Kjósandi á Völlunum og annar við Akranes. Vægi annars tvöfalt meira en hins.

Skoðum eitt af mörgum dæmum um fáránleg áhrif misvægis atkvæða hér á landi. Skoðum tvo kjósendur, annar á heima austan við Akranes en hinn á Völlunum syðst í Hafnarfirði. 

Báðir eru álíka lengi á leiðinni heiman frá sér til að reka erindi við ríkisvaldið í Reykjavík. Báðir búa á sama atvinnusvæðinu, sem myndar "Virkt borgarsvæði" og nær frá Borgarnesi austur að Þjórsá. 

En samt er þvi þannig fyrir komið, að vægi atkvæðis kjósandans á Völlunum er meira en tvöfalt minna en vægi atkvæðis kjósandans austan við Akranes. 

Þetta er að sjálfsögðu fráleitt fyrirkomulag enda var yfirgnæfandi meirihluti þeirra Íslendinga, sem greiddu sérstaklega atkvæði um jafnt vægi atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 þeirrar skoðunar að vægi atkvæða í kosningum ætti að vera jafnt. 

En meirihluti á Alþingi hafnaði frumvarpi um slíkt nú í þinglok. 

Skoðum áhrif þessa á málið, sem þessi pistill er tengdur við, prófkjör í Kraganum.

Frambjóðanda í kjördæmi kjósandans á Völlunum finnst það ekki gott, að sjötta sætið, sem hún lenti í í prófkjöri, skilaði flokki hennar ekki þingsæti í síðustu Alþingiskosningum.  

Ef atkvæði kjósenda í þeim kosningum hefðu vegið jafnt og í næsta kjördæmi, hefði frambjóðandinn í því sæti hins vegar flogið inn á þing. 

Kjördæmaskipanin hefur í áratugi verið kolröng miðað við þá forsendu sem gefin var fyrir henni, að íbúar innan hvers kjöræmis ættu sameiginlega hagsmuni og að kjördæmin yrðu álíka fjölmenn. 

Hvað er það til dæmis sem kjósendur á Akranesi eiga sameiginlegt með kjósendum í Fljótum í Skagafirði? 

Hvað eiga kjósendur á Siglufirði svona mikið sameiginlegt með kjósendum á Breiðdalsvík? 

Og hvað eiga kjósendur á Hornafirði svona mikið sameiginlegt með kjósendum í Vogum á Vatnsleysuströnd? 

Og hvað er svona mikið ólíkt með hagsmunum kjósenda sem búa við Hringbraut í Reykjavík, en samt er húsaröðin að norðanverðu við götuna í öðru kjördæmi en húsaröðin að sunnanverðu við sömu götu?

Af hverju er Reykjavík eina bæjarfélagið á landinu sem er skipt í tvö kjördæmi?

Jú, 1999 var það gefið upp sem forsenda, að kjördæmin sex yrðu með sem jafnastan kjósendafjölda.  

En ef ástæðan var þessi, af hverju var Reykjavík þá ekki frekar skipt í tvo hluta, sitt hvorum  megin við Elliðaárnar, sem hefði verið eðlilegri lausn?

 

 

 

 

'

 


mbl.is „Listinn væri sterkari með fleiri konur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er sammála þér með að vægi atkvæða eigi að vera jafnt hvar sem er á landinu. En það er hins vegar ekki ástæðan fyrir því að ekki var farið alfarið eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 varðandi nýja stjórnarskrá. Einungis 49% kosningabærra tóku þátt og þegar síðan kemur að alþingi þá eru þar þingmenn sem eru kosnir af ca. 90% landsmanna. Þetta misvægi veldur því að ekki er meirihluti fyrir að fara alfarið eftir tillögum stjórnlagaráðs.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 13.6.2021 kl. 17:31

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Brexit var samþykkt í Bretlandi af 37 prósentum kjósenda á kjörskrá því að kosningaþátttakan var aðeins 75 prósent. En að sjálfsögðu var farið eftir hinni tæpu niðurstöðu.  

Þrátt fyrir 49 prósent þátttöku hér, var svo mikill yfirgnæfandi meirihluti þeirra, sem kusu, sem vildu stjórnarskrá stjórnlagaráðs, auðlindir í þjóðareign, jafnt vægi atkvæða og beint lýðræði, að miðað við fjölda kjósenda á kjörskrá, var fylgið álíka mikið og í Brexit-kosningunum.   

Og að sjálfsögðu á hið sama að gilda hér og í Bretlandi. 

Ómar Ragnarsson, 13.6.2021 kl. 18:30

3 identicon

Í raun og veru var ég aðeins að reyna að skýra hversvegna niðurstaðan var svona á þinginu. Ég var úti í Noregi þegar þessi þjóðaratkvæðagreiðsla var en fylgdist samt með fréttum þótt ég ætti þess ekki kost að kjósa. Af þeim mátti merkja að stjórnarandstaðan þá hvatti fók til að taka ekki þátt í þessari kosningu og það skýrir að mestu þátttökuna. Þ.E. kjósendur framsóknar og sjálfstæðisflokks tóku ekki þátt. Það var siðan svolítið misvísandi hvernig fólk átti að svara í þessari könnun.Eins og þú gerir þér væntanlega grein fyrir þá lá alltaf fyrir að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla var leiðbeinandi en ekki bindandi. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að samkvæmt núverandi lögum er það þingið eitt sem getur breytt stjórnarskrá og næsta þarf að samþykkja þær breytingar. Sjálfur er ég á þeirri skoðun að best sé að taka einstaka liði í stjórnarskránni út úr sjórnarskránni og breyta af þinginu en það sé síðan þjóðarinnar að kjósa um þær breytingar samhliða alþingiskosningum.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 13.6.2021 kl. 19:34

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þó að það sé ekki aðalatriðið, er rétt að hafa í huga að þátttakan í Brexit kosningunni var meiri en í þingkosningum í Bretlandi um áratugaskeið.

Því var öfugt farið í atkvæðagreiðslunni á Íslandi.

Kostirnir í Bretlandi voru skýrir, en það sama ekki hægt að segja á Íslandi.  Enginn greiddi til dæmis atkvæði með því að tillögur stjórnlaganefndar yrðu teknar upp í heild.

Sá möguleiki var einfaldlega ekki í boði.  Loðið orðalag eins og "til grundvallar" var notað.

Ég myndi hvetja alla til að hlusta á viðtal við Bryndísi Hlöðversdóttur á Sprengisandi fyrir viku síðan.

Málflutningur hennar er traustur og athyglisverður.

https://www.visir.is/k/f265a4a4-ae4d-4152-8989-f59aade12584-1622977915188

G. Tómas Gunnarsson, 13.6.2021 kl. 20:24

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Kristrún Heimisdóttir er bráðgreind og með þetta hreinu Tómas. Ég nokkuð viss um að Bryndís Hlöðversdóttir er ekki með henni á báti í þessu.

Guðmundur Jónsson, 15.6.2021 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband