Stuðlagil er enn, en Stuðlagátt, Stapar, Arnarhvoll, langur nafnalisti, að eilífu grafin.

Þetar Kárahnjúkavirkjun var á dagskrá, stærsta og mest umhverfisspillandi mannvirki Íslandssögunnar, reyndi náttúruverndarfólk að halda fram öllum hinum fjölmörgu náttúruperlum sem Austurland bjó yfir til að styðja þá skoðun hinnar öflu baráttukonu, Louis Crossley, að virkjanasvæðið og áhrifasvæði þess byggi yfir þvílíkum náttúruverðmætum, að miklu frekar ætti að friða það, gera að þjóðgarði sem væri á Heimsminjaskrá UNESCO.Hjalladalur, Stapar (1) 

Crossley hafði verið í fararbroddi slíkrar lausnar varðandi merkilega Franklinána á Tasmaníu og vissi hvað hún söng. 

Í viðleitni sinni við að halda fram náttúruverðmætum Austurlands var nefndur langur nafnalisti: Hafrahvammagljúfur, Stuðlagil, Sandskeið, Hjallar, Stapar, stuðlakletturinn Arnarhvoll, fossagilið Stuðlagátt, Töfrafoss, heita laugin Lindur, Kringilsárrani og Hraukarnir þar, Sauðárhraukar, Sauðárflugvöllur o.s.frv á svæði fyrirhugaðs Hálslóns.

Þetta var þó aðeins á þeim hluta virkjunarinnar sem tengdist virkjun Jökulsár á Dal, en listinn var líka langur á svæði virkjunar Jökulsár á Fljótsdal, fossarnir í þeirri á, stórfossarnir Faxi og Kirkjufoss, fossaröðin í Kelduá, hið fagra Folavatn að ógleymdum Eyjabökkum.  

En í krafti yfirburða í fjármagni, aðstöðu og völdum kaffærðu virkjanafíklar andófið og töluðu náttúruverðmæti Austurlands skipulega niður með þáverandi umhverfisráðherra í fararbroddi, sem gaf Eyjabökkum falleinkun án þess að skoða þá eða sjá, heldur felldi þennan dóm standandi í tíu kílómetra fjarlægð. . 

Virkjanamenn efndu fyrst til mikilla átaka um Eyjabakka, svo harðra, að náttúruverndarhreyfingin stóð örmagna eftir þann mikla slag.

Langi náttúrunafnalistinn drukknaði í þessu moldviðri, þar á meðal Stuðlagil, sem var, er og verður á sínum stað á Jökuldal. 

Þegar tíminn hefur liðið og mestöllum þessum stórkostlegu verðmætum hefur verið tortímt, standa samt nokkur þeirra eftir, misjafnlega lemstruð þó. 

Eitt þeirra, Stuðlagil, nokkra tugi kílómetra utar en Kárahnjúkastífla, hefur þó þá sérstöðu að vera næst hringveginum og betur aðgengilegt á lengri tíma á sumrin en áður var. 

En eftir stendur sú niðurstaða Rammaætlunar, sem séð var um að birtist ekki fyrr en búið væri að undirrita samnninga um Kárahnjúkavirkjun, að þessi virkjun hefur valdið mestu mögulegu neikvæðum og óafturkræfum umhverfisspjöllum allra virkjaakosta á Íslandi. 

Í þessu efsta sæti trónir hún og á aðeins einn jafnoka; virkjun Jökulsár á Fjöllum.  

 

 

 


mbl.is Leyndarmálið um Stuðlagil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Nákvæmlega Ómar. Það að standa með náttúrunni á ekkert með hægri eða vinstri að gera. Þetta hafa bændurnir gert í gegnum aldirnar, að elska landið sitt, enda lifað á því. Í seinni tíð kapítalismans hafa þeir þó sumir freistast til að selja fyrir stórfé sín lönd, og sumir fyrir minna, og ekki grætt svo mikið á því. 

Málið er það að ríkisstjórnir á hverjum tíma vilja alltaf veifa trompi framaní kjósendur til að hreykja sér af. Þetta var eitt slíkt tromp, en með hruninu 2008 fóru þeir stjórnmálamenn í ruslafötuna sem höfðu talað fyrir þessu, því þeir voru allir stimplaðir skemmd vara og spillt eftir hrunið. Þá gleymdist mörgum þessi stóra fórn.

