotkun sem starfsemin leiði af sér í gagnaverum. 

Þar sé um að ræða orkubruðl á heimsvísu upp á hundraðfalda orkuframleiðslu Íslands.   


mbl.is Valitor varar við svikum sem tengjast Bitcoin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bitcoin er rafmynt, gjaldmiðill, en ekki rafmyntarfyrirtæki. Rétt eins og krónur, pund og dollarar eru raunmyntir en ekki raunmyntarfyrirtæki.

Falskar nafnbirtingar og falsfréttir til að segja frá því hvernig nafnkunnir Íslendingar hagnist á Bitcoin viðskiptum koma Bitcoin ekkert við og tengjast ekki Bitcoin á neinn hátt. Það væri eins hægt að svíkja fólk með lokkandi falsfréttum um brask með krónur, gull eða Icelandair. Enda er ekki verið að selja Bitcoin eða Icelandair heldur að bjóða fólki að senda einhverjum peninga sem hann lofar að margfalda með braski. Og "námagröftur" rafmynta tengist starfsemi svikahrappana ekkert.

Bitcoin er ekki tengt neinu ríki og engum banka. Veltan er hvergi skráð og viðskiptin eru aðeins milli tveggja aðila, óskráð og órekjanleg. Gengið sveiflast eftir því hvað fólk er tilbúið til að borga og á hvaða verði fólk er tilbúið til að selja. Framboðið er takmarkað og verður aldrei meira en 21 milljón Bitcoin.

Vagn (IP-tala skráð) 13.2.2021 kl. 23:29

2 identicon

Munurinn á bitcoin annars vegar og krónu, evru og dal hins vegar er sá að það stendur ekkert á bak við bitcoin, enginn ábyrgist verðgildi þess. Seðlabankar ábyrgjast verðgildi þjóðmynta og tryggingin felst í þeim vörum sem hver þjóð hefur til ráðstöfunar og stjórnvöld sjá til að séu fáanlegar fyrir gjaldmiðilinn. Ekkert slíkt er á bak við bitcoin þannig að þann dag sem traustið á gjaldmiðlinum fellur er hann verðlaus. Menn gætu eins haft viðskipti með matadorpeninga og bitcoin. Hér, eins og víðar, virkar lögmálið um meirafíflið.

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 14.2.2021 kl. 09:47

3 identicon

Reyndar er það þannig að ekkert, nema traust, stendur á bak við bitcoin, krónu, evru eða dal, enginn ábyrgist verðgildi þessara gjaldmiðla og allir eru í dag á frjálsum markaði, hækka og lækka eftir eftirspurn og framboði. Krónan gæti þess vegna verið búin að missa helming verðgildis síns á innan við viku, og það hefur gerst. Það er heldur ekki óþekkt í sögunni að hjólbörufarma ríkisgjaldmiðils hefur þurft til að kaupa brauðhleif. Seðlabankar ábyrgjast ekki verðgildi þjóðmynta. Krónan væri ekki búin að missa 99,99% af verðgildi sínu frá seinna stríði ef Seðlabankinn ábyrgðist verðgildi hennar. Munurinn á bitcoin, krónu, evru og dal er minni en margir halda.

Vagn (IP-tala skráð) 14.2.2021 kl. 19:28

4 identicon

Öngvu síður er það svo að gefi þjóð út að tiltekinn gjaldmiðill skuli gilda þar ábyrgjast stjórnvöld þess lands að hægt sé að kaupa vörur fyrir hann. Bitcoin á sér engan slíkan bakhjarl og er því í eðli sínu jafngóður gjaldmiðill og matadorpeningar.

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 15.2.2021 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband