21.2.2021 | 12:24
Síbylja um gagnsleysi og skaðsemi endurnýjanlegra orkugjafa.
Undanfarna daga hefur mátt sjá nokkurs konar síbylju á netinu um það, að rafmagnsleysi í Texas hafi verið kenna notkun endurnýjanlegra orkugjafa eins og vindorku og birtar myndir af ísuðum vindmyllum með þessum fréttum.
Á þessari síðu hefur reyndar verið bent á langa hefð Texasríkis hvað varðar olíunotkun, en slíkar athygasemdir hafa drukknað í síbyljunni.
Nú ber svo við, seint og um síðir, að verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti bendir á þær staðreyndir að mestar truflanir urðu í gasleiðslum og raforkulínukerfinu, sem ekki sé hannað með kuldakast í huga og þar að auki sé raforkukerfi Texas einangrað frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna.
Rafmagnsleysið sé fyrst og fremst áfellisdómur yfir skipulagi, ekki vindorku.
Þegar ferðast er um Bandaríkin er víða áberandi hve miklu minna er um það að leggja raflínur í jörðu í íbúðahverfum, en það er hins vegar regla hér á landi.
Svo mjög virðist hugsun Kananna snúast um olíuna sem hitagjafa, að nokkrir vestra hafa farið flatt á því að setjast inn í bíla sína í gangi inni í bílskúrum til þess að halda hita á sér, en dáið af lofteitrun úr útblásturskerfum bílanna.
Síbyljan hér um endurnýjanlegu orkugjafanna minnir á svipaða síbylju seint á árinu 2019 þegar slæmar fréttir af rafbílum komu í bunum á tímabili, rafbíll átti að hafa valdið stærsta bílageymslubruna á Norðurlöndum í Noregi, slökkviliðið að vera á neyðaræfingum hér á landi vegna tíðra brauna í rafbílum, rafbílar þyldu ekki frost nema að þeir væru "hafðir í gangi á næturna" og að einn strætisvagn mengaði jafn mikið og 7500 fólksbílar!
Síðastnefnda fullyrðingin var borin hressilega til baka í útvarpsfrétt og þegar til kom eftir sólarhring fullyrðinga um skaðvaldinn í Noregi upplýstist að það var gamall Opel Zafira, sem brann í bílahúsinu; slökkviliðið íslenska var ekki á neinum neyðaræfingum heldur aðeins að aðlaga sig að breyttum bílum í flotanum, enda bílabrunar tífalt fátíðari í rafbílum en bensínbílum af augljósum ástæðum; þeir síðarnefndu er nefnilega knúnir af eldsneyti sem dælt er inn í svonefnd brunahólf eða sprengihólf.
Ég hef átt rafbíl í rúmlega þrjú ár sem hefur staðið úti allan tímann vandaræðalaust.
Áfellisdómur yfir skipulagi, ekki vindorku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.