Gott íslenzkt máltæki segir: "Sígandi lukka er bezt". Sem þýðir kannski í þessu sambandi: Betra er að nýta landið með hefðbundnum hætti hægt og rólega þannig að allt sé endurnýjanlegt, ekki í stórum stökkum eins og þarna með óafturkræfum breytingum.

Sama meginhugsunin var á bakvið Kárahnjúkavirkjun og söluna á bönkunum, sem margir telja upptaktinn að loftbóluhagkerfinu sem fór svona illa með þjóðina. Dollaramerkin í augunum blinduðu menn og villtu þeim sýn. Það sást ekki fyrr en eftir hrunið að þessi stórgróðahugmynd var orðin úrelt.

Hins vegar er það kaldhæðnilega í þessu öllu að það var ferðaþjónustan, sem byggist á náttúrufegurðinni,  sem kom okkur uppúr kreppunni 2008, og sama ferðaþjónusta varð að loftbólufyrirbæri sem óx sér yfir höfuð og varð vandamál í covid-kreppunni. "Í draumi sérhvers manns er fall hans falið" kvað Steinn Steinarr og var forspár. 

Þegar upp er staðið er það strit mannsins sem býr til hagvöxtinn og hugvitið en ekki arðránið á náttúrunni.

Ingólfur Sigurðsson, 15.6.2021 kl. 10:28

2 identicon

Erlendur ferðamaður sem víða hefur farið lét þess getið í viðatali að sér hefði brugðið að sjá að Ísland væri nær ónumið land.

Þetta hafa fleiri uppgötvað, Ísland er komið inn á heimskortið.

Búast má við mikilli fjölgun innflytjenda til landsins í næstu framtíð. Við það mun ágangurinn á ósnortna náttúru vaxa, við erum bara að sjá byrjunina.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 15.6.2021 kl. 10:52

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Útsýni og eitthvað til að glápa á er harla léttvægt þegar kemur að þvi að hafa í sig og á.Álverið á Reyðarfirði er margfalt gagnlegra en eitthvað náttúrugláp.Við verðum að nota landið til að lifa af því en ekki bulla um fagurfæðilega óskhyggju.Kárahnjúkavirkjun er stórkostleg og hverrar músarholu virði sem lokaðist.Virkjanir lengi lifi

Halldór Jónsson, 15.6.2021 kl. 12:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hver "bullar"?    Gullfoss, Geysir, Þingvellir og öll hin ósnortnu náttúruverðmæti þjóðgarðanna stóðu undir mestu efnahagssveiflu í Íslandssögunni á árunum 2011 5il 2019 án þess að framleiða eitt enasta magavatt af rafnmagni.

Hver "bullar"?

Ómar Ragnarsson, 15.6.2021 kl. 13:10

5 identicon

Ómar, þú fórst ferð eftir ferð upp að Kárahnjúkum sem leiðsögumaður á byggingartíma virkjunarinnar m.a. fyrir Landsbankann og hefur varla gert það í sjálfboðavinnu. Hefur vafalítið makað þarna krókinn. Og ekki heyrðist þú hallmæla framkvæmdunum í þessum ferðum.

Hjorvar O Jensson (IP-tala skráð) 15.6.2021 kl. 14:19

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við vorum tveir leiðsögumenn í þessum ferðum fyrir Landsvirku, ég og Hákon heitinn Aðalsteinsson, og unnum þetta í sameiningu. Ég gerði að skilyrði fyrirfram að sýna sérstaka mynd, sem ég hafði gert um virkjunina og sýna hana við morgunvverðinn á Reykjavíkurflugvelli, vegna þess að annars yrði kynning Landsvirkjunar þarna afar einhliða. 

Þetta þýddi að útkoman úr þessu fjárhagslega var ígildi sjálfboðavinnu. En þú kallar slíkt "að maka krókinn."

Mér þætti fróðlegt, Hjörvar, hvaðan þú hafir það að ég hefi "ekki heyrst hallmæla framkvæmdunum í þessum ferðum." 

Meðal þess sem ég gerði var að leiðrétta þá fullyrðingu leiðsögumanns Landsvirkjunar að í ferðinni sæi fólkið landið, sem sökkva átti undir Hálslón. 

Hið rétta var að aðeins örlítið brot af lónstæðinu sást í ferðinni. 

Síðasta ferðin fyrir Landsbankann var farin eftir að ég hafði átaðið fyrir mótmælagöngu gegn Kárahnjúkavirkjun í fjölmennustu mótmælum af því tagi í marga áratugi.   

Ómar Ragnarsson, 15.6.2021 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband